Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 6

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 6
6 Ljósmæðrablaðið - júní 2012 F R Æ Ð S L U G R E I N ÚTDRÁTTUR Nýjustu tölur um líkamsþyngd Íslendinga sýna að tæplega 59% fólks á aldrinum 18–80 ára er yfir kjörþyngd og þar af flokkast 21% með offitu. Rannsóknir benda til að hlutfall þeirra sem eru of feitir fari vaxandi. Konur á barneignaraldri fara ekki varhluta af þessari þróun en niðurstöður fjölda rannsókna hafa sýnt tengsl offitu við ýmis vandamál og sjúkdóma tengdum meðgöngu og fæðingu. Í þessari grein er varpað ljósi á þá stöðu sem ríkir hér á landi varðandi yfirþyngd og ofþyngd kvenna á meðgöngu og afleiðingar þess en rannsóknir sýna að konur á barns- burðaraldri 18–39 ára eru of þungar í 41% tilvika og þar af eru 18% of feitar. Nokkrar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að með því að nota hvatningaviðtöl, næringarráðgjöf og upplýsingar um hreyfingu megi hafa áhrif á þyngdaraukningu kvenna á meðgöngu. Flestar íhlutunarrannsóknir eru þó með litlu úrtaki og í fáum þeirra er konum fylgt eftir að fæðingu lokinni. Mikilvægt er að horfa á offitu sem viðfangsefni þar sem fjöldi þátta hefur áhrif. Í öllum tilfellum þarf að huga að mataræði og næringu konunnar og næringarráðgjöf sem felur í sér hvatningu og kennslu er því nauðsynleg. Þá þarf að virkja eiginleika í fari hvers einstaklings til að sem hagstæðust útkoma fáist fyrir móður og barn. Í greininni kynnum við hugmyndafræði sem nota má við þróun íhlutana fyrir konur á meðgöngu sem byggir á því að nota styrkleika hverrar og einnar konu samfara því að veita fræðslu og ráðgjöf á einstaklingsbundinn hátt . Lykilorð: meðganga, offita, yfirþyngd, íhlutun, næringarráðgjöf, árangur, heilsu- efling. INNGANGUR Víða í Evrópu er hlutfall einstaklinga sem eiga við ofþyngd og offitu að stríða mjög hátt. Hér á landi hefur umræða um ofþyngd og offitu verið áberandi síðasta áratug. Í skýrslu sem Lýðheilsustöð gaf út um líkams- þyngd og holdafar fullorðinna frá 1990 til 2007 kom fram að líkamsþyngdarstuðull (LÞS) Íslendinga hafði hækkað síðastliðna tvo áratugi og töluvert fleiri höfðu hærri LÞS en áður (Margrét Valdimarsdóttir o.fl., 2009). Á árunum 1990 til 2007 hafði hlutfall of feitra kvenna (LÞS > 30 kg/m2) á aldrinum 18 til 79 ára hækkað úr 9,5% í rúm 21% og voru 53% kvenna í þessum aldursflokki yfir kjörþyngd (LÞS > 25 kg/m2) árið 2007. Þegar horft var til kvenna á barneignaraldri (18–39 ára) voru um 44% yfir kjörþyngd (LÞS > 25 kg/m2), og af þeim voru tæp 19% of feitar (LÞS > 30 kg/m2) árið 2007 (Margrét Valdimarsdóttir o.fl., 2009). Í annarri íslenskri rannsókn frá 2006 kom fram að 39% af reykvískum konum var yfir kjörþyngd í byrjun meðgöngu og að stór hluti íslenskra kvenna þyngist meira á meðgöngu en íslenskar ráðleggingar mæla með (Olafs- dottir, Skuladottir, Thorsdottir, Hauksson og Steingrimsdottir 2006). Nýjustu tölur um líkamsþyngd Íslendinga má sjá í niðurstöðum könnunar á mataræði fullorðinna 2010–2011 og sýna þær að tæplega 59% fólks á aldrinum 18–80 ára er yfir kjörþyngd og 21% flokkast með offitu, sem er hærra en árið 2002 en þá var hlutfall of feitra 13% (Könnun á mataræði Íslendinga 2010–2011). Þessar tölur, sem eru uppgefnar af fólkinu sjálfu, eru í samræmi við það sem þekkt skýrsla OECD sýndi en þar kom fram að tíðni offitu væri næst hæst hér á landi af 26 OECD löndum, en það sem alvarlegra var er aukning offitu frá 1990 til 2007 frá 8% í 20%. Þessi þróun er uggvænleg þrátt fyrir það að efast hafi verið um nákvæmni þessara talna (OECD, Health at a Glance, Europe 2010). Flest virðist benda til að hlutfall of feitra aukist meðan að heildarfjöldi þeirra sem er yfir kjör- þyngd breytist ekki eins mikið. Niðurstöður fjölda rannsókna hafa sýnt tengsl offitu við ýmis vandamál og sjúkdóma tengdum meðgöngu og fæðingu. Þannig hafa tengsl of mikillar þyngdaraukningar, miðað við ráðleggingar IOM (e. Instiute of Medicine) eða íslenskar ráðleggingar, sýnt auknar líkur á meðgöngusykursýki (Kabiru og Raynor, 2004), meðgönguháþrýsting (Thors- dottir, Torfadottir, Birgisdottir og Geirsson, 2002), meðgöngueitrun (Johnson, Longmate og Frentzen, 1992), að framköllun fæðingar takist ekki (Kabiru og Raynor, 2004), misræmi á milli fósturs og grindar eða tepptan fram- gang í fæðingu (Chen, Uryasev, og Young, 2004). Auknar líkur eru á spangaráverka hjá of feitum konum (Kabiru og Raynor, 2004), áhaldafæðingar eru tíðari (Thorsdottir o.fl., 2002; Johnson o.fl., 1992), fleiri konur lenda í fyrirburafæðingu (Dietz, o.fl., 2006), og fæðingu lýkur oftar með keisaraskurði hjá þessum hópi (Kabiru og Raynor, 2004; Young og Woodmansee, 2002). Varðandi nýburann þá eru auknar líkur á fæðingu þungbura ef móðir er of feit (Scotland, Cheng, Hopkins og Caughey, 2006; Thorsdottir o.fl., 2002) og lágum fimm mínútna apgar (Scotland o.fl., 2006). Áhættan á líkamlegum fylgikvillum eykst eftir því sem LÞS er hærri fyrir þungun. Þannig er kona sem er yfir offitumörkum og þyngist Að efla heilbrigði Næringarráðgjöf sem íhlutun fyrir of þungar konur fyrir og eftir fæðingu Inga Þórsdóttir næringarfræðingur, PhD deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóla Íslands og Landspítala Helga Gottfreðsdóttir ljósmóðir, PhD dósent og námsbrautarstjóri við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.