Skírnir - 01.04.2011, Page 170
168
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
Agathon (1766-1767), smásögu franska rithöfundarins Fran§ois-
René de Chateaubriand (1768-1848) „René“ (1802) sem fjallar um
heitar og óuppfylltar ástir systkinanna René og Amelíu, og The
Power of Sympathy: or, the Triumph ofNature (1789) eftir Banda-
ríkjamanninn William Hill Brown (1765-1793). Þetta er einnig
efniviður ýmissa leikrita og ljóða ensku skáldanna Byrons lávarðar
og Williams Bysshe Shelley (1792-1822), svo sem Manfred (1817)
og The Revolt of Islam (1817).23 Roy R. Male heldur því fram að
sifjaspellsminnið megi túlka sem táknsögu, eins og það birtist í
ástum systkina í rómantískum skáldskap og ekki þarf að koma
neinum á óvart að sálgreinendur skuli hafa sérstakan áhuga á þeim
höfundum sem lengst ganga í samúðarumfjöllun sinni.24 Sögunum
er ætlað að draga fram aðdráttarafl samkenndarinnar, siðleg og
læknandi áhrif hennar, með því að segja sögu sannra tvíburasálna.
I þessu vísa höfundarnir að mati Male til frásagnar Platons um hina
upphaflegu tvíkynja veru sem helmingaðist í karlmann og konu og
hefur ávallt síðan verið í ófullnægðri sameiningarleit.25 I heimi
samkenndarinnar er ást þorsti eftir samneyti við þá sem líkjast
manni, samkenndin verður að aflvaka ástarinnar, sannur drifkraftur
hennar.
Geðlæknirinn og sálgreinandinn Doreen Ash getur ekki stillt sig
um að spyrða „[fjráhald fullnægingar hjá elskhuganum góða“ við
„ást hreinræktaða móðursonarins á móður sinni“. Sáðlát myndi
fullkomna sifjaspellið og auka hættuna „á því að geta barn með
móður sinni“ (156). Því verður heldur ekki neitað að móðir Karls
Ástusonar er fyrirferðarmikil í sögunni. Karl geymir lokk úr hári
hennar, auk mynda og minningargreina, sem um fjársjóði væri að
ræða (50). Karl ber jafnframt nafn hennar og hefur einsett sér að
nefna framtíðardóttur sína í höfuð Ástu, eignist hann einhvern tíma
23 Hér eru aðeins örfá verk nefnd sem taka á tengslum samkenndar og systkinaásta
á átjándu og nítjándu öld. Myrkari birtingarmyndir hugmyndarinnar sjást í got-
nesku stefnunni, t.d. í verki Matthew Gregory Lewis (1775-1818), The Monk
(1796).
24 Male 1950: 188.
25 Sjá Male 1950:189 og 186. Hann bendir á að Hume taki upp hugmyndir Platons
í ritgerð sinni „On Love and Marriage" (1741).