Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 28

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 28
28 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 Á sumar og haustmisseri vinna nemendur á öðru ári í ljósmóðurfræði svokölluð dagbókarverkefni. Markmiðið er að ígrunda eigin störf og þá umönnun sem þær veita í samráði við umsjónarljósmæður. Sögð er saga úr klínísku starfi og síðan er umönnun skoðuð út frá gagnreyndri þekkingu og reynsluþekk- ingu. Verkefnin eru lærdómsrík á margan hátt því þarna gefst kostur á að ígrunda áhugaverð tilfelli úr starfsnáminu en einnig að kafa dýpra ofan í áhugaverða þætti sem skipta ljósmæður máli. Fókusinn í dagbókar- verkefninu sem hér birtist er á hreyfingar fósturs í móðurkviði. Eins og við vitum eru hreyfingar fóstursins mikilvæg vísbending um líðan þess og því er mikilvægt að bregðast við þegar hin verðandi móðir verður þess áskynja að hreyfingar fóstursins hafi minnkað. En hvað eru eðlilegar hreyfingar og hvernig er rétt að bregðast við? Þessum spurningum og mörgum fleirum verður svarað í þessu verk- efni. Anna Sigríður Vernharðsdóttir, ljósmóðir og klínískur lektor. INNGANGUR Í verknáminu hingað til hef ég orðið þess áskynja að til ljósmæðra leita ógrynni af verðandi mæðrum, allt frá upphafi meðgöngu til loka, með hugðarefni sín stór og smá. Eitt af því sem mér hefur þótt erfitt að leggja mat á er hvað skal gera þegar þunguð kona hringir eða kemur og lýsir minnkuðum hreyfingum barns yfir tiltekin tíma eða jafnvel engum hreyfingum barns. Flestum þeim sem lýstu minnkuðum hreyfingum barns var ráðlagt að hvílast, leggjast niður og einbeita sér að því að telja hreyfingar barns yfir tveggja klukkutíma tímabil en þær sem lýstu engum hreyfingum komu í skoðun. Ég velti því oft fyrir mér hvað bjó að baki þessum ráðleggingum ljósmæðra, hvort þetta væri ekki að „taka sénsinn“ að segja konum að leggjast bara niður og eyða tíma í að bíða eftir og telja hreyfingar. Ég var ekki viss og að mér setti ugg í hvert sinn sem þessar aðstæður komu upp. Mig langaði að skoða þetta frekar og svo var það eina morgunvaktina að við umsjónarljósmóðirin mín tókum við ungu pari sem var að eignast sitt fyrsta barn. Þau höfðu verið flutt til höfuðborgarinnar með sjúkra- flugi snemma um nóttina en bæði voru þau af erlendu bergi brotin og hvorki talandi á ensku né íslensku svo notast var við túlk. Kvöldinu áður höfðu þau leitað á heilbrigðisstofnun í sínu byggðarlagi þar sem hin verðandi móðir taldi sig ekki hafa fundið fyrir hreyfingum barnsins frá því snemma þann sama dag. Meðgöngulengd var þá 39 vikur og 4 dagar en meðgangan hafði gengið vel og talist eðlileg fram að þessu. Þegar tekið var á móti konunni var leitað eftir fósturhjartslætti sem var til staðar en mjög hraður, grunnlína var um 170 slög/mín. Ákveðið var að hinir verðandi foreldrar yrðu fluttir með sjúkraflugi á LSH þar sem fæðingin var sett af stað. Konan var aftur farin að finna fyrir hreyfingum en þótti þær minni en áður. Fósturhjartsláttur hélst áfram hraður með grunnlínu 170-180 slög á mínútu, breytileiki var lítill og lítið um hraðanir. Við horfðum báðar á fósturhjart- sláttarritið og mér stóð ekki alveg á sama með það sem ég sá og ljósmóðirin sem ég fylgdi þennan dag var sammála því að glæsilegra rit hafði hún oft séð. Ég hafði áhyggjur af því sem koma skyldi og var alls ekki viss um að það væri í