Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 22

Ljósmæðrablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 22
22 Ljósmæðrablaðið - júní 2012 Þátttaka ljósmæðra í krabbameinsleit Á Íslandi er hálfrar aldar saga og hefð fyrir leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum kvenna á vegum Krabbameinsfélagsins sem eru samtök krabbameinsfélaga hvarvetna í landinu. Árangur leitarstarfsins er ótvíræður, þar sem nýgengi leghálskrabbameins hefur lækkað um 72% og dánartíðnin um 93% frá 1965–1969 til 2005–2009. Nátengd leit að brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku hefur einnig skilað verulegum árangri þar sem dánartíðni brjóstakrabbameins hefur á undanförnum árum lækkað um 35–40%. Til að krabbameinsleit skili árangri þarf hún að vera framkvæmd á þann veg að skipulega sé fylgst með mætingu til leitar og að eftirlit sé haft með þeim konum sem greinast með afbrigðilega niðurstöðu skoð- unar og rannsókna. Að auki þarf ákvörðun um aldursmörk og millibil skoðana að vera byggð á vísindalegri úrvinnslu gagna varðandi aldursbundna tíðni forstigs- breytinga og krabbameina í þeim líffærum sem leitin beinist að. Leitarstarfið hér á landi hefur frá upphafi byggt á þeim grunni að skoðanir eru framkvæmdar af fagaðilum sem geta veitt konum færi á að leita ráðgjafar varðandi einkenni frá kynfærum og brjóstum. Þannig hefur leitin verið liður í að bæta kynheilbrigði í landinu og gegnt mikilvægu hlutverki fyrir velflestar konur. Burðarás við framkvæmd leitarinnar fyrstu 30 árin voru fæðinga- og kven- sjúkdómalæknar, einkum af Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þeir sáu um skoðanir, töku frumustroks frá leghálsi og þreifingu brjósta en hjúkrunar- fræðingar aðstoðuðu við ýmis önnur fram- kvæmdaratriði. Álag á daglegt klínískt starf deildanna og aðrar áherslur í samfélaginu á síðastliðnum tveim áratugum hafa leitt til þess að erfiðara varð að fá lækna til að vinna við hefðbundna hópleit. Því kom upp sú hugmynd meðal forstöðulækna Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og Kvennasviðs Landspítala að leita til ljós- mæðra til að taka þátt í leitinni þar sem þær hafa reynslu af að skoða þessi líkams- svæði, þó með öðrum hætti sé. Ljósmæður hafa góða fræðilega þekkingu er tengist heilsufari kvenna á frjósemiskeiði. Vegna starfssviðs síns eru þær í nánum tengslum við stóran hóp kvenna á barneignaaldri og því í góðri aðstöðu til að hvetja konur til að taka þátt í fyrirbyggjandi heilsuvernd. Víða erlendis er einnig löng hefð fyrir því að ljós- mæður séu þátttakendur í krabbameinsleit. Gerð var tillaga að viðbótarnámi fyrir ljósmæður til að tryggja annars vegar bakgrunnsþekkingu sem væri sambærileg við þekkingu margra þeirra lækna sem unnu við leitina (sérfræðingar, heimilislæknar og sérnámslæknar), og hins vegar að þær fengju góða þjálfun í framkvæmd leitarinnar, svo sem töku frumustroks frá leghálsi og hvernig ætti að skoða grindarholslíffærin með skipulegum hætti, greina frábrigði og þekkja tilvísunarleiðir ef eitthvað virtist vera utan hins eðlilega. Tillagan um námið var borin undir heil- brigðisyfirvöld og fagfélög og hlaut að mestu jákvæðar viðtökur. Tillögurnar voru lagfærðar í framhaldi af því og leitað samráðs við námsbraut í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, meðal annars með það í huga að hér væri um að ræða útvíkkun á starfssviði ljósmæðra sem hefði þann tilgang að efla þekkingu og áhuga ljósmæðra á mikilvægu forvarnar- starfi sem varðar konur og fjölskyldur í landinu. Námið hefur nú verið formgert og er á vegum kvenna- og barnasviðs Land- spítalans, Leitarstöðvarinnar og lækna- og ljósmæðranáms í háskólanum. Námið felst í 33 klst. fræðilegum hluta með viðveru í fyrirlestrum sem læknanemar fá á 5. námsári og með lestri samsvarandi fagtexta ásamt umræðum um efnið, yfirferð um starfsemi Leitarstöðvarinnar, viðveru við viðeigandi krabbameinsskurðaðgerðir á Landspítala og þriggja vikna starfsþjálfun. Að jafnaði er unnið samhliða eða með auðveldu aðgengi að lækni með reynslu og sérhæfingu á þessu sviði. Námið getur náð yfir 1–2 annir og því lýkur með munnlegu prófi, sem haldið var í fyrsta sinn nú í febrúarmánuði. Tvær ljósmæður hafa nú lokið náminu og stóðust báðar með prýði hið munnlega próf. Landlæknisembættinu var tilkynnt með formlegu bréfi um námið og námslok hjá þessum tveimur ljósmæðrum. Umfjöllun um krabbameinsleit kvenna hefur einnig verið bætt inn í ljósmæðranámið. Með þessu viðbótarnámi er vonast til að renna megi enn betri stoðum undir krabbameinsleitina. Á síðastliðnum árum hefur mæting til leitar orðið dræmari og hugsanlegt er að bólusetning ungra stúlkna gegn leghálskrabbameini, sem nú er hafin, skapi falska öryggiskennd sem geti leitt til verri mætingar. Rannsóknir staðfesta að konur sem ekki mæta til leitar eru mun líklegri til að greinast með langt gengið krabbamein sem aftur eykur verulega líkur á að deyja af völdum sjúkdómsins. Hjá yngri konum eykur regluleg mæting mjög líkur á því að greina megi sjúkdóminn á forstigi eða byrjunarstigi ífarandi sjúkdóms. Þá er unnt að beita keiluskurði sem ekki hefur áhrif á frjósemi konunnar, þó líkur á fæðingu fyrir tímann aukist lítillega. Við lengra gengið krabbamein þarf aftur á móti að taka leg og í vissum tilfellum að beita geisla- og lyfjameðferð. Leitin er því mikilvæg heilsuvernd fyrir konur á frjósemiskeiði þeirra og fram eftir allri ævi. Full ástæða er því til að fleiri starfsstéttir með góðan faglegan og um leið fjölbreyttari bakgrunn komi að verklegri framkvæmd leitarstarfsins og fræðslu því tengdu. Því er ástæða til að fagna þessu nýja viðbótarnámi ljósmæðra. Reynir Tómas Geirsson1,2, Kristján Sigurðsson2,3, Helga Gottfreðsdóttir4, Sigríður Þorsteinsdóttir2 1Kvenna- og barnasviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, 2Læknadeild Háskóla Íslands, 3Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands og 4Námsbraut í ljósmæðrafræði, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Reykjavík.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.