Morgunblaðið - 29.11.2018, Page 67
MENNING 67
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. NÓVEMBER 2018
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Við vissum það ekki þá, en þetta var bara eitt
af ótal mörgum atvikum þetta árið. Ekkert
þeirra var eins, en öll svipuð í eðli sínu.
Nokkrum vikum síðar sá ég hreindýr úti á
fótboltavelli þegar ég var að labba heim. Ég
stoppaði og það leit í átt að mér. Það var með
andlit gamallar manneskju. Þá vissi ég að
heimurinn sem ég hafði alist upp í væri horf-
inn fyrir fullt og allt.
Þessi texti birtist snemma í skáldsögunni
Vættir eftir Alexander Dan Vilhjálmsson, en
bókin gerist í hliðstæðum veruleika við okkar
nema smám saman hafa torkennilegar vættir
birst víða um land, og víða um heim reyndar,
fyrst á Íslandi en síðan birtast vættir í hverju
landinu af öðru.
Fyrsta skáldsaga Alexanders, Hrímland,
kom út fyrir fjórum árum. Hann snaraði
henni síðan á ensku og breska stórfyrirtækið
Gollancz hyggst gefa hana út ytra á næsta
ári. Það hefur því verið í nógu að snúast á
árinu, því ekki var hann bara að ganga frá
Vættum til útgáfu, heldur vann hann í hand-
ritinu að enskri útgáfu Hrímlands og einnig
að framhaldi þeirrar bókar, því Gollancz vill
meira.
Skrifaði ekki neitt í heillangan tíma
Spurður um tilurð Vætta segir Alexander
að hann hafi verið týndur með áframhaldið
eftir að hafa gefið Hrímland út sjálfur. „Mér
fannst ég gæti ekki fundið þeim sögum sem
ég vildi skrifa farveg á Ísland, var svo upp-
gefinn. Ég þýddi svo bút af Hrímlandi og
sendi til Gollancz í hálfkæringi í byrjun jan-
úar 2016, bara til að hafa eitthvað að gera, en
gafst svo eiginlega upp á því verkefni, fannst
ég þurfa að gera eitthvað annað. Ég skrifaði
ekki neitt í heillangan tíma, langaði að gefast
upp en sætti mig ekki alveg við það og Vættir
verður til sem smásaga haustið 2016. Svo
sendi ég smásöguna hingað og þangað, en
fólk ýtti á mig að gera aðeins meira úr þessu.
Ég skoðaði málið og fannst ég geta búið til úr
smásögunni stutta skáldsögu sem stæði ein
og sér. Ég skrifaði svo Vætti frameftir ári ár-
ið 2017, en í enda sumars 2017 heyrði ég svo
frá Gollancz sem vildi gefa Hrímland út á
ensku.
Ég kláraði svo að þýða hana á ensku og að
skrifa Vætti í resídensíu fyrir listamenn í
Norður-Japan en ritstýrði báðum handrit-
unum í sumar. Hrímland breyttist heilmikið í
ritstýringu á ensku og hefur lengst töluvert.
Samtímis því var ég að ritstýra Vættum í vor
og í sumar og það var hellað.“
Mjög upptekinn af mörkum hins
raunverulega og óraunverulega
— Var það þér mikilvægt að Vættir kæmu
út á þessu ári?
„Já, það var mér mjög mikilvægt að hún
kæmi út í haust. Ég varð að klára eitthvað
fyrir sjálfan mig og finna að ég hafi áorkað
einhverju, en líka útaf starfslaunum lista-
manna — ég er ungur óþekktur rithöfundur
og ég verð að sýna fram á framleiðni, ég get
ekki leyft mér of langan biðtíma á milli
verka.“
— Mér finnst Vættir vera bók um það hvað
línan á milli þess sem við teljum raunverulegt
og óraunverulegt getur verið ógreinileg.
