Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 20

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 20
20 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 einnig til kynna að gerlegt væri með markvissum meðferðarviðtölum að hafa áhrif á sjálfsöryggi kvenna við brjóstagjöf (McQueen o.fl., 2011). Noel-Weiss, Bassett og Cragg (2006) hafa mælt með sérstökum námskeiðum eða vinnusmiðjum á meðgöngu til þess að undirbúa og styrkja þær konur sem vilja hafa börn sín á brjósti. Þeir þróuðu vinnusmiðju en við hönnun og uppbyggingu hennar voru lagðar til grundvallar forsendur fullorðinsfræðslu og kenning Bandura (1977) um sjálfsöryggi þar sem unnið var út frá uppsprettunum fjórum. Vinnusmiðjan er ágæt fyrirmynd sem ljósmæður og brjóstaráðgjafar gætu nýtt sér til dæmis fyrir konur sem hafa lágt sjálfsöryggi eða enga eða slæma reynslu af brjóstagjöf. Vinnusmiðja Noel- Weiss og félaga var þannig skipulögð: Hver vinnusmiðja tók um tvær og hálfa klst. og voru átta pör í hverjum hópi sem öll áttu von á sínu fyrsta barni. Hvert par fékk dúkku sem var eins konar hermir er líktist á margan hátt lifandi barni bæði hvað varðaði útlit og þyngd. Áherslur vinnusmiðjunnar byggðust á eftirfarandi: Að þjálfa leikni við brjóstagjöf svo sem brjóstagjafatækni (performance accomplis- hment). Lögð var áhersla á einstaklings- bundna leiðsögn þar sem hver kona var til dæmis látin prófa mismunandi stell- ingar við brjóstagjöf. Makar kvennanna voru hvattir til þess að taka þátt og hlut- verk þeirra rætt. Á meðan þessum hluta kennslunnar stóð var farið í þá þætti sem hjálpleg brjóstagjafatækni grundvallast á. Að læra af reynslu annarra: ljós- myndir og myndbönd sýnd ( vicarious experiences). Tvenns konar myndbönd voru sýnd: Fyrsta myndbandið sem var um 10 mínútna langt, kom inn á skila- boð og hegðun barns við brjóstagjöf (Infant Cues: A Feeding guide). Áherslan var á hegðun og viðbrögð barns, svo sem vísbendingar um að barn sé svangt, hvernig það nær góðu taki á brjóstinu og merki um að það hafi fengið nægju sína. Seinna myndbandið sem tók 30 mínútur sýndi foreldra ræða saman um reynslu af brjóstagjöf (Breastfeeding. How to Can do). Myndbandið er kaflaskipt og var það notað nokkrum sinnum á meðan vinnusmiðjunni stóð í þeim tilgangi að byggja upp sjálfsöryggi í gegnum jákvæða og árangursríka reynslu annarra foreldra. Sannfæringarmáttur virkjaður með umræðum foreldra og leiðbeinenda (verbal persuasion). Leiðbeinandinn stýrði umræðunum og var meðvitaður um að tala jákvætt um hlutina, setja leiðbeiningar og ráð þannig fram að talað væri út frá reynslu annarra frekar en að setja fram skipanir, boð eða bönn. Til dæmis með því að byrja setningu þannig: „Sumum konum eða foreldrum hefur reynst vel að...“ í stað þess að segja til dæmis: „Þú átt að...“ eða „þú skalt...“. Einnig var lögð áhersla á að forðast neikvæða orðræðu eins og misheppnuð brjóstagjöf eða að gefast upp og að nota til dæmis orðið ef þegar rætt var um að hugsanleg vandamál gætu komið upp og orðið þegar um jákvæðan árangur. Unnið með og rætt um tilfinningalegar og lífeðlisfræðilegar breytingar í sængurlegu. Rætt var um líðan og aðlögun að breyttum hlutverkum foreldra, gefnar leiðbeiningar um það hvernig mætti vinna með og takast á við streitu, tryggja næga hvíld, næringu og að mæta þörfum móður og barns fyrstu dagana (Noel-Weiss o.fl., 2006). Með rannsókn Noel-Weiss og félaga sem sett var fram sem tilraunasnið kom í ljós að vinnusmiðjan stuðlaði