Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 38

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2011, Blaðsíða 38
38 Ljósmæðrablaðið - desember 2011 Við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað er starfrækt eina fæðingardeildin á Austur- landi. Til deildarinnar leita konur allt frá Seyðisfirði og Jökuldal í norðri og suður til Hafnar í Hornafirði. Einnig er talsvert um að austfirskar brottfluttar konur velji að fæða á deildinni. Við deildina starfar ungur og sprækur hópur ljósmæðra, þær Ingibjörg Birgisdóttir, Jónína Salný Guðmundsdóttir og Oddný Ösp Gísladóttir, en þær starfa bæði við fæðingardeildina og í heilsugæslunni. Jafn- framt starfar Hrafnhildur Lóa Guðmunds- dóttir ljósmóðir í hlutastarfi við deildina. Því er deildin rík af ljósmæðrum, en ekki hafa svo margar ljósmæður áður starfað við deildina. Fæðingar hafa nú aukist ár frá ári allt frá því að hún Jónína Salný hóf störf árið 2007 og árið 2010 voru þær 87. Fæðingar í ár eru nú orðnar yfir 51 talsins þannig að ólíklegt verður að teljast að árið í ár muni slá metið frá því í fyrra. Ljósmæður deildarinnar skiptast á að vera á vakt og sinna þær þá allri bráðaþjónustu kvenna í barneignaferlinu. Þess utan sinna þær mæðravernd í Neskaupstað, á Eskifirði og á Reyðarfirði og hefur það sýnt sig að þessi beinu tengsl við konur á meðgöngu virka hvetjandi á þær til að nýta sér fæðingaþjónustu í heimabyggð. Við deildina er veitt ljósmæðrastýrð fæðingaþjónusta með getu til inngripa svo sem mænurótadeyfinga, sogklukkna og keisaraskurða þar sem sólarhringsbakvakt er á skurðstofu. Einnig nýtur deildin góðs af samstarfi við fæðingarlækna á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á Kvennadeild Landspítalans. Í ljósi þess niðurskurðar sem hefur verið og mun verða boðaður í heilbrigðiskerfinu og þróunar síðustu ára til fækkunar staða á landsbyggðinni þar sem fæðingum er sinnt, hafa ljósmæður deildarinnar oft áhyggjur af því hvort starfsemi deildarinnar sé í hættu. Í raun er það samróma álit ljósmæðra deildarinnar að það að hafa getu til að veita heimilislegt og rólegt umhverfi við fæðingar ásamt því að geta gripið inn í þegar á þarf að halda sé ómetanlegt og gefandi. Kveðja að austan. Ingibjörg Birgisdóttir Jónína Salný Guðmundsdóttir Oddný Ösp Gísladóttir Hrafnhildur Lóa Guðmundsdóttir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki Ég hef unnið á Sauðárkróki í rúman mánuð þegar þetta er skrifað. Í gegnum árin hefur þjónusta hér verið góð og ljósmæður sinnt konum vel. Hér er gott að vera og er góð samvinna á milli allra starfsmanna innan Heil- brigðisstofnunarinnar. Eins og annars staðar í heilbrigðisþjónustunni hérlendis hafa miklar breytingar átt sér stað á Sauðárkróki. Nú er þar ein staða ljósmóður sem sinnir mæðravernd, sængurlegu sem er oftast í formi heimaþjónustu, og ungbarnavernd upp að 6 vikum (allar heimsóknir í heimahús). Þessu stöðugildi deilum við Birgitta Pálsdóttir ljósmóðir sem stendur. Hér er ljósmóðir á morgunvakt alla virka daga auk þess að sinna símavakt til klukkan 20 mánudaga til fimmtudaga. Til þess að fá upplýsingar um hvernig þjónustan hefur breyst síðustu ár hafði ég samband við Birgittu Pálsdóttur. Mjög miklar breytingar hafa orðið síðustu tvö árin en fram til 1. janúar 2009 voru tvö stöðugildi ljós- mæðra á Sauðárkróki. Eftir það var smátt og smátt klippt af, þar til komið var niður í 1 stöðugildi þann 1. júní 2011. Fram til 1. apríl 2010 var vakt ljósmæðra allan sólar- hringinn og sjúkrahúsið opið sem fæðinga- staður fyrir fjölbyrjur í eðlilegri meðgöngu en eftir þann tíma hefur konum verið vísað á aðra fæðingastaði. Þegar skoðað er á vef Hagstofu Íslands hve mörg skagfirsk börn hafa fæðst síðustu ár má sjá að á árunum 2000-2010 fæddust um 41-70 börn á ári. Á árunum 2000-2009 var um þriðjungur skagfirskra barna fæddur á Sauðárkróki en þá voru 14-29 fæðingar þar árlega (20,3 fæðingar að meðaltali), flestar fæðinganna voru fjölbyrjufæðingar. Árið 2010 fæddust 4 börn á Sauðárkróki, þrjú þeirra fyrir breytingarnar 1. apríl. Eftir að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hætti að bjóða upp á fæðingar þann 1. apríl 2010 hafa þrjú börn fæðst þar (2 árið 2011) auk þess sem ein kona valdi heimafæðingu á Sauðár- króki á þessu ári. Það hefur komið mér á óvart þann stutta tíma sem ég hef verið hér hversu margar konur hafa tjáð sig um þær breytingar sem orðið hafa. Þær konur sem hafa fætt á Sauðárkróki minnast þess með hlýju og lýsa óánægju sinni með að eiga ekki kost á að fæða á sjúkrahúsinu hér. Frumbyrjur hafa ekki tjáð sig mikið um málið, reikna með að þurfa til Akureyrar eða annað eftir því hvað þær kjósa. Oft velja þær að dvelja einhvern tíma fram að fæðingu á þeim stað sem þær velja sem fæðingarstað. Öðru máli gegnir um fjölbyrjur, sérstaklega þær sem hafa sögu um hraðan gang fæðingar, þær tjá ótta um að ná ekki á fæðingarstað í tæka tíð og upplifa sig óöruggar. Þær vilja síður dvelja lengi frá heimili þar sem þær hafa öðrum börnum að sinna. Síðan ég kom hingað hef ég mikið velt því fyrir mér hvernig hægt væri að koma til móts við konur sem búa fjarri sjúkrahúsum sem bjóða upp á fæðingarþjónustu og upp í huga minn hafa komið ýmsar hugmyndir sem eru misraunhæfar og vil ég varpa nokkrum spurn- ingum fram. Hvað er hægt að gera til þess að auka þjónustu sem jafnframt er hagkvæmur og raunhæfur kostur? Gætu ljósmæður unnið saman í heimafæðingateymum til að auka val heilbrigðra kvenna sem búa á landsbyggðinni? Heimafæðingar hafa gefist vel sem valkostur á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri en væri hægt að auka þá þjónustu á landsbyggðinni? Annað sem ég hef leitt hugann að varðandi ljósmæðraþjónustu almennt, er þjónusta í ungbarnavernd. Við það að fá tækifæri til þess að fylgja konum eftir fyrstu 6 vikurnar hef ég komist á þá skoðun að það væri ákjósanlegt að ljósmæður sinntu þeim tíma almennt. Ég hef áhuga á að sjá okkur berjast fyrir því að sinna þeim tíma í meira mæli. Það væri gaman að fá umræðu um þessar vangaveltur. Ásrún Ösp Jónsdóttir, ljósmóðir

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.