lagi með þetta barn. Læknarnir töldu hjartsláttarritið þó ásættanlegt og haldið var áfram með fæðinguna. Ég krossaði bara putta og vonaði það besta og ég held að hinir verðandi foreldrar hafi gert það líka. Legvatn sem í upphafi hafði verið ljósgrænt var við lok fæðingar orðið dökkgrænt, við kölluðum á barnalækninn sem var viðstaddur fæðingu barnsins. Lítil stúlka leit dagsins ljós, hún andaði strax og grét en önnur höndin hennar var alveg líflaus og blá. Litla stúlkan var þó spræk og flott og fór fljótlega á brjóst. Þegar við fluttum hamingjusömu foreldrana og stúlkuna þeirra á sængurkvennagang var litur farin að koma á litlu hendina auk þess sem hún var aðeins farin að hreyfa hana, ég vona að svo hafi haldið áfram. Ég andaði léttar þegar þessari fæðingu var lokið og útkoman kom mér á óvart. Ég viðurkenni það fúslega að ég hafði af þessu miklar áhyggjur en eftir á að hyggja var ég svo glöð að fæðingin fékk að hafa sinn gang eins og hægt var í þessum aðstæðum, það var það besta fyrir konuna og barnið. FÓSTURHREYFINGAR Móðir verður oft fyrst vör við hreyfingar fósturs við 17-20 vikna meðgöngu og verða þær svo oftar en ekki merkjanlegri eftir því sem lengra líður á meðgönguna. Þegar hreyfingar fósturs eru samhliða metnar með sónarskoðun þá virðast mæður skynja um 33-88% sjáanlegra hreyfinga fóstursins og þá frekar ef fóstur hreyfir bæði útlimi og búk (Fretts, 2011; Signore, Spong og Freeman, 2011). Hreyfingar fóstursins eru hinni verðandi móður mikilvægar og gefa henni tilfinningu fyrir að barn hennar þroskist og dafni eðlilega og búi við góðar aðstæður. Þegar hins vegar dregur úr hreyfingum barnsins getur það valdið móðurinni vanlíðan og jafnvel streitu sem hvorki telst holl fyrir móður né barn (Fretts, 2011). Góð líðan móður gefur heilbrigðisstarfsfólki oftast vísbendingu um góða líðan fóstursins og því er mikilvægt að horfa eftir þeim þáttum hjá henni sem geta haft áhrif á fóstrið eins og háþrýsting, sykursýki, sýkingar, næring móðurinnar, reykingar eða andlegir og/ eða félagslegir þættir (Signore, Spong og Freeman, 2011). En ekki var annað skráð en að konan væri við góða heilsu að öllu leyti og aðstæður hennar góðar. Besta vísbendingin um góða líðan fósturs er þó af mörgum talin reglulegar og góðar hreyfingar barnsins. Móðirin getur oftast lýst ákveðnu mynstri í hreyfingum barnsins sem getur verið að það sé virkara á ákveðnum tíma sólarhringsins og mikilvægt er að móðirin sé meðvituð um þann breytileika sem barnið getur sýnt í virkni sinni (MedfortMh, Battersby, Evans, Marsh og Walker, 2009). En með hjálp túlksins fékk ég þær upplýsingar að oftast hreyfði barnið sig svo mikið seinni partinn og þess vegna var það svo seint að þeim fannst sem þau leituðu aðstoðar og eflaust hefur það nagað þau að innan þann tíma sem fæðingin stóð yfir. MINNKAÐAR FÓSTURHREYFINGAR Um 4-15% þungaðra kvenna láta vita af minnkuðum hreyfingum fósturs á þriðja þriðjungi meðgöngunnar en raunverulega minnkaðar hreyfingar á síðasta þriðjungi meðgöngunnar hefur oftar en ekki verið hægt að tengja við súrefnisskort eða vannær- ingu hjá fóstrinu (Winje, Saastad, Gunnes, Tveit, Stray-Pedersen, Flenady og Froen, 2011). Konur sem finna fyrir minnkuðum hreyfingum á síðasta þriðjungi meðgöngunnar Mat á fósturhreyfingum Jóhanna Ólafsdóttir ljósmóðurnemi N E M A V E R K E F N I

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.