Náttúrufræðingurinn - 2018, Side 9
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
89
bili en jafnan væri verri veiði í kjölfar
hitasumra. Rannsóknir á dýraleifum úr
borkjörnum sem teknir hafa verið úr
botnseti vatnsins hafa einnig sýnt að
sveiflur hafa verið í öðrum dýrastofnum
en fiski þegar litið er til langs tíma.5,12
Tölur sem Veiðifélag Mývatns hefur
safnað um veiðina munu vera lengstu
samfelldu veiðitölur úr stöðuvatni sem
til eru hér á landi. Veiðitölurnar sýna
áberandi topp í veiði um 1920 og hefur
sambærilegur veiðitoppur ekki náðst
síðan. Hafa skal í huga að á þessum
tíma hafa allmiklar breytingar orðið
á ástundun og veiðibúnaði. Árið 1905
var stofnað félag um veiði í Mývatni,
forveri þess sem síðar varð Veiðifélag
Mývatns. Það var stofnað vegna þess að
mönnum fannst veiði hafa minnkað og
of hart sótt í silunginn. Með aðgerðum
veiðifélagsins var reynt að friða hluta
riðastöðva, stemma stigu við vargi
(fugli) á riðum og síðar að stunda fisk-
rækt með hrognaklaki í vatninu.44 Sam-
kvæmt veiðiskýrslum var afli á þessum
árum mun meiri en hann hefur verið
hin síðari ár þótt veiðitæki hafi þá verið
frumstæðari. Það bendir sterklega til
þess að veiðistofn bleikju hafi verið
mun stærri á þeim tíma. Frá árinu 1912
hafa verið í gildi reglur um að ekki séu
notuð net með smærri möskvum en 1½
tommu (38 mm) og að lágmarksstærð
þeirra fiska sem nást í dorg- og drátt-
arveiðum sé ekki undir 12 þumlungum
(35 cm). Höfðu dorgveiðimenn oft mál á
dorgskrínum sínum til viðmiðunar. Var
þetta gert til að koma í veg fyrir dráp á
smáfiski og gefa smásilungnum færi á
að vaxa og auka með því verðmæti afl-
ans. Til frekari verndar gegn ofveiði var
mælst til þess að hver jörð friðaði drátt-
arveiði á tveimur riðum. Þá var hvatt
til þess að ábúendur reyndu að stemma
stigu við fjölda afræningja á fiskum. Það
voru einkum fuglar sem taldir voru éta
silung og/eða hrogn þeirra.44 Á árunum
fyrir 1930 var veiði einkum stunduð með
fyrirdrætti á riðum á haustin og með því
að veiða hitasilung. Svo nefnist silungur
sem sækir í kaldara vatn á lindasvæðum
og safnast þar saman á sumrin þegar
hlýtt er í veðri. Dorgveiði var stunduð
gegnum ís á vetrum og var þá dorgað
um göt sem höggvin voru með ísabroddi.
Eftir að lagnet komu til sögunnar voru
þau lögð undir ís með því að þræða spíru
(langa spýtu) á milli vaka. Árið 1931 fékk
Búnaðarfélag Íslands til landsins mann
frá Kanada til að leiðbeina við veiðar
undir ís og kom hann með tæki sem
nefnist kafari, sérútbúið til ísveiða og
höfðu íslenskir landnemar kynnst kafar-
anum þar í landi (6. mynd).8
5. mynd. Bleikjupar, hrygna (fremri) og hængur, á riðastöðvum í Mývatni. Neðst á myndinni má sjá hvernig hrygnan hefur fægt (hreinsað) botninn
til undirbúnings hrygningar. – Mature female (to the left) and male on the spawning grounds in Lake Mývatn. Ljósm./Photo: Árni Einarsson.
Eins og áður segir var fyrirdráttur
í net ein af megin-veiðiaðferðunum í
Mývatni og dráttarnet dregin að landi.
Meðal annars var dregið fyrir undir ís á
riðastöðvum á haustin. Þá var dráttar-
taugum og dráttarneti komið undir ís
um vakir og dráttarnetið dregið í vök
sem gerð var í ísinn við land.
Árið 1919 voru reistar stíflur í útfalli
Mývatns til áveitu á engjar. Hugsanlegt
er að þær hafi átt einhvern þátt í þeirri
miklu veiði sem kom árin þar á eftir, svo
sem vegna útskolunar áburðarefna af
landi, en ekki hefur verið hægt að tengja
þetta með beinum hætti.
Um 1930 var farið að nota lagnet
til veiða og voru þau í fyrstu riðin úr
ull og bómull. Fyrst eftir að farið var
að nota lagnet voru þau 3 möskvar á
dýpt en veiðin batnaði þegar þau voru
dýpkuð í 4 möskva og kölluðu sumir
þau hænganet. Um 1940 komu nælonnet
til sögunnar og girnisnet um 1960. Nýju
veiðarfærin voru veiðnari en þau sem
notuð voru áður. Utanborðsvélar á báta
komu til sögunnar um 1950 og við það
opnaðist allt vatnið fyrir veiði.41,42