Skírnir - 01.04.2011, Page 69
SKÍRNIR
ÓBOÐINN GESTUR
67
3
Framarlega í smásögu Halldórs Stefánssonar, „Draumur til kaups“
(1942), segir frá því hvernig heimili Auðuns Auðunssonar, aðal-
söguhetjunnar, „er hrundið inn á leiksvið heimsatburðanna“ og í
kjölfarið er upplýst: ,,[H]inn 10. maí 1940 tekur breska heimsveldið
hús á íslensku þjóðinni..."6 Af þessu má glöggt ráða að heimili
Auðuns er ætlað að vera táknmynd Islands. Auðun er þenkjandi
maður, ljúfur draumóra- og hugsjónamaður sem trúir á þróun
mannlegrar hugsunar og þekkingar og setur hugmyndir sínar og
þanka á blað. Við þær nýju aðstæður sem skapast hafa í kjölfar her-
námsins sættir eiginkona hans, Þorbjörg Þorbjörnsdóttir, sig ekki
lengur við að þurfa ein að sjá til þess að endar nái saman. Fólkið í
kringum hana er að verða ríkt og hún vill sinn skerf af kökunni.
Þorbjörg stendur manni sínum ekki á sporði sem hugsuður, hún er
hagsýn kona sem skilur hið nýja neytendasamfélag og er áfram um
að nýta framtakssemi sína þeim báðum til hagsbóta. Auðun er hins
vegar of „forneskjulegur" til að verða að liði, hann er of viðkvæmur
fyrir „Bretavinnu" og „útskýringar hans á óákveðnum greini“ duga
ekki ungu konunum sem vilja læra að tala við dátana (327). Heim-
ilið í miðju sögunnar hýsir því fulltrúa gamla og nýja Islands — hin
aldagamla bókmenning íslands mætir skyndilega kröfum nútíma-
legrar neytendamenningar þar sem allt er til kaups og flest snýst um
peninga.
Þannig verður heimilið vettvangur innanlandsátaka sem endur-
spegla stríðsátökin úti í hinum stóra heimi. Átökin ná hámarki þegar
Bandaríkjamenn taka við af Bretum — úr því Auðun neitar bæði
að selja hús og bók breytir Þorbjörg heimilinu í veitingastað fyrir
hermenn, „The Little Inn“, svo einungis hjónaherbergið og lítið
bakherbergi verða að nægja þeim til íbúðar. Á þessari stundu
spyrnir Auðun við fæti til að „tryggja sjálfstæði sitt sem vera má“
(330) — hann neitar að deila hjónaherberginu með konu sinni og
flytur sig yfir í bakherbergið, brýtur glugga til að komast inn í sitt
eigið hús.
6 Halldór Stefánsson (1989: 323). Hér á eftir verður vitnað til sögunnar í svigum
innan meginmáls.