„Ég er mjög upptekinn af mörkum hins
raunverulega og óraunverulega og helst að
reyna að má þau út. Vættirnir í bókinni eru
mjög hversdagslegir, en fyrir lesandanum og
sögupersónum mjög ókennilegir og óþægileg-
ir en þetta er líka í kontrast við ónáttúruna
við það að vera mennskur. Vættirnir eru okk-
ur ónáttúrulegir en samt hluti af náttúrunni
sem við erum ekki, það er okkar ónáttúra að
vera utangátta í náttúruríkinu. Þarna byrjar
náttúran að færa sig inn á okkar ónáttúru,
inn á okkar mennska svið og þessi kontrast er
eitthvað sem ég er mjög upptekinn af. Það
sem situr í aðalpersónunni er hans eigin
mennska og meðvitundin – sem hann kannski
afneitar eða yfirgefur eða kemst yfir í lokin.
Það er svo margt órætt í bókinni og ég er
svo hrifinn af því að það sé órætt. Ég hef
heyrt í fólki sem lesið hefur bókina og það
kemur mér á óvart hve mismunandi merking
er lögð í ýmsa hluti sem kennir mér að vera
ekki mjög upptekinn af því að sjá fyrir túlkun
annarra, ég er frekar að reyna að skilja hvað
felst í því sem ég er að segja að því marki
sem ég get. Styrkur furðusögunnar liggur
svolítið í þessu, hún opnar fyrir nýja sýn á
hlutina og mér finnst hún einstök í bók-
menntaheiminum sem verkfæri til að kanna
flóknar, stórar spurningar og hugtök.“
Afneitunin ræður okkar sýn á hlutina
„Í Vættum fær maður aldrei að staldra
nógu lengi við í okkar hversdagsleika, þess
vegna er þetta fyrstu persónu frásögn og
hans afneitun ræður okkar sýn á hlutina.
Þegar við teljum hlutina vera eðlilega þá er
það vegna þess að sögumaðurinn kýs ekki að
lýsa eða takast á við umhverfi sitt sem hefur
gjörbreyst. Þessi afneitun er sögumanni
styrkur og varnarviðbrögð, en hún er líka al-
gjört böl. Stundum kemur eittvað fyrir sem
hann getur ekki afneitað og þess vegna læðist
það inn í frásögnina.
Þess vegna finnst mér túristakaflinn svo
skemmtilegur, þegar sögumaðurinn situr í
Bríetargarðinum og kýs að tala ekki um það
sem er fyrir allra augum, vættina. Þessi kafli
er eitt það fyrsta sem ég skrifaði þegar ég
var að búa til smásöguna og síðan hef ég setið
svolítið í þessum reit, ég stoppa þar oft þegar
ég er á vappi niðri í bæ. Svo lenti ég í því í
enda sumars að ég sat á reitnum og kemur
ekki hópur af túristum, alveg eins og í bók-
inni, og fararstjórinn byrjar að básúna um
femínisma á Íslandi, að garðurinn heiti eftir
Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, það sé svo ótrúlega
mikið kynjajafnrétti á Íslandi, ekkert kyn-
ferðisofbeldi og enginn kynjamunur — hann
lýsir glansmynd af Íslandi sem er ekki sönn
og ég sit þarna eins og fáviti. Þetta var eins
og atriði úr bókinni, þar sem fararstjórinn
lýgur um eðli vættanna. Rétt eins og aðal-
persónuna langaði mig að skipta mér af og
segja: þetta er ekki alveg satt sem þú ert að
segja, þú ert að moka yfir massíf vandamál í
samfélaginu, kynbundið ofbeldi og svo fram-
vegis, en svo segi ég ekki neitt, sit og þegi.
Þetta atvik hefur setið í mér síðan. Þetta var
of nálægt því sem ég hafði skrifað fyrir næst-
um ári, þetta var list að líkja eftir lífi að líkja
eftir list.“
Ónáttúran við það að vera mennskur
Í skáldsögunni Vættir eftir Alexander Dan Vilhjálmsson birtast torkennilegan verur hér og
þar í umhverfi okkar og má út mörk hins raunverulega og óraunverulega
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Furðusögur Rithöfundinum Alexander Dan Vilhjálmssyni fannst erfitt að finna þeim sögum sem hann vildi skrifa farveg á Íslandi .
