Skírnir - 01.04.2011, Page 99
SKÍRNIR „ÞÚ TALAR EINS OG BÓK, DRENGUR" 97
Þær fagurfræðilegu vangaveltur sem eru áberandi í fyrstu tveim-
ur þáttum leikritsins plægja jarðveginn fyrir uppreisn séra Helga í
fjórða þætti sem gerist á uppstigningardag vorið 1946 (hálfu ári eftir
frumsýningu leikritsins í Iðnó) á tindi Arnarfells, sem gnæfir yfir
Knarrareyri. Ferð prestsins þangað er táknræn; persónan er að
reyna að hefja sig upp úr því hlutverki sem höfundurinn hefur
skapað henni. Þegar hefur verið vikið að samtali þeirra tveggja á
fjallinu en þar ber meðal annars á góma sjálfsmorð titilpersónunnar
í skáldsögu Goethes, Raunir Werthers unga (Die Leiden des jun-
gen Werther, 1774). Séra Helgi fullyrðir að í raun hafi þýski skáld-
jöfurinn myrt söguhetju sína með köldu blóði í sögulok.
Sagan er ljót — og samt ekki alveg búin:
því meðan þessi morðingi naut lífsins,
hlaut bæði fé og frægð í sögulaun,
fyrirfóru sér aðrir ungir menn,
hermdu eftir Werther, hurfu úr blóma lífsins,
allt fyrir lygi úr léttúðugum skálki.
Lygi? Nei, Goethe barði sér á brjóst
og fullyrti, að fyrirmynd sín hefði
drepið sig eins og Werther. Svei! Mig svimar
af því að hugsa um alla þessa flækju. (140)
Hér er því lýst hvernig líf og list bíta í skottið hvort á öðru. Pers-
óna prestsins vill sjálf sleppa undan þeim andlega dauða sem lífið á
Knarrareyri hefði í för með sér. Auk höfundarins og leikhússtjór-
ans gera Haraldur og Dúlla sér ferð upp á fjallið til að koma vitinu
fyrir hann en það er ekki fyrr en frú Herdís birtist og minnir á vænt-
anlega „frönskutíma" þeirra að hann lætur segjast. Fjórða þætti
lýkur á því að þorpsbúar ganga prúðbúnir til kirkju á Knarrareyri
þar sem til stendur að presturinn vígi nýju altaristöfluna.
I lokaþættinum skjóta upp kollinum fleiri viðfangsefni með-
vitaðs skáldskapar, þar á meðal þau sem kenna má við þversagnir
og endurspeglanir. Síðara hugtakið skýrir Stonehill svo að minnt sé
á meðvitund textans með sjálfvísandi táknum og sjálfhverfri
hegðun persóna. Eftirfarandi orðaskipti séra Helga og frú Herdísar
um skáldsöguna sem hann dreymir að skrifa eru ágætt dæmi þar
um.