Morgunblaðið - 30.03.2019, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 30.03.2019, Blaðsíða 21
21 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. MARS 2019 Bros Ekki stíga út fyrir, hugsaði konan káta. Eggert Áætlað er að um 60 milljónir hermanna hafi tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni sem geisaði á árunum 1914- 1918. Fórnarlömbin þegar yfir lauk voru níu milljónir hermanna og sex milljónir óbreyttra borgara. Á síðustu mánuðum stríðsins geisaði Spán- arveikin. Talið er að hún hafi valdið dauða á milli 50 og 100 milljóna manna. Íslendingar fóru ekki varhluta af þessum ham- förum. Afkomendur Íslendinga í Kanada voru í herjum bandamanna. Aðdrættir á nauðsynjavöru urðu stórum erfiðari og Spánarveikin tók sinn toll á Íslandi eins og í öðrum ríkjum. Félagslegt ranglæti leiðir til árekstra Stríðsátökum lauk á friðardaginn 11. nóvember 1918. Formlegur endi var bundinn á styrjöldina með frið- arsamningunum sem kenndir eru við Versali í Frakklandi. Að beiðni samtaka launfólks í nokkrum ríkjum samþykkti friðarráðstefnan í París árið 1919 að stofna nefnd til að fjalla almennt um vinnurétt. Nefndin hafði sérstöðu vegna þess að í henni áttu ekki aðeins sæti fulltrúar rík- isstjórna heldur einnig talsmenn at- vinnurekenda og launafólks. Að loknu tíu vikna starfi afgreiddi vinnumálanefndin skjal sem byggt var á breskum drög- um, sem 11. apríl 1919, varð að XIII. kafla Versalasáttmálans sem var undirritaður 28. júní sama ár. Í kafl- anum er kveðið á um það að komið skuli á fót sérstakri stofnun er hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vanda- málum sem öll ríki eigi við að stríða og aðeins verði sigruð með sam- eiginlegu félagslegu átaki þjóðanna. Sérstaklega er tekið fram að varanlegur friður verði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti sé fyrst komið á innan þjóðfélag- anna. Óréttlæti veldur árekstrum sem leiða til styrjalda þjóða í milli. Í því skyni að koma á félagslegu rétt- læti viði stofnunin að sér upplýs- ingum um atvinnumál og ástand í félagsmálum, ákveði lágmarks- kröfur og samræmi þær í hverju landi. Þessi kafli Versalasamnings- ins er kjarninn í stofnskrá Alþjóða- vinnumálastofnunarinnar (Int- ernational Labour Organization – ILO). Síðan er liðin ein öld. Frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur erlent samstarf stjórnvalda á sviði félags- og vinnumála vaxið mikið að umfangi. Þar vegur þyngst þátttaka í samstarfi Norður- landanna og samvinna við aðild- arríki Evrópuráðsins sem hófst á sjötta áratug síðustu aldar. Aðild að alþjóðlegu félagsmálasamstarfi hófst áratug fyrr eða árið 1945 þeg- ar umsókn Íslands að Alþjóðavinnu- málastofnuninni var samþykkt á Al- þjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í París. Í öllum fastastofnunum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eiga sæti fulltrúar atvinnurekenda, launafólks og ríkisstjórna. Samstarf þessara þriggja aðila er einstætt fyrir stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og eitt af grundvall- aratriðum í starfseminni. Mikið áunnist Á aldarafmæli Alþjóðavinnu- málastofnunarinnar verður starf hennar og árangur metinn. Farið verður yfir hinar tæplega 190 sam- þykktir og rúmlega 200 tilmæli sem Alþjóðavinnumálaþingið hefur af- greitt á aldarlöngum starfsferli og kannað hvort og hver áhrifin hafa orðið. Ekki fer á milli mála að sumt hefur gengið miður en margt hefur áunnist. Langflest ríki hafa ákvæði í lögum sem tryggja réttinn til að stofna félög til að berjast fyrir sam- eiginlegum hagsmunum. Sama gild- ir um réttinn til að semja um kaup og kjör. Bylting hefur orðið varð- andi skilning á því að starfsmenn verði ekki fyrir heilsutjóni við vinnu sína og að starfsumhverfið sé öruggt. Mikill árangur hefur náðst í því að jafna kjör karla og kvenna þótt víða sé enn pottur brotinn á því sviði. Hugarfarsbreyting hefur átt sér stað að því er varðar vinnu barna. Fjöldi fullgildinga aðild- arríkjanna á samþykkt Alþjóða- vinnumálastofnunarinnar um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd er til vitnis um þetta. Þörf fyrir lág- marks almannatryggingar er við- urkennd. Til að undirbúa aldarafmælið var því beint til ríkisstjórna aðildarríkj- anna að efna til umræðna um eft- irfarandi þætti sem gætu orðið inn- legg