Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 29

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 29
29Ljósmæðrablaðið - desember 2011 verða því oftar fyrir því að vera settar af stað í fæðingu líkt og konan í mínu dæmi, fyrirburafæðingum, að eignast vaxtarskert barn, fósturdauða eða nýburadauða (Fretts, 2011). Ýmsar aðrar ástæður geta þó verið fyrir minnkuðum fósturhreyfingum og þarf ástæðan ekki í öllum tilfellum að vera sú að lífi fóstursins sé ógnað. Meðgöngulengd getur verið skemur á veg komin, legvatn getur verið aukið eða minnkað, staða móðurinnar, það er hvort hún stendur, situr eða liggur, staða fóst- ursins, offita, fylgjustaðsetning, virkni móður- innar og andleg líðan eru allt þættir sem geta haft áhrif á skynjun móðurinnar á hreyfingum fóstursins. Auk þessa getur dregið úr fóstur- hreyfingum tímabundið vegna svefns fóst- ursins, lyfjanotkunar móðurinnar, reykinga og fleiri þátta (Fretts, 2011). Oft heyrist það líka að eðlilegt sé að dragi úr hreyfingum fóst- ursins þegar líður undir lok meðgöngunnar og hefur ástæðan oft verið talin að þrengra sé um barnið og þar af leiðandi minna svigrúm til hreyfinga (Winje og félagar, 2011). Rann- sóknum hefur ekki borið saman um þetta og er helst um kennt mismunandi aðferðum við talningu, á hvaða tíma dags er talið og svo skynjun mæðra á hreyfingu fóstursins en að margra mati dregur ekki úr hreyfingum heldur breytist eðli þeirra þegar dregur nær lokum meðgöngu og er það af sumum talið villa fyrir mati mæðranna á virkni fóstursins (Winje og félagar, 2011). VIÐMIÐ VIÐ MAT Á FÓSTUR- HREYFINGUM Þegar grunur leikur á að hreyfingar fósturs séu ekki fullnægjandi eða jafnvel ekki til staðar hefur móðurinni oft verið ráðlagt að leggjast fyrir og einbeita sér eingöngu að því að finna fyrir hreyfingum fóstursins (Fretts, 2011). Þrjú viðmið hafa helst verið notuð til að meta fósturhreyfingar og þau eru: • Að móðir finni fyrir 10 hreyfingum á hverjum 12 klukkustundum við daglega iðju sína. • Að móðir finni fyrir 10 hreyfingum á tveimur klukkutímum í hvíld og sé þá meðvitað að fylgjast með hreyfingum barns. • Að móðirin finni fyrir 4 hreyfingum á einni klukkustund í hvíld og fylgist meðvitað með fósturhreyfingum (Fretts, 2011). Sú ráðlegging sem helst hefur verið notast við hér að móðirin leiti eftir 10 hreyfingum á innan við tveimur klukkustundum í hvíld og þá helst útafliggjandi en það er sú aðferð sem hefur sýnt að mæður geti á sem nákvæmastan hátt metið hreyfingar barns síns (Winje og félagar, 2011). En rökstuðningur þess að láta móðurina fylgjast með barni sínu á þennan hátt byggir á þeirri forsendu að greini hún minnkandi hreyfingar sé enn hægt að grípa inn í og bregðast við og koma á þann hátt í veg fyrir skaða eða í verstu tilfellunum dauða fósturs eða nýbura (Fretts, 2011). Rannsóknum ber að öllu jöfnu ekki saman um það hvort það að láta móður fylgjast með hreyfingum fósturs dragi úr andvana fæðingum og eru talsmenn þess þá helst að hugsa um að orsök andvana fæðinga megi oft rekja til naflastrengsslys eða fylgjuloss sem erfitt getur verið að bregðast við (Winje og félagar, 2011). Aðferðin er þó notuð víða um heim þar sem stór hluti heilbrigðisstarfs- fólks er fylgjandi henni og telur að með henni megi bæta útkomu móður og barns (Fretts, 2011; Signore, Spong og Freeman, 2011). Lítið hefur verið skrifað um áhrif slíks eftirlits á meðgöngu á móðurina og hinn verðandi föður en talið er að aðferðin geti bæði verið huggun og valdið hræðslu hjá þeim sem hlut eiga að máli (Boyle, 2004; Signore, Spong og Freeman, 2011). Almennt er aðferðin talin hentug og að hún falli vel í kramið hjá verðandi foreldrum þar sem meðferðarheldnin er oftast mikil, aðferðin tekur tiltölulega stuttan tíma og er talin vera klínískt hagnýt (Fretts, 2011). Hættan við aðferðina er hins vegar lítil meðferðarheldni, misjöfn skynjun milli kvenna á hreyfingum fóstursins en margir þættir geta komið þar inn eins og fylgjustaðsetning, fitulag móðurinnar, lega barns, staða móðurinnar og fleira (Boyle, 2004). Rannsakendur hafa ekki fundið samhljóm í því hvaða viðmið skulu gilda þegar kemur að minnkuðum hreyfingum fósturs og hvað skilur á milli heilbrigðs fósturs og fósturs sem gæti flokkast í áhættuhópi. Sum hreyfa sig meira en önnur minna og allt þar á milli geta verið eðlilegar fósturhreyfingar og eru mörkin því