Skírnir - 01.04.2011, Page 180
178
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON
SKÍRNIR
Fleiri dæmi: Bresk og frönsk hefð í bókmenntaskrifum einkenndust til
skamms tíma að minnsta kosti yfirleitt af samtali við breiða lesendahópa.3
Einna helst getur lýsingin sennilega átt við um doktorsritgerðir, enda al-
kunna að þær eru ekki allar sami skemmtilestur og ritgerð Jóns prófessors
Helgasonar um nafna sinn Grunnvíking. Allt frá dögum Tómasar Carlyle
hefur hagfræðin skartað nafnbótinni the dismal science — hin dapurlegu
vísindi. En ef „vitrænt samtal“ af því tagi sem Örn kallar á verður helsta
kennimark bókmenntafræðinnar er hætt við að þess sé skammt að bíða að
hún erfi þá nafnbót.
Hitt er svo rétt að auðvitað er sjálfsögð krafa til þeirra sem skrifa um
bókmenntir, einnig þeirra sem vilja ná eyrum almennings, að þeir kynni
sér efnið vel, þar á meðal viðtökusögu og fyrri skrif. En aðalverkefni þeirra
er þó að mínum dómi ekki karp við fyrri fræðimenn heldur að bregða ljósi
á þau verk sem þeir fjalla um, leitast við að skýra þau og opna fyrir les-
endum, og setja þau í samhengi við önnur verk og samtíð sína. I því getur
að vísu falist að eyða ýmsum ranghugmyndum sem hlaðist hafa utan á
verkin. Ef vel tekst til má gera sér vonir um að þeir sem skrifin lesa verði
nokkurs vísari og jafnvel betri lesendur en þeir voru áður, en það verða þeir
tæpast af linnulitlu karpi. Og setji menn fram nýjar skýringar og leggi til
breyttan lestur á bókmenntaverkum má alveg eins snúa við boðorði Arn-
ar og segja að það standi upp á fyrri fræðimenn að hrekja hin nýju fræði
finnist þeim undirstaðan veik. Annars verður hlutverk gagnrýnanda ekki
læst í stutta klásúlu. Og óæskilegt er að fræðimenn séu sífellt að segja hver
öðrum fyrir verkum.
I lok ádrepu sinnar lýsir Örn vinnubrögðum sjálfs sín með þeim orðum
að hann reyni að sjálfsögðu „að gefa yfirvegaða og alhliða mynd viðfangs-
efnisins". Mín skrif séu á hinn bóginn „yfirborðsleg", sannkölluð „víti til
varnaðar" en „því miður ekkert einsdæmi í nýlegum skrifum um íslenskar
bókmenntir" (bls. 535-536). Það er nú svo. Hér höfum við þá frá fyrstu
hendi forskrift að „vitrænu samtali"! Sumir hefðu talið að það væri frekar
annarra að meta skrif okkar, en Örn aðhyllist greinilega ekki hið forna
viðhorf að enginn sé dómari í sjálfs sín sök. Hann kallar umvandanir sínar
„Andmæli“. En andmæli við hverju? Það er ekki alveg ljóst. Einna helst
virðist mér hann vera að andmæla því að ég vitni ekki nógsamlega í það
sem hann hefur sjálfur skrifað um „Unglínginn í skóginum".
3 E.t.v. má þó eygja nokkurt fráhvarf frá þeirri stefnu á síðustu áratugum, sbr. bók
Rónáns McDonald The Death of the Critic (London og New York, Continuum,
2007).