Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.11.2018, Qupperneq 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.11. 2018
LESBÓK
Þetta fræga verk er eins ogbrjóstsykur sem þarf að sjúgaen ekki bryðja,“ segir Einar
Thoroddsen um Gleðileik ítalska
skáldsins Dantes Alighieri. Einar er
þekktur sem háls-, nef- og eyrna-
læknir, og líka sem vínsérfræðingur,
en hann er fjölhæf-
ur maður og hefur
undanfarinn ára-
tug fengist við að
þýða Gleðileikinn,
eitt frægasta verk
vestrænnar bók-
menntasögu.
Fyrsti hluti af
þremur, Víti, er nú kominn út og er
glæsilega út gefinn; ítalska og ís-
lenska sitja hlið við hlið í opnunum,
Ragnar Kjartansson gerði nýjar
teikningar úr frá kvæðinu og Börkur
Arnarson galleristi í i8 galleríi hann-
aði bókina sem er fallega prentuð og
bundin í Faenza á Ítalíu, ekki svo
langt frá Flórensborg þar sem Dante
fæddist árið 1265. Í pólitískum átök-
um í borgríkinu batt hann trúss sitt
við hóp sem varð undir og var í kjöl-
farið gerður útlægur árið 1302. Hann
orti hinn rómaða Gleðileik í útlegð-
inni, gerði þar meðal annars upp þær
pólitísku væringar sem geisuðu um
Ítalíuskagann en í kvæðinu er lýst för
skáldsins um undirheima, Skírnar-
fjallið og Paradís. Gleðileikurinn er
14.233 ljóðlínur, ortar í svokölluðum
tersínuhætti í 100 kviðum. Dante lést
1321.
Byrjaði bara eins og kjáni
Einar hafði áður þýtt Vetrarævintýri
Heinrichs Heine, sem kom út fyrir
sjö árum, en segist hafa unnið að þýð-
ingunni á Gleðileiknum undanfarinn
áratug, í ritstjórn Jóns Thoroddsens
bróður síns. „Ég var einfaldlega sett-
ur í þetta verk,“ segir Einar. „Í síð-
ustu kviðu Vetrarævintýris Heine er
ljóðmælandinn að tala við kónginn og
varar hann við því að ritskoða skáld-
in. Hann spyr hvort kóngur þekki
ekki helvíti Dantes. Gættu þín svo þú
verðir ekki sendur þangað niður, seg-
ir hann.
Hvort sem það var vegna þeirra
orða eða ekki þá hringdi Nonni bróðir
stuttu eftir að ég lauk við að þýða þau
og sagðist vera með SVAKALEGA
tillögu. Svo sagði hann einfaldlega
Dante! Hann álítur Kómedíuna
mesta ljósið sem ort hefur verið – og
ég byrjaði bara eins og kjáni og þýddi
fyrstu kviðurnar.“
Jóni bróður hans þótti útkoman
harla góð og þá ákvað Einar að halda
áfram og það í tersínuhætti eins og
Dante beitti, með stuðlum og rími.
„Eða eins og Hérastubbur bakari
sagði: Eins og piparkökur eiga að
vera!“ segir hann um aðferðina.
Eins og að festa bíl í drullu
Þýðendur hafa áður tekist á við Gleði-
leikinn guðdómlega á íslensku; Guð-
mundur Böðvarsson skáld sendi árið
1968 frá sér þýðingu á tólf kviðum og
þá kom árið 2010 út lausamálsþýðing
Erlings E. Halldórssonar. Þess má
geta að í nágrannalöndum okkar hef-
ur Gleðileikurinn verið þýddur reglu-
lega; til að mynda eru einar sjö þýð-
ingar til á sænsku.
Einar segist hafa strax fundið sig
ágætlega í heimi Dantes, þegar hann
byrjaði að þýða, þótt hann hafi iðu-
lega lent í sjálfheldu. „Það er eins og
að festa bílinn viljandi í drullu,“ segir
hann og glottir. „Stundum þurfti að
endurraða línum, og færa aðeins frá
frummálinu, og ég sé aðra þýðendur
líka þurfa að gera það. En flestir sem
þýtt hafa Dante á síðustu öld hafa
sleppt ríminu og það er sérkennilegt
að sjá fræðinga skrifa að með rími
verði meiningardreifing; vegna remb-
ings við að koma rímorðum inn náist
ekki að gera meiningunni skil. Ég er
ekki sammála því.
Vissulega myndi það gera starfið
auðveldara að sleppa ríminu en ég
reyni hinsvegar alltaf að koma því inn
sem Dante er að segja.“
Og Einar beitir við það ríkulegu
orðfæri og hikar ekki við allrahanda
vísanir; beitir til að mynda íslenskum
málsháttum og orðtökum, vísar í
fornar bókmenntir okkar og norræna
goðafræði.
„Mér finnst það allt í lagi,“ segir
hann. „Dríslana sem moka lögfræð-
ingum í einni kviðunni út í tjörutjörn
kalla ég til að mynda Lepp og
Skrepp, Láp og Skráp, eftir börnum
Grýlu. Og hef ekkert samviskubit
gagnvart því.“
Nútímalegt verk í raun
Þýddi Einar af frummálinu, ítölsku?
„Nonni bróðir fullyrðir að ég tali
hana og notaði þau rök þegar hann
fékk mig til að byrja á þessu. Sher-
lock Holmes myndi segja: Talar
ítölsku er kannski nokkuð vel sagt,
kæri Watson … Ég var í skiptinámi á
Ítalíu árið 1974 og náði svolítið að tala
hana með því að fara á puttanum út
um allt og ræða við mann og annan.