í stefnumótun fyrir starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í nánustu framtíð: Þróun atvinnulífs- ins og samfélagsins, atvinnusköpun – einnig í þágu þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, breyt- ingar á skipulagi vinnunnar vegna nýrrar tækni og samskipti atvinnu- rekenda og launafólks o.fl. Rík- isstjórnir Norðurlandanna, í sam- vinnu við Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, Alþjóða- vinnumálastofnunina og samtök að- ila vinnumarkaðarins, stofnuðu til samstarfsverkefnis af þessu tilefni. Haustið 2017 hófst rannsóknarverk- efni sem beinist að breytingum á skipulagi vinnunnar og áhrifum þeirra á norræna vinnumarkaðslík- anið. Enn fremur er sjónum beint að því með hvaða hætti hægt væri að hafa áhrif á framvinduna þannig að sá samfélagslegi árangur sem Norðurlöndin hafa náð á svið félags- og vinnumála glatist ekki. Frá árinu 2016 hafa árlega verið haldnar ráð- stefnur um framtíð vinnunnar sem fylgt hafa formennsku í norrænu ráðherranefndinni þar sem tekin hafa verið fyrir afmörkuð verkefni á framangreindum málefnasviðum. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Finn- landi árið 2016, önnur í Noregi árið 2017 og sú þriðja í Svíþjóð vorið 2018. Lokaráðstefnan verður haldin í Hörpu 4. og 5. apríl 2019. Sérstök áhersla á stöðu kynjanna á vinnumarkaði Á ráðstefnunni í Reykjavík verða kynntar niðurstöður nefndar á veg- um Alþjóðavinnumálastofnunar- innar sem í eiga sæti þjóð- arleiðtogar og sérfræðingar á sviði félags- og vinnumála sem hafa unnið úr skýrslum frá ráðstefnum sem haldnar hafa verið í aðildarríkjum ILO í tilefni aldarafmælisins. Kynnt verður áfangaskýrsla úr rannsókn Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíð vinnumála og breytingar á vinnumarkaði (Future of Work) sem unnin er af rannsóknarstofnuninni Fafo í Noregi. Sérstök áhersla verð- ur einnig lögð á umræður um stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum. For- stjóri Alþjóðavinnumálastofnunar- innar, Guy Ryder, flytur erindi á ráðstefnunni og enn fremur hefur nokkrum alþjóðasamtökum verið boðið að senda fulltrúa til að taka þátt. Þeim sem vilja kynna sér nán- ar viðfangsefni ráðstefnunnar er bent á netsíðuna: ilo2019.is Eftir Ásmund Einar Daðason » Frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur erlent samstarf stjórn- valda á sviði félags- og vinnumála vaxið. Þar vegur þyngst þátttaka í samstarfi Norðurland- anna og samvinna við aðildarríki Evrópuráðs. Ásmundur Einar Daðason Höfundur er félags- og barnamálaráðherra. Aldarafmæli Alþjóðavinnumála- stofnunarinnar fagnað í Reykjavík Íslenska þjóðarbúið stendur frammi fyrir áskorunum um þessar mundir í tengslum við stöðu efnahagsmála. Engu að síður er staða ríkissjóðs sterk og viðnámsþróttur þjóðarbús- ins meiri en oft áður. Mikilvægt er því að halda áfram uppbygg- ingu íslenska menntakerfisins. Fimm ára fjármálaáætlun 2020- 2024 ber þess merki að við ætl- um að halda áfram að sækja fram af krafti og efla menntun á öllum skólastigum. Það á einnig við um vísindi, menningu og fjölmiðla í land- inu. Á menningarsviðinu er horft til þess að allir landsmenn, óháð efnahag og búsetu, geti aukið lífsgæði sín með því að njóta og taka þátt í öflugu og fjölbreyttu menningar, lista-, íþrótta- og æskulýðsstarfi. Framlög til háskóla yfir 40 milljarða kr. Undanfarin ár hafa framlög til há- skólastigsins verið aukin töluvert en frá árinu 2017 hafa framlögin aukist um tæpa 5,3 millj- arða kr. eða tæp 13%. Samkvæmt fjár- málaáætlun verður haldið áfram að fjárfesta í háskólastarfi í landinu og er ráðgert að fram- lög til háskólanna fari yfir 40 milljarða kr. árið 2023. Við ætlum að auka gæði náms og náms- umhverfis í íslenskum háskólum, styrkja um- gjörð rannsóknarstarfs og auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknarstofnana við at- vinnulífið. Fjárfesting í háskólunum er lyk- ilþáttur í að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og til að við getum sem best tekist á við þær samfélagslegu áskoranir sem örar tæknibreytingar hafa á heiminn. Kennarastarfið er mikilvægast Stærsta áskorun íslensks menntakerfis er yfirvofandi kennaraskortur. Það er eindregin skoðun mín að kennarastarfið sé mikilvæg- asta starf samfélagsins þar sem það leggur grunninn að öllum öðrum