Skírnir - 01.04.2011, Síða 97
SKÍRNIR „ÞÚ TALAR EINS OG BÓK, DRENGUR" 95
á „klessumálverkum", eins og hann kallaði þau, fyrst í Alþingis-
húsinu og síðar í búðarglugga í Reykjavík.20 Meirihluti kvenfélags-
kvennanna á Knarrareyri hefur engan áhuga á að fá klessumálverk
í kirkjuna sína. „Ég verð að játa það alveg hreinskilnislega, að ég
kann ekki að meta þessa íslenzku nýtízkumálara," segir fröken
Johnson og frú Davíðsen tekur undir þau orð (19). Jóhanna er hins
vegar fulltrúi nýrra menningarstrauma sem ögra í senn natúralískri
myndlistarhefð og borgaralegu siðgæði.
Annar þáttur, sem gerist um mánuði síðar, hefst á því að Jóhanna
laumast að næturlagi inn um gluggann á herbergi prestsins. Erindi
hennar er að kanna hvað orðið hafi um karlmanninn sem hún hreifst
af í Noregi og hvatti hana til dáða á listamannsbrautinni. Henni
þykir sem séra Helgi hafi kviksett sjálfan sig á Knarrareyri en hann
reynir að telja henni trú um að andi sinn sé frjáls og embættið skapi
honum góðar aðstæður til að láta gamla rithöfundadrauma rætast,
skrifa „eina bók, sem væri betri en allar aðrar, sem eru til, ódauðleg,
óendanleg“ (57). Þegar Jóhanna gefur lítið fyrir þau rök segist séra
Helgi vera tilbúinn að fórna kjól og kalli fyrir ást hennar, hún ein geti
bjargað sér. En þessi yfirlýsing kemur of seint, unga konan kærir
sig ekki um að vera „hækja fyrir halta og vanaða. Maður, sem ég á
að elska, verður að leita að mér, ekki sjálfum sér“ (68). Þættinum
lýkur á því að frú Skagalín, sem vaknað hefur við umgang í húsinu,
rekur Jóhönnu á dyr og útlistar hve óheppilegur lífsförunautur hún
sé fyrir prestinn.
I þessum þætti færist áherslan frá myndlistinni yfir á bók-
menntirnar. I herbergi prestsins hanga uppi myndir af William
Shakespeare (1564-1616), Johann Wolfgang von Goethe (1749-
1832), Henrik Ibsen (1828-1906) og Bjornstjerne Bjornson (1832-
1910), skáldum sem séra Helgi dáir en hefur samt gagnrýna afstöðu
til. Hann rifjar upp fyrir Jóhönnu að hann hafi verið að reyna að
semja leikrit á námsárum sínum en lítið gengið. Honum fannst sjálft
20 Jónas Jónsson 1942. Sjá Aðalstein Ingólfsson 1994:139-152. Þess má geta að Sig-
urður Nordal (1942) lenti í ritdeilu við Jónas í framhaldi hinnar umdeildu
sýningar. Nordal sagði þar varhugavert að taka fyrir kverkar nútímalistarinnar:
„Enginn veit, hvernig tilraunir, sem vekja almennt hneyksli fyrst í stað, geta búið
í hendur enn betri framtíðarlist og smám saman opnað almenningi nýja sýn.“