Skírnir - 01.04.2011, Page 207
SKÍRNIR
THOR VILHJÁLMSSON
205
vaxið hér norður á hjara veraldar, en hann gat það. Af því að hann
var líka birki, íslenskt birki. Hann sameinaði eik og birki.
Sem unglingur var Thor feiminn og kurteis piltur sem lá í bókum og
braut saman fötin sín að því er systur hans segja. Stúdent varð hann
sjálft lýðveldisárið, eftir skamma viðdvöl í Norrænudeild HI fór hann
til Englands og síðan til Parísar og þar varð til sá Thor Vilhjálmsson
sem við þekktum. Engu líkara en öll ókyrrð aldarinnar rati beina leið
í sál hans. Hann umturnaðist. Og skrifaði bókina Maðurinn er alltaf
einn. Á þessum flökkuárum var hann líka langdvölum á Spáni og
Italíu, tók áköfu ástfóstri við síðarnefnda landið, Cara Italia.
Hann starfaði á yngri árum sem sjómaður og fararstjóri, kynnti
sig oft sem sjómann og vagabond, sjómennska og fararstjórn í
víðum skilningi urðu leiðarljós lífs hans og listar.
Thor varð tvítugur í ágúst 1945, nokkrum dögum eftir helraun
mannkynsins, lexíu í tveimur liðum, Hiroshima, Nagasaki.
Atómsprengjan. Vitundin um eyðingarmátt mannsins.
Albert Camus var efst á baugi ungra höfunda í Frakklandi,
exístensíalistanna. Þeir sögðu sem svo: Við fæðumst, það er absúrd,
við báðum ekki um það, svo eigum við eftir að deyja, við vitum það,
sú vitund er sársaukafull, hún skilur okkur frá dýrunum, vitundin
um dauðann, hún er eina heimspekilega spurningin sem máli skiptir
að mati Camus. I hans huga var dauðinn ekkert minna en skandall,
hneyksli, reginhneyksli.
Þegar einstaklingurinn hefur öðlast skýra vitund um þetta
tvennt, fæðing hans er absúrd, dauðinn skandall, þá er fyrsta spurn-
ingin sem máli skiptir, hvort sjálfsmorð sé lausn á þessu fáránlega
ástandi. En ef svarið við sjálfsmorði er nei, þá er ekkert annað að
gera en ganga í lið með lífinu, lífsgleðinni og réttlætinu. Það er nú
öll tómhyggjan hjá Camus, þetta er í raun lífshyggja. Albert Camus
var honum alltaf hugstæður og mikilvægur enda var lífshyggjan
kjarni listar Thors og ævistarfs.