Skírnir - 01.04.2011, Blaðsíða 225
SKÍRNIR
BJÖRK í MYND
223
Tónlistarmyndband Sophie Muller og Bjarkar, Venus as a Boy
(1993), er hinsvegar dæmigert fyrir þá listsögulegu endurvinnslu og
merkingartilfærslu sem einkenndi listsköpun tíunda áratugarins og
sýnir þann erótíska viðsnúning sem oft má finna í myndheimi
Bjarkar. Það er því gott dæmi um þann samruna poppmenningar
og listasögu sem einkenndi aldarlokin.
Myndin sækir í fagurfræðilegt merkingarrými franska súrreal-
ismans um leið og snúið er út úr einum frægasta femíníska gjörningi
listasögunnar, myndbandi bandarísku listakonunnar Mörthu Ros-
ler, Semiotics in the Kitchen (1975).21 Það er ekki samlíkingin sem
skiptir hér máli, heldur það hvernig Björk tekur völdin og breytir
femínískri orðræðu Mörthu í leiksvæði sem fagurfræðilega séð
byggist á tilvísun í skilgreiningu André Breton á því dýrðlega: „Hið
dýrðlega er ætíð fagurt, allt sem er dýrðlegt er fagurt, einungis hið
dýrðlega er fagurt,“22 ritaði Breton í yfirlýsingu súrrealismans árið
1924 og tengdi síðar hugmyndina við kröfuna um taumleysi sem
skilyrði fyrir sannri tjáningu á milli manna.
Þegar myndirnar tvær eru bornar saman sést að í báðum til-
vikum horfir áhorfandinn á listamanninn sem stendur við eldhús-
borðið og handleikur eldhúsáhöld fyrir framan myndavélina. Martha
nefnir þurrlega og svipbrigðalaust heitin á eldhúsáhöldunum eins
og um sýnikennslu sé að ræða, og sýnir síðan hlutverk hvers áhalds
af miklu offorsi. I meðförum Bjarkar umbreytast fallískir ógnvekj-
andi hnífar og spaðar Mörthu Rosler í erótísk leikföng. Eldhús-
áhöldin eru bæði kúgunartæki og morðvopn í eldhúsi Mörthu, en
hjá Björk breytist eldamennskan í ástríðufullan ástarleik með
ísmeygilegum kynferðislegum undirtóni í sakleysislegu yfirbragði
stúlkunnar (Bjarkar) sem spælir egg handa kærastanum. Umskiptin
úr fábreyttu eldhúsi, þar sem ofbeldi og kúgun ríkir, yfir í dýrðlegan
heim ástarinnar eru undirstrikuð með yfirfærslu úr svart-hvítum
myndheimi yfir í suðræna stemmingu tónlistarmyndbandsins.
21 Turim 2007: 106.
22 „Le merveilleux est toujours beau, n’importe quel merveilleux est beau, il n’y a
méme que le merveilleux qui soit beau.“ Benedikt Hjartarson þýðir setninguna
þannig: „Hið yfirnáttúrulega er alltaf fagurt, allt sem er yfimáttúrulegt er fagurt, í raun
og veru er ekkert fagurt nema hið yfirnáttúrulega.“ Sjá Vilhjálm Árnason 2001:404.