Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 20

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 20
20 Ljósmæðrablaðið - júní 2012 Bækur og barnsfæðingar Handrit Margrétar sögu og notkun þeirra við fæðingarhjálp Píslarvotturinn heilög Margrét frá Antíokkíu var ein þeirra dýrlinga sem nutu mikillar hylli á miðöldum. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að hún var verndardýrlingur kvenna í barnsnauð. Algengt var að heita á hana eða ákalla við barnsfæðingar og ýmsir verndargripir tengdir nafni hennar voru notaðir við fæðingarhjálp á fyrri öldum. Svokölluð Margrétarbelti voru kunn víða og lögð um lendar kvenna og dýrlingurinn ákallaður um leið (Hovorka og Kronfeld, 1908; Jón Steffensen, 1975; Ásdís Egilsdóttir, 1999, 2002). Um Margréti var rituð helgisaga sem náði mikilli útbreiðslu, bæði á latínu og á ýmsum þjóðtungum. Margrétar saga segir frá því að hin unga og fagra Margrét hafi misst móður sína ung að aldri en faðir hennar hafi unnað henni lítið. Margrét tók kristna trú á barnsaldri en faðir hennar var heiðinn. Þegar hún er orðin gjafvaxta kemur heiðinn greifi auga á hana og vill eignast hana fyrir konu eða frillu. Margrét hafnar honum og greifinn lætur handtaka hana í reiði sinni. Þrátt fyrir fortölur og píslir vill hún hvorki þýðast greifann né blóta heiðin goð. Þegar Margrét er fangi í myrkvastofu storkar hún örlögunum með því að óska eftir því að fá að sjá óvininn og eiga orustu við hann. Þá birtist ógnvekjandi dreki sem gleypir hana en vegna heilagleika hennar sleppur hún lifandi og ósködduð úr kviði hans og hefur drekasögnin líklega orðið kveikjan að því að trúað var á hjálp Margrétar við barnsfæðingar. Þannig áttu börn að komast heilbrigð og lifandi úr móðurkviði eins og Margrét úr kviði drekans. Viðureign Margrétar og drekans var vinsælt myndefni. Í sögulok er Margrét líflátin. Skömmu áður fer hún með bæn þar sem meðal annars segir: „Enn bið eg, drottinn, sá er ritar píslarsögu mína eða kaupir þá bók, fylltu þá af helgum anda. Og í því hýsi er bók sú er inni, verði þar eigi fætt dautt barn né lama“ (Heilagra meyja sögur, 2003). Varðveist hafa um það bil 40 handrit og handritabrot af Margrétar sögu á Íslandi. Ekki er vitað hvenær sagan var þýdd á íslensku en ekkert handrit er eldra en frá 14. öld. Það vekur athygli að varðveist hafa 25 handrit sem eru skrifuð eftir siðskipti og er það til vitnis um mikilvægi sögunnar. Um 10 handrit sem eru frá kaþólskum tíma eru í mjög litlu broti. Meðalstærð þeirra er 10 x 6 cm. Þrátt fyrir smæðina eru mörg þeirra fallega skreytt. Af fjölda handrita að dæma virðist hl. Margrét hafa verið mest í heiðri höfð af öllum helgum meyjum á Íslandi, að Maríu Guðsmóður að sjálfsögðu undan- skilinni (Cormack, 1994). Í handritum Margrétar sögu er ýmislegt annað efni, bænir, vers og töfraformúlur á íslensku og latínu, oft afbakaðri. Samskonar efni er víða til í gömlum lækningabókum, íslenskum og erlendum. Þetta viðbótarefni varpar ljósi á notkun handritanna og tengsl þeirra við barnsfæðingar. Hér verður fjallað nánar um eitt hand- rita Margrétar sögu, AM 431 12mo. Þetta er skinnhandrit, 119 x 90 mm að stærð, 25 blöð skrifuð og tvö auð. Það er eindálka, enda leturflöturinn lítill, um 80 x 60 mm og línufjöldi er 16 – 19 línur og myndskreytt. Handritið var skrifað á Íslandi, 1500 – 1550. Handritið er nú varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Í þessu handriti eru margvíslegar lausnarbænir og töfraform- úlur (Alfræði íslenzk, 1908 – 1918). Á eftir fyrirsögninni „Lausn yfir jóðsjúkri konu“ er alkunn töfraformúla: SATOR AREPO TENET OPERA ROTAS. Þegar þessum orðum var raðað upp í ferning var hægt að lesa þau eins á fjóra vegu. Sagt er að þessi orð skuli lesa þrisvar yfir lendum konunnar og gera þrjú krossmörk í hvert sinn. Þar á eftir fylgir bæn sem kölluð hefur verið „góða bænin“ eða bæn hl. Leonardus en algengt var víða að heita á hann við barns- burð (Bekker-Nielsen, 1961). Leonardus var einsetumaður sem ekki er vitað mikið um, en ein jarteinasagan um hann segir frá því hvernig hann hjálpaði franskri drottningu í barnsnauð með því að lesa bænina góðu yfir henni. Í handritinu endar bænin á þessa leið: Nú bið eg þig almáttigur guð faðir fyrir son þinn eingetinn að náveranda helgum anda að háleit hjálp þinnar óþrotnandi mildi virðist yfir að koma þessa sýtandi jóðsjúka konu, svo að hún sé leyst og frelsuð af nálægum háska. Megi með öllum oss samt lofa og dýrka þitt hið dýra nafn það er blessað er um allar aldir veralda. Amen. Á eftir bæninni kemur ný fyrirsögn „Kvenna lausn“ en þar eru eftirfarandi leiðbeiningar: „Ef kona skal léttari verða og má eigi við skiljast, þá skaltu taka þetta helga drottins rit og binda við hægra lær henni fyrir ofan kné og skrifa á blað eður rista á kefli“. Þar á eftir fylgir samhengislaus romsa þar sem blandað er saman ýmsum lausnarbænum: „Pantitur in terra dominus omnipotens olimpi exii in te prospera Christus rex regat ut videatur seculi lumen sator arepo tenet opera rotas“. Byrjunin er afbökun á upphafsljóðlínu 10. bókar Eneasarkviðu Virgils: „Panditur interea domus omnipotentis Olympi“ – á meðan opnaðist hliðið að Ólympus, almættisvaldi, upp á gátt. Þessi orð eru víða varðveitt sem lausnarbænir og ástæðan hlýtur að vera hliðið sem opnast, þar er skiljanleg samlíking við barnsfæðingu. Næst segir: „En þegar að barnið er fætt af hennar holdlegu myrkri, þá skal burt taka og vefja í hreinu klæði ef hvorki hefur á komið blóð né vatn. En ef á hefur komið, þá skal brenna í loganda eldi“. Handritinu lýkur með bænum sem lesa á þegar blaðið hefur verið bundið við. Þar á meðal er kunn lausnarbæn: „Anna peperit (fæddi) Mariam, Maria peperit Iesum Christum, Elisabet peperit Iohannem Baptistam...“. Þessi lausnarbæn er til í ýmsum tilbrigðum. Bent hefur verið á að konurnar eigi að samsama sig með konunum sem nefndar eru í bænunum. Anna, María og Elísabet eru alltaf nefndar, einnig Hanna, móðir Samúels. Í öllum tilvikum er um kraftaverk af einhverju tagi að ræða, þungunin óvænt eða guðdómleg, og á því að minna á að sérhver fæðing sé ævinlega kraftaverk (Elsakkers, 2001). Leitum enn svara við því hvernig Ásdís Egilsdóttir Prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.