Skírnir - 01.04.2011, Page 213
SKÍRNIR
THOR VILHJÁLMSSON
211
hár, hann spratt beinlínis upp úr þessum ægilegu, svörtu úthafs-
öldum hraunsins, það var eins og andi þess hefði líkamnast og
sprottið fram og hann virtist vera að tala við hraunið eins og guð í
miðri sköpun. I rútunni trúðu menn ekki sínum eigin augum, héldu
að þetta væri missýn eða ofskynjanir. Þetta var hvorugt, þetta var
Thor Vilhjálmsson. Og hann sagði þeim að hann væri einmitt að
tala við hraunið, tala líf í hraunið. Hann var þarna á ferð með tjaldið
góða sem Kjarval gaf honum.
Þetta minnir á það sem kalla mætti spunaæfingar Thors, hann
gerði spuna af munni fram að sjálfstæðu listformi. Á góðum degi
voru þetta frjáls hugrenningatengsl í viðstöðulausum flaumi, eins
konar flugeldasýning í mæltu máli. Þetta gat hann gert á fjölmörgum
tungumálum og fylgdu gjarnan handahreyfingar eins og haförn væri
að gera rólegar, taktfastar teygjuæfingar með vængjunum eða
kannski frekar vængjað ljón af San Marco torgi í Feneyjum að liðka
sig.
Hinn dulmagnaði kraftur Thors birtist á ýmsan hátt. Ég varð
einu sinni sem oftar vitni að honum fyrir allmörgum árum. Nokkur
ungskáld voru með upplestur í Djúpinu, kjallaranum undir Horn-
inu, veitingahúsi. Þarna var fullt af fólki og Thor mættur að hlusta
á ungskáldin. Síðan gerðist það í miðjum upplestri að svoli nokkur
hrundi niður af restórantinum og settist, greinilega langdrukkinn, á
fremsta bekk og fór brátt að grípa frammí fyrir skáldum og hafa
uppi afar virka ljóðlistargagnrýni. Salurinn það lítill að ekki var
mögulegt að ignorera manninn, hann ekki árennilegur og sinnti því
engu þegar hastað var á hann.
Þá sé ég hvar Thor sest við hlið hans á fremsta bekk og hvíslar
einhverju að honum. Sljákkar nokkuð í svolanum og eftir nokkrar
mínútur sá ég hvar hann stendur upp náfölur og bljúgur eins og
fermingardrengur, gengur með Thor að stiganum sem liggur upp
úr Djúpinu og lætur sig hverfa. Á eftir spurði ég Thor hvað hann
hefði eiginlega gert við manninn. Thor sagði: Ég tók aðeins í hönd-
ina á honum og spurði hann svo hvort ég ætti nokkuð að taka fastar
og þá fór hann. Þannig fór Thor að því að verja Djúp skáldskapar-
ins fyrir ágangi vandræðamanna.