Skírnir - 01.04.2011, Page 136
134
ATLI HARÐARSON
SKÍRNIR
Menntastefnan sem birtist í námskrá Lærða skólans um miðja
nítjándu öld, þegar fornmálin fengu um 40% kennslutímans, var
málamiðlun milli menntastefnu nýhúmanista og upplýsingar-
manna þar sem þeir fyrrnefndu voru atkvæðameiri. Með breyt-
ingunum sem urðu 1871 unnu sjónarmið í anda upplýsingar-
stefnunnar áfangasigur og enn stærri sigur svo 1903 þegar lærðu
skólarnir breyttust í almenna menntaskóla. Síðan þá hefur listinn
yfir námsgreinar til stúdentsprófs og hlutfallslegt vægi þeirra
dregið dám af stefnu upplýsingarmanna þótt komið hafi verið til
móts við áherslur húmanista með því að samþætta bókmennta-
lestur við kennslu móðurmáls og með því að kenna greinar á borð
við fornaldarfræði.
En hvernig hófst þessi togstreita upplýsingar og húmanisma?
4. Húmanisminn og uppreisn Lockes gegn honum
Húmanisminn, sem einnig er nefndur fornmenntastefna, mótaðist
á fimmtándu og sextándu öld. Fylgismenn hans lögðu frá upphafi
áherslu á að skólar kenndu göfuglyndi, glæsimennsku í framgöngu
og stíl, smekkvísi, fágun og háleitar hugsjónir. Þetta átti að gera með
því að miðla því besta úr bókmenntum og heimspeki fornaldar og
þjálfa nemendur í orðsins list. Menntun í anda húmanismans lagði
áherslu á málfræði, mælskulist, sögu, siðfræði og skáldskaparlist
fremur en kerfisbundna heimspeki í anda skólaspekinnar.34 Á seinni
tímum hafa talsmenn húmanískra viðhorfa haldið fram ágæti náms
í bókmenntum og listum, stundum á kostnað raunvísinda- og
tæknigreina eða námsgreina sem eru nátengdar atvinnulífi.
Þótt húmanisminn hafi átt marga fylgismenn í byrjun nýaldar
voru þeir líka margir sem gagnrýndu þessa stefnu í skólamálum.
Einkum var fundið að því hve mikill tími fór í að læra tvö fornmál,
latínu og grísku.
Af þeim sem andmæltu skólahaldi húmanista á sextándu öldinni
er Frakkinn Michel de Montaigne (1533-1592) líklega frægastur.
Hann fór hörðum orðum um fornmálastaglið og sagði að ekki væri
34 Bantock 1980: 18-19 og 45; Kallendorf 2006: 63-67.