Skírnir - 01.04.2011, Page 222
220
ÆSA SIGURJÓNSDÓTTIR
SKÍRNIR
endurspeglar jaðarstöðu menningarlegs uppruna hennar, togstreituna
og rótleysið sem einkennir slík samfélög í heimsþorpinu. Eins og
margir íslenskir listamenn þessa tímabils var Björk með „Island á
heilanum“. Hún lýsti sameiginlegum grundvelli samvinnu sinnar við
Gabríelu Friðriksdóttur meðal annars á þeim forsendum: „Við erum
íslenskar og erum fylgjandi eldfjöllunum, hverunum og öllu því, en
við höfum fengið nóg af því að vera endalaust líkt við eskimóa og álfa.
Við erum ansi nútímalegar og við gerum nútímalega hluti.“16
Togstreitan á milli landsins (náttúrunnar) og menningarlegrar
óvissu var algengt viðfangsefni íslenskra myndlistamanna um alda-
mótin 2000. Auður A. Ólafsdóttir listfræðingur hefur skilgreint
hvernig ísland er stöðugt nálægt í verkum flestra ungra listamanna
þessa tímabils og telur það vera merki um ástand sem mætti skoða
„í ljósi þeirra andstæðu póla sem áberandi eru í listheiminum í sam-
tímanum; annars vegar þess sem kennt er við hnattvæðingu (globa-
lization), hins vegar ... afturhvarfs til staðbundinnar menningar
(.localization) ... Undirliggjandi kann að vera áhugi jaðarþjóðar á
að marka sér menningarlega sérstöðu í alþjóðasamfélaginu.“17
Þetta eftirlenduviðhorf íslenskra myndlistarmanna, samskonar
togstreita, kemur einnig fram í mörgum tónlistarmyndböndum
Bjarkar. Dæmi má nefna Who is it? (Carry my joy on the left, carry
mypain on the right) sem Dawn Shadforth leikstýrði (2004), en þar
dansar Björk í ævintýralegum silfurbjöllukjól sem var hannaður af
Alexander McQueen. í för með henni er hópur dansandi bjöllu-
klæddra barna. Þótt staðurinn sé raunverulegur og leiksviðið nátt-
úran sjálf; svartar sandstrendur íslands, þá er áhorfandinn staddur
„hvergi“ í sýndarveruleika sem minnir á súrrealískar strendur
draumalands franska listmálarans Yves Tanguy. Staðbundin, en
óskilgreind náttúra rennur saman við fagurfræði súrrealismans og
bræðingnum er miðlað í gegnum alþjóðlegt frásagnarform tónlistar-
myndbandsins.
16 „... we are Icelandic and are up for the volcanoes and the hot springs and all that,
we get really pissed off as being categorised as some sort of Eskimos or Elves. We
think of ourselves as being really quite modern, we do modern things." Sótt 9.
febrúar 2011 á http://unit.bjork.com/specials/gh/extra/gabriela/index.htm.
17 AuðurA. Ólafsdóttir 2008.