störfum. Í fjár- málaáætlun ríkisstjórnarinnar er að finna fullfjármagnaðar aðgerðir til þess að fjölga kennurum. Gott menntakerfi verður ekki til án góðra kennara. Kennarar eru undirstaða menntakerfisins og drifkraftar jákvæðra breytinga í skólastarfi. Ég er sannfærð um að okkur takist að snúa vörn í sókn með þessum aðgerðum og fleir- um til og fjölga þannig kenn- urum í íslensku menntakerfi til framtíðar. Nýtt námsstyrkjakerfi Vinna við heildarendurskoðun námslánakerfisins gengur vel og hef ég boðað að frumvarp um endurskoðun á Lánasjóði ís- lenskra námsmanna verði lagt fram í haust. Markmiðið með nýju kerfi er aukið jafnrétti til náms og skilvirkni, jafnari styrk- ir til námsmanna, betri nýting opinbers fjár og aukinn stuðningur við fjöl- skyldufólk. Talsverð breyting hefur orðið á stöðu Lánasjóðsins undanfarin ár sem end- urspeglast fyrst og fremst í fækkun lánþega hjá sjóðum. Skólaárið 2009-10 voru lánþegar hjá sjóðnum um 14.600 en skólaárið 2017-18 voru þeir um 7.000. Það er fækkun um 52%. Samhliða fækkun undanfarin ár hafa framlög ríkisins ekki minnkað og ber handbært fé sjóðsins þess glögglega merki. Árið 2013 nam það um einum milljarði kr. En í lok árs 2018 er áætlað að það nemi rúmum 13 milljörðum kr. Staða sjóðsins er því mjög sterk og skapar hún kjöraðstæður til að ráðast í kerfisbreyt- ingar sem bæta kjör námsmanna. Nýtt styrkja- og námslánakerfi er að fullu fjár- magnað en að auki verða framlög til sjóðsins endurskoðuð árlega miðað við fjölda lánþega hverju sinni. Lánasjóðurinn er eitt mikilvæg- asta jöfnunartæki sem við eigum og það er mikilvægt að búa þannig um hnútanna að svo verði áfram raunin. Fjölgum starfs- og tæknimenntuðum Á síðustu árum hafa framlög til framhalds- skólastigsins einnig hækkað verulega. Þannig hafa framlög til framhaldsskólastigins farið úr rúmum 30 milljörðum kr. árið 2017 og í rúm- lega 35 milljarða í ár. Þetta jafngildir um 16% hækkun. Þessi hækkun mun halda sér sam- kvæmt nýkynntri fjármálaáætlun en fjár- heimildir munu halda sér þrátt fyrir fækkun nemenda í kjölfar styttingar náms til stúd- entsprófs. Hækkunin gerir framhaldsskólum m.a. kleift að bæta námsframboð, efla stoð- þjónustu sína og endurnýja búnað og kennslu- tæki. Helstu markmið okkar á framhalds- skólastiginu eru að hækka hlutfall nemenda sem ljúka starfs- og tækninámi, fjölga nem- endum sem útskrifast á framhaldsskólastig- inu og að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu bók- og starfsnámi. Íslenskan í öndvegi og barnamenning Við ætlum að halda áfram að styðja við menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og fjölmiðlun í landinu. Við höfum verið að hækka framlög til menningarmála síðan 2017 þegar þau námu um 12 milljörðum króna. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að þau verði að meðaltali um 15 milljarðar árlega. Við setjum íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum sem snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öll- um sviðum samfélagsins. Í stjórnarsáttmál- anum er kveðið á um að bæta rekstr- arumhverfi bókaútgefenda, skapandi greina og fjölmiðla. Til að fylgja því eftir gerum við ráð fyrir árlegum stuðningi sem nemur 400 milljónum kr. við útgáfu bóka á íslensku, 400 milljónum kr. vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla og 100 milljónum kr. til nýs Barnamenningarsjóðs Íslands. Lögð er áhersla á að bæta aðgengi að menningu og listum, ekki síst fyrir börn og ungmenni, efla verndun á menningararfi þjóð- arinnar, rannsóknir og skráningu. Einnig verður lögð áhersla á að bæta umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþrótta- og æskulýðs- starfi. Til skoðunar er sá möguleiki að setja á stofn barna- og vísindasafn til að efla og styrkja áhuga ungu kynslóðarinnar á menn- ingu, vísindum og tækni. Í fjármálaáætluninni er er horft til fram- tíðar, þ.e. að menntun, menning og vísindi auki lífsgæði fólks í landinu. Við höldum áfram að styðja við íslenskt efnahagslíf með því að fjárfesta í slíkum grunnstoðum og bæta þannig lífskjörin í landinu. Menntun eflir viðnámsþrótt Eftir Lilju Alfreðsdóttur Lilja Dögg Alfreðsdóttir » Í fjármálaáætluninni er horft til framtíðar, þ.e. að menntun, menning og vísindi auki lífsgæði fólks í landinu. Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.