Morgunblaðið - 15.08.2019, Síða 47

Morgunblaðið - 15.08.2019, Síða 47
MINNINGAR 47 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. ÁGÚST 2019 og söknum sárt. Við eigum svo margt sameiginlegt; náttúruna, félagsheimilið, flugið og fólkið. Við höfum alltaf nóg að spjalla um og alltaf tilefni til að hittast. Fimmfundir, þorrablót, flug- hátíð, framkvæmdir utandyra sem innan. Þau eru ófá smiðs- höggin sem Sigurvin átti og naut hann sín í þessu umhverfi rétt eins og við. Fallegur og vandaður til orðs og æðis er Sigurvini best lýst. Elsku Svanhildur, Jón Þór, Berglind Ólöf, Kristín Björg, tengdabörn, barnabörn og for- eldrar Sigurvins, Ólöf og Bjarni, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð, við misstum mikið þenn- an örlagaríka dag. Við í Höfðalæk viljum þakka viðbragðsaðilum sem komu á Haukadalsmela og hlúðu að okk- ur af fagmennsku, nærgætni og samúð. Gestum okkar á flughátíðinni þökkum við hlý faðmlög, falleg orð og hvatningu, mikið er gott að eiga ykkur að. Blessuð sé minning þín Sigur- vin, hafðu þökk fyrir allt og allt. F.h. Höfðalækjar, Kristín María Magnúsdóttir, Tómas Dagur Helgason, Sigrún Sigurðardóttir, Karl Gunnlaugsson, Reidar Kolsöe. Þegar hörmulegar fréttir ber- ast þá setur mann hljóðan, góður drengur er fallinn frá. Ég hef ekki kynnst mörgum á lífsleiðinni sem hafa í jafnríkum mæli þá eig- inleika til að bera sem Sigurvin hafði. Jákvæðni, hjálpsemi, bros- mildi og einstakt jafnaðargeð, hann nálgaðist öll verkefni með sama hugarfari og alltaf stutt í hláturinn, hann var maður lausna en ekki vandamála. Sigurvin var mjög farsæll í starfi og vegna eiginleika sinna og fagmennsku var hann valinn af Icelandair í ýmis trúnaðar- störf. Hann var frábær fagmað- ur, einstaklega laginn kennari sem náði til nemenda sinna með sinni yfirveguðu og jákvæðu framkomu og starfaði einnig lengi sem prófdómari sem er mjög krefjandi starf en hann leysti það einstaklega vel af hendi. Mér er það sérstaklega minn- isstætt þegar ég kom eitt sinn úr nokkurra daga gönguferð um há- lendið, orðinn þreyttur á þurr- matnum, ég kom niður þar sem akvegur hafði endað. Ég mætti fljótlega bíl og maður rekur höf- uðið út um glugga, ég þekkti strax hláturinn, Sigurvin var þar á ferð með fjölskyldunni. Sigur- vin og Svanhildur slógu upp veislu á staðnum sem ég kunni mjög vel að meta. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar, megi góðar minn- ingar um góðan dreng hjálpa ykkur gegnum erfiða tíma. Minn- ing Sigurvins mun lifa í hjörtum okkar. Hilmar B. Baldursson. Á einu örstuttu augnabliki breytist gleði í sorg. Bros á vör og hlátur hverfur og allt er hljótt en svo byrja tárin að renna og skelfingin nær yfirtökunum. Hvað gerðist? Þetta getur ekki verið satt, þetta má ekki vera satt. Hann birtist tveimur dögum fyrir flughátíðina, hafði lagt sig aðeins eftir að vinna um nóttina, mættur með bros á vör eins og alltaf, hlýtt faðmlag ávallt í boði, og spurði „hvað á ég að gera, hvað er eftir“? Svo var hann rok- inn af stað að sækja verkfæri og það sem þurfti í verkefnin sem fyrir höndum lágu, kom aftur, eins og hvítur stormsveipur, og hófst handa. Alltaf tilbúinn að leggja hönd á plóginn, alltaf já- kvæður og alltaf til í að leysa mál- in. Einstaklega góður vinur. Flughátíðina átti að halda í 30. sinn og hann ætlaði að vera með, öll fjölskyldan var með, í fyrsta sinn öll saman í sumarbústaðn- um. Hann var snöggur að ljúka þeim verkefnum sem hann sá að þurfti að vinna, ekki hangsað neitt, það var ekki hans vani. Hann var einnig fljótur til þegar flugvél hlekktist á skömmu síðar, hljóp af stað til að huga að flug- manninum og aðstoða hann við að komast út úr vélinni, yfirvegaður og rólegur, það var eitt af ein- kennum hans í vinnunni. Við elskuðum hann öll. Flughátíðardagurinn rann upp, veðurspáin hafði verið leið- inleg fyrir þennan dag, spáð roki og rigningu, en allt í einu var sól- in farin að skína á ný og mjög hlýtt, útlit var fyrir dásamlegan og skemmtilegan dag. Þetta yrði með skemmtilegri flughátíðum. Kvöldið átti að vera hápunktur- inn, flugskýlinu hafði verið breytt í veislusal og þar ætluðum við að borða saman, á annað hundrað manns, allir voru glaðir og fullir tilhlökkunar. Flugvélar voru dregnar út úr flugskýlinu og sett- ar í gang, flognir nokkrir hringir að gamni