Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 43

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 43
43Ljósmæðrablaðið - desember 2011 Samskipti og aftur samskipti Tilefni hugleiðinga minna voru samskipti mín og flugfreyju um borð í flugvél á leið til Íslands eftir dásamlega golfferð á Spáni. Ég var að koma úr tíu daga ferð í tilefni af fimm- tugsafmæli mannsins míns. Sólin hafði skinið skært frá morgni til kvölds og við hjónin spilað golf alsæl dag eftir dag. Loks vorum við á heimleið og ég steig um borð södd og sæl eftir gott frí. Yfirflugfreyjan bauð okkur velkomin um borð með bros á vör. Ég kom mér þægilega fyrir og tók upp bókina mína sem ég mæli reyndar með að allar ljós- mæður lesi, en bókin heitir Húshjálpin og er eftir Kathryn Stockett. Vélin var troðfull og greinilega mikið að gera hjá flugfreyjunum. Ég vissi ekki af mér fyrr en flugfreyjan kom og bauð mér veitingar. Ekkert bros, hún rétti mér grænmetisvefjuna orðalaust en ekkert kaffi sem ég pantaði. Ég rétti henni greiðslukortið og bað aftur um kaffi, engin viðbrögð, ekkert kaffi. Flugfreyjan hélt áfram að sinna sínu starfi og næst þegar hún átti leið framhjá bað ég í þriðja sinn um kaffi. Þá leit hún kuldalega á mig og sagðist ekki vera með bolla. Að nokkrum mínútum liðnum kom hún með kaffið, rétti mér það án þess að segja annað en „mjólk eða sykur“, ekkert gerðu svo vel, ekkert bros. Ég skynjaði mikið álag á henni og mín tilfinning var að hún væri hvorki ánægð með vinnuna sína þennan dag né að hún væri að sinna mér vel sem viðskiptavini. Þetta leiddi huga minn síðar að þeirri vinnu sem ljósmæður vinna og að grein sem við, Dr. Sigríður Halldórsdóttir birtum nýlega en hún kynnir drög að kenningu um það hvað konur telja að prýði góða ljósmóður. Greinin birtist á þessu ári í Scandinavian Journal of Caring Sciences og ber heitið The primacy of the good midwife in midwifery serices: an evolving therory of profesionalism in midwifery. Í kenningunni er lögð áhersla á að ljósmæður þurfi að hafa margskonar færni á valdi sínu til þess að konur upplifi þær „góðar ljósmæður“. Færni sem meðal annars lítur að því að ljósmæður hafi góða þekkingu í ljósmóðurfræði, hafi gott innsæi varðandi gang fæðingarinnar og einnig þurfi hún að vera mjög fær í samskiptum. Það var einmitt þetta með samskiptin sem fékk mig til að hugsa að í raun hefði þessi ákveðna flugfreyja verið að sinna því að næra mig á meðan á fimm tíma flugi heim stóð, hún var einnig búin að minna mig og aðra farþega á öryggisbelti og hvar björgunarvestin væru geymd. Hún hellti ekki kaffi ofaná mig eða neitt slíkt. En af hverju var ég þá ekki ánægð með þjónustuna? Var það ef til vill af því að þrátt fyrir að hún mætti grunnþörfum mínum um mat, þægilegt sæti og öryggi þá vantaði eitt- hvað, eitthvað sem varð til þess að ég hugsa ekki til hennar sem fyrirmyndar flugfreyju? Ég gat alveg séð ýmislegt sambærilegt í þessum aðstæðum og aðstæðum í vinnu minni sem ljósmóðir og þetta styrkti mig í þeirri trú að kenningin um hina „góðu ljós- móður“ væri kannski bara ekki svo galin, hægt væri að nýta hana fyrir okkur til að þroskast í starfi og við kennslu ljósmóður- nema í framtíðinni. Svona geta aðstæður sem við upplifum fengið okkur til að hugleiða hvað eru í raun mikil forréttindi að vinna sem ljósmæður á Íslandi, en einnig hvað starfið okkar er ábyrgðarmikið og vandasamt alla daga hvort sem mikið eða lítið er að gera í vinnunni. Samskiptin eru jú alltaf mikilvæg og stór þáttur í því að sinna skjólstæðingum okkar vel. Með góðri kveðju til ykkar allra Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir á Akureyri Sigfríður Inga, ljósmóðir, með nýbakaðri móður H U G L E I Ð I N G A R L J Ó S M Ó Ð U R

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.