að auknu sjálfsöryggi kvenna við brjóstagjöf auk þess að konur voru lengur með börnin eingöngu á brjósti. Af reynslu sinni mæltu höfundarnir þó með að vinnusmiðja sem þessi væri haldin á fyrri hluta meðgöngu áður en konurnar verða of uppteknar af fæðingunni og auk þess að álykta að betra væri að hafa lengri tíma fyrir vinnusmiðjuna eða að hafa fleiri skipti dreifð yfir lengri tíma (Noel-Weiss, Rupp, Cragg, Bassett og Woodend, 2006). Vinnusmiðja Noel-Weiss og félaga er gott dæmi um það hvernig nýta má kenningu Bandura og þekkingu um sjálfsöryggi sem grunn að námskeiðum á starfsvettvangi ljósmæðra í tengslum við undirbúning fyrir brjóstagjöf eða foreldrahlutverkið. Samkvæmt kenningu Dennis um sjálfsöryggi við brjóstagjöf er æskilegt að hafa eftirfarandi áhersluþætti í huga þegar unnið er að því að styðja við og ýta undir sjálfsöryggi kvenna við brjóstagjöf: • Að beina athygli að árangursríkum þáttum brjóstagjafar en ekki að vandamálum og veikleikum eingöngu. • Að kenna og leiðbeina um hjálplega brjóstagjafartækni. • Að leiðbeina um þætti er stuðla að góðum árangri við brjóstagjöf til fram- tíðar á markvissan og einstaklingsmið- aðan hátt. • Að hrósa konunum og hvetja þær á uppbyggjandi hátt. Benda á það sem vel er gert og dvelja ekki eingöngu við það sem betur mætti fara. • Að bjóða upp á fyrirbyggjandi ráðgjöf vegna hugsanlegra áhrifa þreytu, streitu og kvíða og aðstoða konurnar við að ná andlegu og líkamlegu jafnvægi. • Að hafa frumkvæði að því að benda konunni á ósýnilega en mikilvæga áhrifaþætti á árangur brjóstagjafar. Hér má til dæmis nefna að hugar- ástand konunnar skiptir máli og getur hjálpað að hún sjái sjálfa sig fyrir sér ná tökum á brjóstagjöfinni á árangurs- ríkan hátt, nýti sér rökræna hugsun við úrlausn vandamála þar sem unnið er út frá orsök vandans og að lokum sýni þrautseigju gagnvart brjóstagjöfinni og takist þannig á við hugsanlega erfið- leika sem upp geta komið. • Að bjóða upp á eða benda á hjálparmæður eða stuðningshópa reyndra mæðra (Dennis, 2006). Samkvæmt kenningu Dennis (2006) spáir sjálfsöryggi við brjóstagjöf fyrir um eftirfarandi: (a) Hvort móðir ákveður að hafa barn á brjósti eða ekki, (b) hve mikið hún er tilbúin til að leggja á sig til þess að brjóstagjöfin geti gengið, (c) hvort niðurbrjótandi eða uppbyggjandi hugsanir gagnvart brjóstagjöfinni eru einkennandi og (d) hvernig hún muni bregðast tilfinningalega við erfiðleikum við brjóstagjöf (Dennis, 2006). Ljósmæður sem aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta nýtt sér ofangreint til viðmiðunar til að þróa meðferðarúrræði til að styrkja sjálfsöryggi mæðra við brjóstagjöf. Auk þess að vinna út frá áhersluþáttum Bandura og Dennis mætti beita aðferðum hugrænnar atferlis- meðferðar til að stuðla að uppbyggilegum hugsunum gagnvart brjóstagjöfinni í stað niðurrifshugsunum og styrkja þannig sjálfsöryggi kvennanna (Bowels, 2011). Fram kom í íslenskri rannsókn frá 2008 að fræðsla um brjóstagjöf á meðgöngu s.s. á formi námskeiða eða sem einstaklings- fræðsla í mæðravernd hafði ekki marktæk áhrif á sjálfsöryggi mæðra við brjóstagjöf (Hildur Sigurðardóttir, 2010). Hlutfalls- lega fáar konur (20%) sögðust fá fræðslu á meðgöngu og mætti sannarlega bæta þar úr og nýta tækifærið betur fyrir einstaklings- miðaðan stuðning. Vinnusmiðja Noel- Weiss og félaga er gott dæmi um það hvernig nýta má kenningu Bandura og þekkingu um sjálfsöryggi sem grunn

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.