Ég hafði lesið málfræðina áður og
kunni frönsku. En ég þýði úr hverju
sem ég get, mest ensku, en kíki líka á
sænskar og danskar þýðingar, og
skoða líka svolítið prósaþýðingu Er-
lings E. Halldórssonar. Stemmi svo
af með ítölskunni.“
En hefur Einar tamið sér á þessum
árum að setjast yfir þýðingar þegar
hann kemur af læknavakt á sjúkra-
húsinu eða stofu sinni?
„Nei. Hér heima á Íslandi hefur
verið erfitt að finna nauðsynlegt
næði. En ég fór hér áður reglulega að
lækna í Noregi og Svíþjóð og þegar
ég kom þar heim eftir vinnudag lagði
ég mig kannski í klukkutíma og var
þá í þokkalegu líkamlegu ástandi til
að sökkva mér í þýðinguna. Þá náði
ég kannski heilli kviðu á einni viku og
þótti það gott. Þetta gerði ég síðast
fyrir tveimur árum, er hættur því
núna, en þá fékk maður gott næði og
mátti helst ekki drekka – sem þýðir
að alla þá tíma sem hafa farið í þetta
hef ég verið edrú, sem er gott fyrir
frægan drykkjumann eins og mig,“
segir hann og glottir.
„Ég hætti að vinna á Borgarspít-
alanum um daginn, var rekinn fyrir
aldurs sakir, geri nú aðgerðir á
mánudagsmorgnum og er á stofunni
tvo eftirmiðdaga. Ég ætti nú að geta
unnið eins og Richard Strauss sem
samdi tónlist milli 8 og 16 – hann var
ekkert að bíða eftir uppljómun.“
Einar segir marga hafa sagt Gleði-
leik Dantes besta eða merkasta
kvæði sögunnar. TS Eliot hafi sagt þá
Shakespeare og Dante hafa skipt
heiminum á milli sín. Og hann segir
Dante tala furðu eðlilega til fólks í
dag, sjö hundruð árum eftir að kvæð-
ið var samið. „Hugsunin og sam-
skiptin eru stundum eins og í heita
pottinum í laugunum,“ segir hann.
„Ég er alltaf jafn hissa á því hvað
þetta er nútímalegt verk í raun.“
Hart deilt á syndir mannsins
Í Víti er skáldið á ferð niður í undir-
heima og þar er deilt hart á syndir og
breyskleika mannsins. Einar segir
áherslur vissulega hafa breyst, hvað
séu slæmar syndir. „Hégómagirnd
þykir slæm, svindlarar eru afleitir,
vondir ráðgjafar lenda í elddropa,
svikarar eru í neðsta víti, klækjaref-
um er hent í tjöru og sjálfsmorðingjar
fara illa út úr því,“ telur hann upp.
„Best áttu þeir sem lentu í limbó en
það er svæði fyrir þá sem voru eig-
inlega góðir en fæddust fyrir kristni
og áttu því ekki séns, fyrir utan örfáir
sem Jesús kippti með sér þegar hann
braust þangað inn.“
Þegar Einar er spurður út í athygl-
isverðar myndskreytingar Ragnars
Kjartanssonar segir hann Ragnar
hafa tekist á við það á sinn hátt að
túlka helvíti. „Hverju er hann að
pirra sig á? BMW-bíll á verkstæði,
De Gaulle-flugvöllur, kolagrill í rign-
ingu … svo eru þarna til dæmis
vinnubúðir á hálendinu og trommu-
sett í bílskúr. Þetta eru sjálfstæð
verk, með tengingar, en bæta annarri
vídd við bókina.“
Einar lauk við að þýða Víti fyrir um
fjórum árum og síðan hefur þýðingin
verið í yfirlestri og unnið að útgáf-
unni. Hann hefur haldið áfram með
Gleðileikinn. „Ég er langt kominn
með næsta hluta, Hreinsunareldinn –
sem ég vil kalla Skírnarfjallið en eld-
urinn er bara efst uppi á toppnum. Þá
er ég líka búinn með upphafið að
lokahlutanum, Paradís.“
Eftirmála Einars í Víti lýkur með
spurningunni Framhald næst?
„Já já, ég vona að ég endist til að
klára, að heilarýrnunin aukist ekki
hratt – nógu slæm er hún,“ segir þýð-
andinn.
„Vissulega myndi það gera
starfið auðveldara að sleppa
ríminu en ég reyni hinsvegar
alltaf að koma því inn sem
Dante er að segja,“ segir Einar.
Morgunblaðið/Einar Falur
Eins og í heita pottinum hjá Dante
Út er komin þýðing Einars Thoroddsens á Víti, fyrsta hluta hins viðamikla og víðfræga Gleðileiks skáldsins Dantes Alighieri
en hann var ortur fyrir rúmlega sjö hundruð árum. Útgáfan er glæsileg með teikningum eftir Ragnar Kjartansson.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
’Dríslana sem mokalögfræðingum í einnikviðunni út í tjörutjörnkalla ég til að mynda Lepp
og Skrepp, Láp og Skráp,
eftir börnum Grýlu. Og
hef ekkert samviskubit
gagnvart því.
Ein af teikningunum sem
Ragnar Kjartansson gerði fyr-
ir fallega útgáfuna á Víti Dan-
tes. Einar segir þær „bæta
annarri vídd við bókina“.