Skírnir - 01.04.2011, Síða 209
SKÍRNIR
THOR VILHJÁLMSSON
207
okkar allra á okkur öllum og heiminum. Þessar bækur eru alveg
lausar við smáþjóðar minnimáttarkennd, þær eiga ekkert skylt við
folklór sem stærri þjóðir vilja oft helst kynnast hjá smáþjóðum.
Enda hefur íslensk menning aldrei verið folklórísk í kjarna sínum
heldur frá upphafi verið menntuð menning í tengslum við allt það
menntaðasta í samtímanum, til dæmis á tólftu öld og þrettándu öld,
í nánum tengslum við það besta í Evrópu. Hún hefur alltaf verið
kosmópolít og þessa eiginleika hennar hefur Thor vandlega ræktað
í verkum sínum.
Verk Thors er gjarnan erfitt að resúmera, það er líka erfitt að
þýða þau einmitt vegna ótrúlegrar íþróttar hans í beitingu tungu-
málsins. Þetta er hvort tveggja nokkurs konar skilgreining á ljóðlist:
Texti sem varla er hægt að þýða, texti sem er ekki hægt að resúmera.
Þegar kemur að því að skilgreina Thor finnst mér of algengt að
menn láti nægja að setja hann í skúffu í skilgreiningarkommóðunni.
Oft segja menn, hann var módernisti, ég verð að segja eins og er, ég
er litlu nær. Held reyndar að hann sé ekki skúffutækur í kommóð-
unni, sem er komið af franska orðinu commode, sem þýðir þægi-
legur. Thor var aldrei commode.
Á sjötta áratugnum kom hann sér fyrir í Reykjavík, gekk að eiga
Margréti Indriðadóttur, mikilvægustu manneskju lífs síns, eignaðist
með henni tvo prýðilega syni, Örnólf og Guðmund Andra, stofnaði
Birting með nokkrum félögum sínum og þar með var Thor Vil-
hjálmsson mættur til leiks í öllu sínu veldi, listamaðurinn, menn-
ingarmiðlarinn, brúarsmiðurinn.
Gamall brandari úr fjölskyldunni frá þessum árum: Maðurinn
er aldrei einn — hann er alltaf með Möggu.
Á þessum árum kalda stríðsins tók hann sér stöðu á erfiðasta
svæðinu, tortryggður af báðum fylkingum, hægri og vinstri. Milli
skotgrafanna tveggja skyldi vera nómannsland. Dagskipun beggja
fylkinga var annaðhvort-eða. Aldrei bæði-og. Heimsmyndin svart-
hvít. Austur-vestur. Vinstri-hægri.
Sá sem leyfði sér að vera í lit í svart-hvítri veröld, að vera bæði-
og hugsandi, að vera bæði Thorsari og vinstrimaður, hann mátti
búast við því að báðar fylkingar í skotgröfunum sameinuðust í
árásum á hinn frjálsa einstakling, óháðan og litskrúðugan. Hann var