óskýr. Skynjun hinna verðandi mæðra á hreyfingu fóstranna hefur líka áhrif og erfitt hefur reynst að leggja línur út frá huglægu mati svo margra (Fretts, 2011; Winje og félagar, 2011). Að auki hafa heldur ekki verið gerð skil á því hvar mörkin liggja á milli full- burða barna og barna sem ekki hafa náð fullri meðgöngulengd en ekki er talið fullsannað að sami mælikvarði eigi við um báða hópana (Fretts, 2011). SAMANTEKT Fósturhreyfingar á meðgöngu eru háðar mörgum þáttum og erfitt getur verið að leggja mat á þær, tilfinning mæðranna er þó líklega besta og ódýrasta greiningartækið og oftast er það svo að mæðurnar sjálfar verða þess fyrst varar að ekki sé allt eins og það á að vera. Ég veit það nú að minnkaðar hreyfingar barna í móðurkviði geta stafað af ýmsum ástæðum og misalvarlegum líka en þó ber alltaf að taka þessari tilfinningu mæðra alvarlega. Eins og það er gott að hafa eitthvað til að miða við, einhver mörk sem hringja bjöllum þá er líka hætta á því að gripið sé inn í að óþörfu og þá kannski sérstaklega þegar mörkin eru óskýr og því mikilvægt að horfa á hvert tilfelli fyrir sig en setja ekki alla undir sama hatt. Ég fann það líka í þessu dæmi að þó svo við hefðum tæki og tól til að fylgjast nákvæmlega með litla krílinu þá vantaði mig að geta haft bein samskipti við hina verðandi foreldra. Það var erfitt að skilja þau ekki og geta ekki hlustað eftir líðan og tilfinningu móðurinnar. Ég áttaði mig kannski ekki á því áður en þegar maður er með konu í fæðingu þá á sér stað heilmikil óbein upplýsingagjöf gegnum hin venjulegustu samskipti. Hin verðandi móðir segir ýmsa hluti sem hafa oft merkingu fyrir okkur sem í kring erum, eitthvað sem gefur vísbendingu um það hvernig er að ganga, hvað þyrfti að fara að gera eða athuga og svo framvegis. Þessi litlu óbeinu skilaboð vantaði í þessari ákveðnu fæðingu og það fyllti mig óöryggi og sérstaklega vegna þess að þarna var fæðing í gangi þar sem eitthvað gat mögulega verið að og ég vissi ekki hverju ég átti von á og kannski bjóst alveg eins við því versta. Mér fannst það líka erfitt að geta ekki útskýrt jafnóðum og hughreyst hina verðandi foreldra með beinum samskiptum en það varð okkur öllum til lukku að í húsinu var ljósmóðir af sama þjóðerni og þau sem gat komið og verið með okkur af og til. Ég sá hvernig þær áttu þessi samskipti sem ég vildi svo gjarnan hafa átt við þessa foreldra. Það var vont að hafa ekki það tæki sem samskiptin eru. Það er þó þannig að með hverri fæðingu kemur ný reynsla og með meiri reynslu fylgir oftast meira öryggi. Það er gott til þess að vita að oftar en ekki liggja saklausar orsakir að baki því að móðir finnur ekki fyrir hreyfingum barns þótt aldrei megi sofna á verðinum og mikilvægt að standa klár á því hvaða áhættuþáttum verður að horfa eftir láti þunguð kona vita af minnkuðum hreyfingum barns. Ég dreg það ekki í efa að það var gott fyrir litlu stúlkuna í dæminu mínu að komast í heiminn á þessum tímapunkti, ég er viss um að henni leið ekki alveg nógu vel hvort sem það var út af hendinni hennar eða ekki. En ég dreg það heldur ekki lengur í efa að það var rétt ákvörðun að hlaupa ekki beint með hana á skurðstofuna að sækja barnið eins og mér fannst að ætti að gera á ákveðnum tímapunkti. Heimildaskrá Fretts, R. C. (2011). Evaluation of decreased fetal movements. Sótt 25.ágúst 2011 af http://www.uptodate.com/contents/evaluation- of-decreased-fetal-movements?source=search_ result&search=decreased+fetal+mo&selectedTitle=6 %7E150. Boyle, M. (2004). Antenatal Investigations. Í Henderson, C. og Macdonald, S. (ritstjórar), Mayes´Midwifery: A textbook for Midwifes (bls.312-326). London: Balliere Tindall. Medforth, J., Battersby, S., Evans, M., Marsh, B. Og Walker, A. (ritstjórar). (2009). Oxford Handbook of Midwifery. New York: Oxford University Press. Signore, C., Spong, C. og Freeman,R.K. (2011). Overview of fetal assessment. Sótt 25.ágúst 2011af http://www. uptodate.com/contents/overview-of-fetalassessment? source=search_result&search=decreased+fetal+mo&se lectedTitle=3%7E150. Winje. B.A., Saastad, E., Gunnes, N., Tveit, J.V.H., Stray- Pedersen, B., Flenady, V. og Froen, J.F. (2011). Analysis of ´count to ten´fetal movement charts: a prospective cohort study. International Journal of Obstetrics and Gynaecology, 118, 1229-1238.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.