Skírnir - 01.04.2011, Page 111
SKÍRNIR „ÞÚ TALAR EINS OG BÓK, DRENGUR“ 109
upp að vinur prestsins hafi komið frá Reykjavík til að gefa þau
saman og þau hafi sofið undir sömu sæng síðan. „Hugsaðu um,
hvað við höfum verið lukkuleg," segir hún en séra Helgi svarar með
því að minna áhorfendur enn einu sinni á að þeir eru að horfa á leik-
rit: „Já, það var og. Eg þekki svo sem vel / þær trakteringar, öll þau
ósköp, sem / Hæstvirtur segist hafa veitt mér áður, / alltaf á milli
þátta“ (148). Þessi athugasemd kallast á við samtal séra Helga og Jó-
hönnu í öðrum þætti þegar hann útskýrir fyrir henni að hann hafi
gefist upp á að skrifa leikritið sitt vegna þess að honum fyndist „öll
leikrit vera tóm brot, brot af manneskjum, brot af því, sem gerðist,
brot af sannleikanum, — of þröng, — mér þætti svo hlægilegt að
láta allt það merkilegasta gerast áður en leikurinn byrjaði eða milli
þátta“ (57). Hæstvirtur höfundur ræðir líka um takmarkanir leik-
ritaformsins þegar hann reynir að afsaka af hverju hann hafi ekki
gert séra Helga betur úr garði sem persónu: „Mér sárnaði meir en þú
heldur þetta litla, sem ég — hm — varð að klippa þig til. En þú
rúmaðist ekki á leiksviðinu. Þú sérð þetta sjálfur, drengur. Hver
hefði enzt til að sitja og horfa á þig skrifa þennan óendanlega
róman?“ (135). Þegar allt þetta er tekið saman er ekki bara ljóst
hvers vegna séra Helgi hefur lagt leikritagerð á hilluna heldur einnig
að skáldsagan sem hann hefur í huga sverji sig fremur í ætt við
Odysseif (sem slagar upp í 1000 síður í flestum útgáfum) en Upp-
stigningu. Þegar Jóhanna spyr séra Helga hvernig honum gangi að
semja þetta óhugsanlega verk og hvenær hann muni ljúka við bók-
ina þá svarar hann: „Ef til vill þarf alls ekki að ljúka við hana í venju-
legum skilningi. Ég veit ekki, hvort hún segir frá heilli mannsævi
eða einum degi, einum sólarhring. Það er enn óráðið“ (59).35
Að framansögðu er ljóst að í Uppstigningu má ekki einungis
finna mörg einkenna meðvitaðra skáldsagna heldur skarast sum
þeirra við þau listbrögð sem Brecht kennir við framandgervingu. I
bók sinni ræðir Stonehill þessa skörun en getur þess jafnframt að
35 Þó að uppbygging Uppstigningar sé hefðbundin má í verkinu finna ýmis dæmi um
frásagnarspegla (fr. mise en abyme). Altaristaflan og skáldsaga séra Helga eru
ágæt dæmi um slíkt en ég hef fjallað það ítarlega um frásagnarspegla í greininni
„Deiligaldur Elíasar: Tilraun um frásagnarspegla og sjálfgetinn skáldskap“ að ég
hleyp yfir þetta listbragð hér; sjá Jón Karl Helgason 2006: 101-130.