Skírnir - 01.04.2011, Page 105
SKÍRNIR „ÞÚ TALAR EINS OG BÓK, DRENGUR" 103
ars fer nú bíllinn til Reykjavíkur á hverjum degi“ (115). Þegar séra
Helgi er orðinn einn áttar hann sig á því hvaða ályktun má draga af
athugasemd hennar. „Það er eitthvað bogið við þetta: að vera að
skrifa bréf með skipinu, þegar bíllinn fer hér um á hverjum degi?“
segir hann við sjálfan sig og bætir við: „Má ég spyrja, hver stendur
eiginlega fyrir þessu öllu saman? Sparkar íleiktjaldib til hœgri eins
og til að reyna, hvað veggurinn er sterkur. Bezt gæti ég trúað það
væri fjandinn sjálfur! Eg segi það með: Hvílíkt sköpunarverk!"
(123). I fjórða þætti horfist presturinn svo endanlega í augu við eðli
sitt sem skáldaðrar persónu eða hlutverks.
Sem sagt, ég er hann séra Helgi á Eyri,
og Höfundur minn Hæstvirtur, hann gerði
mig vel úr garði, fannst mér, — framan af.
Og þó ég þyrfti að stíga spor og spor
eftir hans pípu, mér á móti skapi,
reyndi eg að þola það í lengstu lög,
því ég er góðmenni í mér, einkanlega
ef vel er farið að mér. En að lokum
gekk fram af mér. Hann þóttist þurfa að ljúka
leiknum í skyndi, og það væri enginn endir,
nema aðalpersónunni væri stútað. (131)
Þótt aðeins sé um að ræða andlegan dauða í eiginkonufaðmi Dúllu
þykir séra Helga að hann verðskuldi betri örlög: „Ó, Hæstvirtur! Þú
nýtur þess ég næ / ekki til þín, því annars skyldi eg segja / eitt sann-
leiksorð við samglæpamenn þína / og sjálfan þig!“ (133).
I síðari hluta fjórða þáttar, þegar aðrar persónur ætla að fá séra
Helga ofan af fjallinu, reynir hann að leiða þeim fyrir sjónir að þær
séu ekki einstaklingar af holdi og blóði heldur bara „tómur tilbún-
ingur", eins og hann orðar það við Harald: „þú þekkir ekki skapara
þinn, skáldið, / sem fann upp bæði Knarrareyri og okkur / og allt
þitt fólk“ (144). Konsúllinn bregst ókvæða við: „Skáldskapur get-
urðu verið sjálfur, helvítis beinasninn!“ (144). Viðbrögð frú Her-
dísar eru tvíræðari. Þegar séra Helgi spyr hvort hún sé „óánægð /
með hlutverkið, sem Hæstvirtur“ hafi gefið henni kveðst hún vera
vön að leysa af hendi þau hlutverk sem hún taki að sér (153). Hún