Skírnir - 01.04.2011, Page 83
SKÍRNIR
ÓBOÐINN GESTUR
81
í V'erndarenglunum leikur skaðinn sem stríðið veldur stórt hlut-
verk, að ógleymdri sektarkenndinni og skömminni vegna hernáms-
ins, stærra en í nánast nokkurri annarri skáldsögu um hernámið,
þrátt fyrir eða kannski vegna þess hvað hún kemur snemma út.
Áhugaverðasta persónan í þessu sambandi er Haraldur, einn af
Miklabæjarsonunum. Hann er eina persónan sem hefur reynslu af
stríði því hann barðist í borgarastríðinu á Spáni. I ljósi orða
Dagnýjar má líta á þessa reynslu hans sem leið til að draga upp raun-
sæja mynd af stríði fyrir íslenska lesendur, rétt eins og líta má á
víðtæka notkun höfundarins á norrænni goðafræði sem eðlilega
uppsprettu stríðstungumáls á íslensku — skírskotanir til norrænnar
goðafræði tengjast aðallega Haraldi. Og þó að hann sé ekki ein af
aðalpersónum bókarinnar segir það sitt um vægi hans að hann er
látinn hefja söguna og ljúka henni.
Haraldur er líkamlega og andlega fatlaður af völdum stríðsins.
Hann hefur misst sjón á öðru auga, þjáist af minnisleysi og heldur
sig vera Óðin í leit að hröfnum sínum. Þó að fjölskyldan hafi til-
hneigingu til að leiða hjá sér órana í honum er ákveðið mynstur í
þeim. I upphafskaflanum leitar Haraldur að hrafnslaup með það
fyrir augum að stela eggjunum. Þau telur hann vera „fjöreggin" sem
geri honum kleift að vekja dána vini upp frá dauðum. I ljós kemur
að hann var sá eini sem lifði af tiltekna orrustu. Minningin veldur
honum svo miklum sársauka að hann veikist og verður fyrir of-
skynjunum. Haraldur þjáist greinilega af tráma, hann man ekki hvað
gerðist í raun og veru, en lifir það samt upp aftur og aftur í gegnum
ofskynjanir. Lyndsey Stonebridge, sem hefur skrifað um tráma af
þessu tagi, segir að sú hugmynd að hughrif megi bæði upplifa og
gleyma sé miðlæg í trámafræðum: „tráma klýfur hugann bæði í tíma
og rúmi“ (2009: 196). Þó að Haraldur búi hjá foreldrum sínum og
ömmu í Miklabæ, og taki að vissu marki þátt í sveitastörfum, lifir
hann ekki beint og hrærist í núinu, allar hugsanir hans og gerðir
snúast um leitina að hröfnunum. Það var Freud sem fann sann-
indamerki um það hvernig „mannshugurinn reyndi að vinna úr
áfalli eftir á með því að endurupplifa í dulvitundinni hamfarir sem
ekki var hægt að upplifa að fullu þegar þær urðu“ (Stonebridge
2009:197). Haraldur þarf að trúa því að hann sé Óðinn svo hann geti