Óvelkomna manninum eftirJónínu Leósdóttur mættilýsa sem eins konargamanglæpasögu, en
þessi þriðja bók í Eddumálabálkn-
um fjallar um eftirlaunaþegann
Eddu sem á ótrúlegan og jafnframt
óborganlegan hátt flækist í glæp-
samlega atburðarás eða tvær. Eddu
er bókstaflega ekkert óviðkomandi
og henni er mikið í mun að hafa
stjórn á öllu og öllum í kring um sig.
Henni tekst það raunar vel, eða alla-
vega að hennar eigin mati, en
flestum ætti að þykja persóna Eddu
nokkuð kunnugleg. Hún minnir
helst á gamla frænku okkar allra, jú,
eða ömmu, sem skiptir sér af öllu
mögulegu. Í Óvelkomna manninum
fellur maður fram af svölum í blokk-
inni hennar Eddu á Birkimelnum.
Sá var líklega óvelkominn í blokk-
inni og í gleðskapnum á hæðinni fyr-
ir ofan Eddu, sem hélt henni vak-
andi. Þess vegna
sá hún líka son
sinn, dauða-
drukkinn, koma
við í blokkinni um
miðja nótt. Son-
inn, sem, ólíkt
unnusta hans,
þolir ekki móður
sína, en það er
einmitt móðir tengdasonar Eddu
sem er í eins konar auka-aðal-
hlutverki í Óvelkomna manninum.
Maður úr fortíð Sigurbjargar kemur
óvelkominn í heimsókn til Íslands og
Edda neyðist til að halda fjölda bolta
á lofti í tilraun til þess að halda frið-
inn.
Persóna Eddu er grátbrosleg og
vekur aðdáun á sama tíma og af-
skiptasemin gengur of langt. Jónínu
tekst einnig að vekja flestar auka-
persónur sögunnar til lífsins í huga
lesenda og álit þeirra verður það
sama og álit Eddu á hverri persónu
fyrir sig. Viktor tengdasonur er
bestur allra, Snorri, elskhugi hans,
er kaldlyndur og þolir ekki móður
sína og Leif, hinn tengdasoninn, er
hægt að ráðskast ágætlega með, lög-
reglumanninn sjálfan. Gustav af efri
hæðinn er talsvert dularfyllri per-
sóna en hinar aðalpersónurnar, enda
er hann einn af fáum sem Edda sjálf
áttar sig ekki almennilega á. Finnur
á hæðinni fyrir neðan er meinlaus,
en allir þeir sem koma að fyrirtæki
Theodórs eru óþokkar og bjálfar.
Það er gaman að fylgjast með
Eddu og Jónína segir skemmtilega
frá raunum hennar og tilraunum.
Sagan snýst líka um svo miklu meira
en bara hasarinn, en Jónína fjallar
vel um það fallega samband sem
getur myndast á milli tengdamóður
og -sonar, á milli sonar og móður, og
jafnvel sambönd tveggja samkyn-
hneigðra para sem ákveða að eign-
ast börn saman. Allt í allt er bókin
fínasta afþreyingarefni og gaman
yrði að fylgjast með Eddu í næstu
ævintýrum.
Af afskiptasömu frænku okkar allra
Morgunblaðið/Eggert
Gamanglæpasaga Óvelkomni maðurinn er þriðja bókin í Eddumálabálki
Jónínu Leósdóttur sem fjallar um eftirlaunaþegann Eddu.
Skáldsaga
Óvelkomni maðurinn bbbmn
Eftir Jónínu Leósdóttur.
Mál og menning, 2018. Kilja. 296 bls.
ÞORGERÐUR ANNA
GUNNARSDÓTTIR
BÆKUR