Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 28
28 Ljósmæðrablaðið - júní 2012
Árið 1977 var ég ráðinn vélgæslumaður
við Mjólkárvirkjun. Því fylgdi að við fjöl-
skyldan þurftum að flytja vestur en við
bjuggum austur á Norðfirði. Fjölskyldan
samanstóð þá af undirrituðum, Hafdísi Jóns-
dóttur, konunni minni og dætrum okkar
tveimur, Guðnýju og Siggu. Guðný, sú eldri,
var átta ára en Sigga fjögurra ára. Auk þess
átti Hafdís von á barni.
Ég fór einn vestur og byrjaði að vinna
við vélgæsluna 1. september. Þær mæðgur
urðu eftir heima því það þurfti að mála og
standsetja íbúðina okkar og svo að flytja
búslóðina. Svo var ætlunin að Hafdís
kæmi vestur og gengi frá í húsinu og færi
svo austur aftur, fæddi barnið og kæmi svo
vestur með dæturnar og nýja barnið að því
loknu. Tíminn frá því að ég kom vestur og
þar til Hafdís kom var alls ekki tíðindalaus
því þá stóð verkfall opinberra starfsmanna
yfir og manni fannst einangrunin þarna í
Arnarfirðinum enn meiri en annars því
útvarpið sendi ekki út. Svo kom búslóðin í
tveimur gámum. Hafdís kom vestur þegar
lokið var við að mála. Ég var þá búinn að
taka út úr gámunum. Nú var farið að raða
upp húsgögnum, eldhúsið var tekið í brúk
og þetta var farið að líkjast heimili. Þarna
var komið fram í miðjan október.
Daginn áður en Hafdís ætlaði austur aftur
skruppum við á Ísafjörð því okkur vantaði
ýmislegt smálegt til heimilisins. Á leiðinni
til baka var farin Breiðadalsheiði eins og
leið lá þá. Þegar við komum í kinnina
vestan í heiðinni voru fallin þar tvö snjóflóð
á veginn. Þá var ekki annað að gera en að
snúa aftur til Ísafjarðar en þegar átti að
snúa við féll flóð aftan við okkur. Nú voru
góð ráð dýr. Ekki var gæfulegt að stoppa
þarna í kinninni og bíða eftir næsta flóði
en við könnun á flóðinu framan við okkur
kom í ljós að það var nógu þétt til að hægt
væri að keyra á snjónum. Var nú bílnum
beitt á flóðin. Það fyrra var nokkuð bratt
en ekki langt og stefndi ég bílnum upp að
brekkunni meðan hann var að komast upp
en beygði svo niður á veginn þegar niður
hallaði. Næsta flóð var nokkuð breiðara en
náði varla út á kant. Það gekk á ýmsu meðan
farið var yfir en það tókst og var nú sprett úr
spori það sem eftir var af kinninni.
Daginn eftir átti svo að fara til Þingeyrar
með Hafdísi í flugið. Og jú það var farið til
Þingeyrar en í öðrum erindum. Skömmu áður
en lagt skyldi í hann missti Hafdís vatnið.
Barnið vildi semsagt komast út. Ekki veit ég
hvort hristingurinn í heiðarkinninni daginn
áður olli því en hvað um það nú þurfti að hafa
hraðann á. Kári og Erna, stöðvarstjórahjónin,
höfðu skroppið á Ísafjörð og þar sem Erna er
hjúkrunarfræðingur hefði verið gott að hafa
hana við hendina.
Hringt var til Þingeyrar í Sjúkraskýlið,
eins og heilsugæslustöðin þar hét þá. Okkur
var sagt að koma. Ljósmóðir og læknir yrðu
til staðar. Svo var lagt af stað. Ekið var
eins hratt og vegur leyfði. Út hjá Gljúfurá
missti Hafdís það sem eftir var af vatninu.
Hún var þá flutt úr framsæti í aftursæti og
haldið áfram. Ég held að aldrei hafi mér
þótt leiðin yfir Hrafnseyrarheiði jafn löng.
Ég vonaðist til að mæta Ernu og Kára en
sú von rættist ekki. Ég var nógu kunnugur
á Þingeyri til að vita hvar sjúkraskýlið var
og fór beint þangað. Þegar inn kom var tekið
á móti okkur af ungum manni sem reyndist
vera læknir og ungri stúlku sem ég hélt að
væri ljósmóðirin. Og ég verð að játa að ekki
leist mér á liðið. Hafdís var lögð í rúm og
ég heyrði að talað var um að Bogga hlyti
að fara að koma. Og svo kom Bogga. Það
var nefnilega ljósmóðirin. Hún var kona
á miðjum aldri og frá henni streymdi eitt-
hvað öryggi og fumleysi sem gerði það að
verkum að mér hvarf allur órói á stundinni.
Ljósmóðirin tók eitthvað af áhöldum upp
úr tösku sinni og gerði klárt fyrir fæðinguna.
„Hvernig er það, er ekki til kaffi hérna?“
spurði hún. Stúlkan kom með kaffibolla handa
henni og annan handa mér. Læknirinn fór
fram á það að hann fengi að vera viðstaddur
fæðinguna en það hafði hann aldrei verið áður.
Þegar það leyfi var fengið lét hann sig hverfa.
Þegar allt var klárt sneri Bogga sé að mér og
sagði: „Ég geri ráð fyrir að þú sért faðirinn.“
Ég varð að gangast við því. „Og ætlar þú að
vera viðstaddur fæðinguna?“ spurði hún og í
röddinni var háðshreimur. „Nei ég hafði ekki
uppi neinar kröfur um það.“ „Það var gott,
annars hefði ég orðið að henda þér út,“ sagði
hún. Ég lufsaðist nú út úr stofunni en Bogga
kallaði á eftir mér að ég þyrfti ekki að fara
alveg strax. Þarna sátum við fram eftir kvöldi
en barnið lét bíða eftir sér. Svo var mér boðið
að leggja mig. Mér var vísað á rúm inni í
sjúkrastofu og háttaði ég ofan í það. Og svo
hafði fas ljósu haft róandi áhrif á mig að ég
steinsofnaði á stundinni.
Ekki hafði ég lengi sofið þegar ég var
vakinn og tilkynnt að nú ætti ég nýja dóttur.
Barn er oss fætt
Fæðingarsaga
Mæðgur á göngu.