Skírnir - 01.04.2011, Page 172
170
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
andann. Strax eftir ástarfundinn með Doreen undrast Karl það að
„hafa ekki verið á varðbergi fyrir hálfsystrum gegnum tíðina“, því
þótt líkurnar á því að „fiska hálfsystur fyrir ástkonu“ séu hverfandi
litlar, hafi nú „rekið á fjörur hans konu með nafn“. Karl heitir
sjálfum sér því að héðan í frá muni hann spyrja allar ástkonur þeirra
persónulegu spurninga „sem hann var svo leikinn að forðast: fullt
nafn og uppruni, og það á fyrsta korteri samtals“ (54). Síðar í bók-
inni er vísað til sálfræðingsins með orðunum „hálfsysturígildið
Doreen Ash“ (161) og þegar dregur að sögulokum skilur lesandinn
loks hvers vegna Karli var svona brugðið þegar hann frétti nafn
Doreen nóttina sem þau sváfu saman (42). Faðir Karls var pólskur
indjáni að nafni Karol Ash og átti Karl tvær hálfsystur í Bandaríkj-
unum (190). Doreen reynist þó til „allrar guðslukku“ ekki vera
systir Karls, eins og lesandanum lærist í hálfgerðu framhjáhlaupi
þegar söguhetjan stendur í blálokin við gröf sálfræðingsins (197).
Doreen er þrátt fyrir þetta táknræn og tilfinningaleg hálfsystir
Karls. Feður þeirra bera nokkurn veginn sama nafn, Karol og Carl
(43), og bæði eru fórnarlömb ástarinnar, sálufélagar sem kunna þá
list öðrum fremur að gjörnýta hverja þá minningu er færir þau nær
hinum elskaða. Karl einsetur sér að ylja sér um ókomin ár við minn-
inguna um Unu þegar henni bregður fyrir í glugganum á Silfur-
strönd 5 og handleikur reglulega minningablætin í ferðatöskunni
þau sautján ár sem hann er ekki í návist hennar. Doreen gengur jafn-
vel lengra í þráhyggju sinni, því að hún teygir kvöldstundina með
Karli og hálfrar nætur fund upp í 570 síðna einsögulega greiningu á
eðli ástarinnar (144) og hún verður beinlínis „þjáningasystir" hans
(161). Orlög hennar eru að stara inn í hjarta elskhugans góða og
tapa sjálfri sér, líkt og Alda gerir í Tímaþjófinum, en hann mun eftir
þeirra fyrsta og eina ástarfund skilja hana eftir „yfirgefna á vegum
tómleikans, héðan í frá“ (146). Að þessu leyti minnir hún á þær
mörgu harmrænu systur og hálfsystur sem tilfinningahefðin gat af
sér á átjándu og nítjándu öld, jafnt Amelíu, systur Renés, Harriot
systur Harringtons í The Power of Sympathy, og Astarte systur
Manfreðs í samnefndu verki Byrons. Það sem sameinar elskendurna
er að sama skapi það sem skilur þá að eilífu í sundur: