Dagblaðið Vísir - DV - 12.04.2019, Qupperneq 26
Páskafjör 12. apríl 2019KYNNINGARBLAÐ
Stórskemmtileg og fjölbreytt
páskadagskrá í Fjallabyggð
F jallabyggð iðar að lífi, fólki, tónlist og menningu alla páskana. Það verður nóg að
gera fyrir heimamenn og alla þá
sem ætla að skella sér í frí norður.
Hér er ævinlega tekið vel á móti
öllum enda eru menn hér almennt
gestrisnir fram úr hófi,“ segir Linda
Lea Bogadóttir, markaðs- og
menningarfulltrúi Fjallabyggðar.
Sveitarfélagið Fjallabyggð varð
til við sameiningu Ólafsfjarðar og
Siglufjarðar árið 2006. Fjallabyggð
býr að stórbrotinni náttúrufegurð
í „faðmi fjalla blárra“, eins og
skáldið sagði, þar sem möguleikar
á sviði útivistar og tómstunda
eru hreint óþrjótandi. Náttúran er
ávallt innan seilingar, hvort heldur
haldið er í gönguferðir, farið á skíði,
veitt í vötnum, ám eða sjó. Einnig
er þar fjölbreytt menningarlíf og
upplífgandi andrúmsloft og þar
búa um 2.100 manns.
Páskadagskráin hefst strax
föstudaginn 12. apríl með Sigló
Freeride-keppninni í Skarðinu á
Siglufirði, leiksýningu og tónleikum
KK & föruneytis á Kaffi Rauðku.
Dagana 12. og 13. apríl verða
100 ár liðin frá mannskæðustu
snjóflóðum í Hvanneyrarhreppi
og verður atburðanna
minnst með göngu á vegum
Síldarminjasafnsins að Evanger
verksmiðjunni og einnig verður
helgistund í Siglufjarðarkirkju og í
Héðinsfirði. Veitingastaðir, gallerí
og söfn á Siglufirði og Ólafsfirði
bjóða líka upp á góða dagskrá alla
páskana.
Skíðaðu út alla páskana
Í Fjallabyggð og nágrenni er
nægur snjór í fjöllunum og alls
staðar hægt að finna tækifæri
og aðstöðu til útiveru. Á veturna
er staðurinn skíðaparadís og
draumur útivistarmannsins. Fjöllin í
kringum Fjallabyggð tilheyra hinum
tilkomumikla Tröllaskaga sem er
án alls efa besta fjallaskíðasvæði
landsins, með sín háu fjöll og mikla
snjó.
Bæði skíðasvæðin verða
opin alla daga með endalaust
páskafjör í brekkunum fyrir alla
fjölskylduna. Í Skarðinu á Siglufirði
verður leikjabraut, ævintýraleið,
bobb-braut, hólabrautir, pallar,
páskaeggjamót, lifandi tónlist og
grill svo eitthvað sé nefnt. Einnig
verður lögð þriggja kílómetra
göngubraut á Hólssvæði. Það
sama má segja um skíðasvæðið
Tindaöxl, en þar verður opið alla
páskana. Bárubrautin verður
troðin og mikil tónlist og stemning
verður í fjallinu. Upplýsingar um
skíðasvæðin má finna á vefsíðum
þeirra, skardsdalur.is og skiol.
fjallabyggd.is.
Menning og listir
Fyrir þá sem fýsir í menningu
og listir verður úr nægu að
velja, en þar má helst nefna að
Alþýðuhúsið á Siglufirði verður
með tónleika og listasýningu í
Kompunni. Vinnustofa Abbýar
verður sömuleiðis opin. Listasýning
verður í Listhús Gallerí á Ólafsfirði.
Í Ljóðasetrinu á Siglufirði
verður ljósmyndasölusýning
Ljósmyndaklúbbs Fjallabyggðar,
lestur Passíusálma og margt fleira.
Leikfélag Fjallabyggðar er þessa
dagana að sýna í Tjarnarborg í
Ólafsfirði gamanleikritið Bót og
betrun og verður m.a. sýning á
skírdag. Segull67 Brugghús verður
með kynningu og smökkun. Apres
Ski verður á Sigló hótel alla dagana
og á Kaffi Rauðku verða Stebbi og
Eyfi með tónleika á laugardeginum
fyrir páska. Nú og svo verður boðið
upp á lifandi tónlist á Torginu og að
sjálfsögðu allir veitingastaðir opnir.
Ekki má svo gleyma helgistundum
í kirkjunum, bæði á Siglufirði og í
Ólafsfirði.
Það er því af nógu að taka
í Fjalllabyggð á páskahelginni
og er um að gera að skella sér í
heimsókn. Í Ólafsfirði og á Siglufirði
er fjöldi góðra gistimöguleika þar
sem hægt er að gera vel við sig
og eiga saman notalegar stundir í
fallegu umhverfi. „Hér eru líka ótal
veitingahús þar sem bragða má
ljúfmeti af sjó og landi,“ segir Linda.
Það er um að gera að skella sér í
Páskaferðalag til Fjallabyggðar og
upplifa þar afslappað andrúmsloft,
ósnortna náttúrufegurð og skapa
sér þar saman ógleymanlegar
minningar.
Öll páskadagskráin sem og
nánari upplýsingar um gististaði,
útivistarfyrirtæki, söfn og fleira
má nálgast á og í gegnum vefsíður
Fjallabyggðar; fjallabyggd.is,
visittrollaskagi.is og á Facebook:
Fjallabyggð. n
Mynd: Jón Steinar Ragnarsson.
Mynd: Hrólfur.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Síldarminjasafnið á Siglufirði.
Mynd: Hrólfur.