Skírnir - 01.04.2011, Page 77
SKÍRNIR
ÓBOÐINN GESTUR
75
viðfangsefnisins heldur líka til forms sögunnar sem lýkur þegar
húsið er fullgert og parið flytur inn. En eins og við sjáum í öðrum
hernámssögum fá húsið og heimilið líka táknræna skírskotun, til
uppbyggingar Reykjavíkur og Islands sem nútímalegs og sjálfstæðs
ríkis. Dagrún og Baldur, unga parið sem hyggst stofna fjölskyldu,
eru eins og nöfnin benda til foreldrar nýrrar kynslóðar, þau reisa
hið nýja ísland. Eins og Dagrún segir: „Þeir, sem rækta heimili,
rækta líka menn. Okkar skerfur til framþróunarinnar verður að
skapa heimili, þar sem ný og betri kynslóð fær að vaxa upp í friði og
öryggi."11 í samræmi við það er Baldri oftar en einu sinni líkt við
„landnámsmann" þar sem hann streðar við að sjá sér farborða og
eignast þak yfir höfuðið, en Dagrún, sem er í móðurlegu hlutverki,
nærir og elur upp framtíð íslands í formi tvíburanna þeirra.
Dagrún og Baldur eru hins vegar hliðruð í tíma og rúmi. Bæði
koma úr efnalitlum fjölskyldum og æska þeirra einkenndist af óör-
yggi. Þess vegna verður þeim svona umhugað um „að eignast fastan
samastað, þar sem þau gætu búið frjáls og örugg“ (33): „síðan var
það húsið, bara húsið“ (61). Þau reka sig samt fljótlega á vegg vegna
þess að þau eiga í rauninni ekki heima í þeim nútíma sem hefur
haldið innreið sína. Siðir þeirra og gildi eru sprottin úr öðrum veru-
leika og verða þess valdandi að þau taka óviturlegar ákvarðanir og
verða auðveld skotmörk fyrir braskara.
Meðan þau skrapa saman fyrir nýja húsinu og fást við gráðuga
og óskammfeilna smiði og lögmenn, leigja þau sér kjallaraíbúð í húsi
sem nokkrar aðrar fjölskyldur búa í, enda getur Reykjavík ekki
lengur hýst alla þá sem þangað flytja. Fólk flykkist til borgarinnar
til að fá sér vinnu hjá hernum og þar eð liðsforingjar jafnt sem
óbreyttir hermenn yfirbjóða innfædda er hver húskofi nýttur, hvort
sem hann er íbúðarhæfur eða ekki. Leigusalar Dagrúnar og Baldurs
fyllast smám saman gremju og öfund í garð leigjendanna vegna þess
að þeim finnst gróðinn ekki nægur, nágrannarnir á efri hæðinni
flagga nýfundnum auði og tengslum við liðsforingja, halda háværar
veislur og vanrækja börnin meðan ungt fólk með lítið á milli hand-
11 Þórunn Elfa Magnúsdóttir 1947: 65. Hér á eftir verður vitnað til sögunnar f
svigum innan meginmáls.