Skírnir - 01.04.2011, Page 153
SKÍRNIR KAUPSKIPAHÖFNIN GÁSIR í EYJAFIRÐI 151
farmur verði fluttur í land fyrst. Eftir því sem líður á daginn koma
fleiri að Gásum, flestir til móts við farþega af skipinu sem tínast burt
einn af öðrum. Fyrst þeir sem minnstan farangur hafa; prestarnir
þrír, norsk yngismær með fylgdarmanni — sumir segja að hún sé á
leið í klaustur, aðrir að hún sé frænka hirðstjórans og sá ætli að gifta
hana einhverjum vini sínum — og ungur maður sem hafði dvalist um
árabil við árangurslausan eftirrekstur erfðamála í Noregi. Pílagrím-
arnir reynast hafa fest kaup á ýmiskonar varningi sem skilar sér seint
úr skipinu. Þeir hafa sent orð í sínar sveitir að senda klyfjahesta og
búast við að það taki marga daga fyrir þá að skila sér. Fleiri eru í
þeim sporum og búa um sig í búðunum. Sumir hyggja jafnvel á
heimsóknir á nærliggjandi bæi meðan þeir bíða og umræða kviknar
um hvar sé helst að vænta dýrlegs tíðasöngs. Einn ætlar fram að
Munkaþverá en fleiri láta sér nægja að fara til Möðruvalla og þeim
getur sendimaður lánað hesta.
Einnig ber að menn sem áttu von á sendingum með skipinu.
Einn kemur að sækja altaristöflu og annar korntunnu, en kaupa-
héðinn sveitarinnar fær engar móttökur fyrst í stað; engin verslun
getur átt sér stað fyrr en umboðsmaður sýslumanns er kominn. Sá
kemur seint um daginn og eftir talsvert þref ríður kaupahéðinn á
brott með brýnisblokk, kistil með hnífum auk nokkurra bronskatla
af minnstu gerð. Það er eini varningurinn af skipinu sem almúgafólk
getur átt von á að komast yfir. Umboðsmaður skoðar einnig varn-
ing pílagrímanna en slær ákvörðun um toll á frest enda von á sýslu-
manni sjálfum innan tíðar.
Alla vikuna er stöðugur erill á Gásum, fyrirmenn á borð við lög-
mann og príor koma og fá afhent bréf, lest kemur frá Hólum og
önnur frá Munkaþverá. Til Hóla fara tunnur af messuvíni, vax og
olía, reykelsi, skrúði, bækur, malt og korn en einnig annar af tveim-
ur kaupmönnum af skipinu með sinn varning, allt frá höttum,
beltum og skóm, hunangi og pipar, elexíri og smyrslum, nálum og
skærum til sverða og atgeira, tjöru og mjöls, lérefts og silkis, litunar-
efna og ísaumsgulls. Þennan varning mun hann selja seinna um sum-
arið og um haustið í samráði við sýslumann í Skagafirði, og biskup
ef prestar eiga í hlut, því ekki aðeins vilja þeir ráða verði á þessum
hlutum, heldur og ekki síður hverjir fá að kaupa. Það gengur vitan-