Skírnir - 01.04.2011, Page 194
192
SALVOR NORDAL
SKÍRNIR
að takast á við verkefni sín. Til stjórnlagaþings var efnt í kjölfar banka-
hrunsins og þeirra atburða sem þar urðu. Þótt ég sé ekki ein þeirra sem er
sannfærð um að orsakasamhengi hafi verið milli ágalla í stjórnarskránni og at-
burðanna sem leiddu til bankahrunsins, taldi ég að með stjórnlagaþingi gæf-
ist einstakt tækifæri til að fara yfir ýmis þau álitaefni sem mest hefur reynt á
síðustu misseri. Endurskoðun stjórnarskrárinnar er einnig rökrétt framhald
af skýrslu um siðferði og starfshætti í rannsóknarskýrslunni en þar var
ályktað að taka þyrfti „stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því
skyni að treysta grundvallarinnviði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meg-
inskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa".16 Eftir atburði síðustu missera er
ég enn sannfærðari um mikilvægi þess að þessir hlutar stjórnarskrárinnar séu
endurskoðaðir af aðilum sem standa utan við dægurþras stjórnmálanna og
þar með verði reynt að tryggja virkara eftirlit með vönduðum vinnubrögð-
um æðstu valdastofnana.
Þrátt fyrir þrætur síðustu missera, þar sem áherslan hefur verið á það
hvernig eigi að breyta stjórnarskránni en ekki hverju eigi að breyta, hefur
ýmsu verið áorkað á þeirri leið sem endurskoðuninni var mörkuð.
Þjóðfundur tæplega þúsund Islendinga tók þátt í umræðu um stjórnar-
skrána í byrjun nóvember 2010 og við setningu stjórnlagaráðs skilaði
stjórnlaganefndin vandaðri 700 blaðsíðna skýrslu til ráðsmanna með hug-
myndum að breytingum á stjórnarskránni. Hvernig stjórnlagaráði tekst að
vinna úr þeim gögnum sem það hefur fengið í hendur er undir ráðsmönn-
unum sjálfum komið. Þeir sem tóku sæti í ráðinu bera ekki ábyrgð á þeim
vandkvæðum sem urðu í aðdraganda skipunar þeirra, heldur verða þeir
vonandi fyrst og fremst metnir af verkum sínum. í því efni skiptir mestu að
ráðið standi undir þeirri kröfu að vanda vinnubrögð sín, að starf þess stuðli
að upplýstri umræðu um þau flóknu verkefni sem það glímir við, og að það
setji fram tillögur sem geti stuðlað að breiðri sátt í samfélaginu. Takist
eitthvað af þessu mun síðan koma til kasta Alþingis að fjalla um tillögur
þær sem frá stjórnlagaráði koma og þá kemur í ljós hvort því tekst að hefja
umræðuna yfir hefðbundna flokkadrætti og veita þeim í uppbyggilega far-
vegi. Verði raunin sú er ferðin, sem lagt var upp í fyrir tveimur árum, ekki
farin til einskis.
16 Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir, Siðferdi og starfs-
hættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008, bls. 184.