Skírnir - 01.04.2011, Side 160
158
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
fangi þessa hugsun vel. í orðinu búi „fyrirheit um spennu og
óvenjulega lífsreynslu, en um leið sú hugmynd að lífsreynslan sé í
frásögur færandi, að hana megi bera saman við það sem gerist í
bókum“.5
I Góða elskhuganum birtist skýr skilningur á frásagnarlegum
víddum ástarinnar, því að Karl Ástuson er ekki aðeins söguhetja
skáldsögunnar sem Steinunn Sigurðardóttir festi á blað, hann er
einnig söguhetja samnefndrar „raunveruleikaskáldsögu með
fræðilegu ívafi“ (133) eftir sálfræðinginn Doreen Ash, en hún ver
tveimur árum í að lýsa og greina kvöldstund með elskhuganum
góða eftir að hafa fallið rækilega fyrir honum. I frásögn Doreen op-
inberast sjálfhverfan sem einkennir sögu Karls sjálfs, sú þörf að lesa
stórt ævintýri í mannlega reynslu, þótt Karli finnist Doreen, ólíkt
sér, ekki hafa úr miklum raunveruleika að moða: „Eitt kvöld og hálf
nótt. Ekki dygði það í langa bók, sama þótt þau hefðu tekið kvöldið
snemma. Varla færi hún að teygja lopann óendanlega um það sem
hafði gerst í höfðinu á henni. Eins manns ást og ímyndun. Hvers
konar flétta yrði það? Þunnur þrettándi" (143-144).
I viðbrögðum Karls kristallast tvenns konar höfundarvandi.
Harmrænar lýsingar á stórri ást byggjast oft ekki á „miklum raun-
veruleika“ og þar liggur jafnan uppspretta harmsins. Elskendunum
er ekki skapað nema að skilja og saga þeirra verður því gjarnan saga
þess sem ekki gerðist, þar sem fáein orð eða jafnvel augnagot úti á
götu verða að uppistöðu í mikilli frásögn. Slík skortsala gerði Bea-
trice og Láru ódauðlegar í verkum Dantes og Petrarka, en erfitt
getur verið að miðla henni til annarra með þeim hætti að lesandi
gangist inn á forsendurnar, svo þær þyki ekki annað en léttvægir
hugarórar — ,,[þ]unnur þrettándi“. Þetta er eitt af viðfangsefnum
Steinunnar í Góða elskhuganum. Þar glímir hún við frásagnarlega til-
urð ástarinnar, segir sögu af Karli, sem verður „að manni í bók“
(158) Doreen Ash, og reyndar í fleiri bókum því að ástkona Ash,
Liina Minuti, lýsir endurfundum Karls og Unu einnig sem efni úr
5 Alda Björk Valdimarsdóttir 2006a: 180-181. Tenginguna við ævintýri má víða
finna í Góða elskhuganum, eins og sjá má í kynningartilvitnuninni (84) og ýmsum
ævintýraminnum, t.d. um lítil börn sem verða viðskila við foreldra sína í þoku á
heiðinni (99).