en síðan átti að fara í flug með börn, svokallað hveiti- pokaflug, þar sem börn hentu út pokum og áttu að hitta í mark á jörðu niðri, það var alltaf spenn- ingur hjá börnunum að fá að fara með. Sigurvin ætlaði að fljúga einn hring áður og svo átti fjörið að byrja. Það er alltaf gaman að fylgjast með flugvélunum, marg- ir voru að fylgjast með, og svo... breyttist hátíðin í martröð. Við stöndum hnípin eftir og skiljum ekki hvað gerðist. Já, við elskuðum hann öll, hann var einstakur, besti félagi sem hægt er að hugsa sér. Við syrgjum hann sárt. Við munum aldrei gleyma Sigurvini, hann verður alltaf ofarlega í hugum okkar. Við hugsum til Svanhildar, eig- inkonu hans, og fjölskyldu þeirra. Elsku fjölskylda, hjarta okkar grætur með ykkur, við skiljum hve sár missir ykkar er. Megi Guð vera með ykkur og styrkja ykkur í sorginni. Fyrir hönd vina Sigurvins á Haukadalsmel, Greta Önundar. Við vorum horfa á sólarlagið á Krít þegar símtalið kom um að okkar ástkæri vinur Sigurvin væri dáinn. Sólin hvarf sjónum okkar, umhverfishljóðin þögn- uðu, fuglarnir sungu ekki lengur og við blinduðumst af sorg og vanmætti. Við trúðum ekki að þetta væri raunveruleikinn, að hann væri svona ískaldur. Lífið verður ekki samt aftur, þau lífs- gæði sem við fengum að njóta að eiga Sigurvin fyrir vin eru ólýs- anleg. Vinátta er ekki sjálfsögð og við ræddum það oft hvað við værum lánsöm að eiga þessa vin- áttu saman. Traust faðmlagið, einlægur áhugi og umhyggja fyr- ir okkur og fjölskyldum okkar, hjálpsemin, glaðværðin, spjallið, vangavelturnar, framtíðar- draumarnir, ferðalögin innan- lands og utan, hláturinn, sprellið og blístrið hans. Sigurvin og Svanhildur órjúfanleg heild, nefndum aldrei annað á nafn án þess að nefna hitt, samheldni þeirra, einlægt samband og vin- átta var svo falleg. Stuðningur þeirra hvort við annað og sameiginleg ákvarðanataka sem bar vott um þá virðingu sem þau báru hvort fyrir öðru. Þau hlógu mikið saman því þau nutu svo vel samveru hvort annars, ljómuðu og voru svo ástfangin. Þær eru ófáar ferðirnar sem fjölskyldur okkar hafa farið sam- an í sumarbústaði, tjaldútilegur og til útlanda. Við höfum líka not- ið samveru í afmælisveislum og stórviðburðum í lífinu. Eftir því sem fjölskyldurnar hafa stækkað hefur ferðum fækkað en vænt- umþykjan og vináttan er til stað- ar. Árviss hittingur allra hefur sömuleiðis verið dýrmætur og alltaf tilhlökkunarefni. Minningarnar hrannast upp og verða svo ljóslifandi og dýr- mætar. Minning Sigurvins lifir með okkur og ekki síst í börnum hans og barnabörnum þar sem bros hans og glettni kemur svo glöggt fram og í traustu faðmlagi þeirra og hlýju. Elsku Svanhildur, Jón Þór, Guðrún, Berglind, Jón Ómar, Kristín Björg, Ívar Elí og afa- börn. Missir ykkar er meiri en orð fá lýst og enginn mannlegur máttur getur veitt ykkur þá huggun sem þið þarfnist. „Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar“ Sálmur 121:2 Verum minnug hugrekkis Sig- urvins og umhyggju fyrir öðrum sem hann miðlaði svo ríkulega. Megi Guð umvefja ykkur og styrkja í ykkar miklu sorg og minningar um Sigurvin verða ljós í lífi ykkar og þau leiðarljós sem hann hafði. Stefanía (Debbý) og Einar. Sumir eru sendir inn í þennan heim bara til að gera hann betri. Hver sendir veit ég ei, en þeg- ar þessir „sumir“ verða á vegi manns, þá veit maður það. Að sá hinn sami hefur eitthvað einstakt til að bera, eitthvað annað en við hin. Hvernig við skilgreinum það er svo annað mál, en við erum snortin á einhvern hátt, skynjum einhverja gæsku, einhverja mildi, eitthvert æðruleysi sem við ósjálfrátt berum virðingu fyrir og löðumst að. Þannig fólk verður ekki á vegi manns á hverjum degi, langt frá því, kannski á heilli mannsævi er- um við svo heppin að hitta einn sem býr yfir svo mikilli hlýju og elsku og mennsku að við heill- umst af viðkomandi fölskvalaust. Þar gætir hvorki öfundar né sam- keppni, bara þessarar einstöku upplifunar að hafa hitt mann- eskju sem er betri en flestir. Þannig manneskju hitti ég á mínu öðru sumri í bragganum á Innanlandsfluginu, árið 1978. Sá var Sigurvin Bjarnason. Annan eins öðling hafði ég aldrei áður fyrir hitt. Hann geislaði af já- kvæðni, heiðarleika, gæsku og mannkærleik. Rétt rúmlega tví- tugur hafði hann fundið sinn far- veg í lífinu, bundist henni Svan- hildi sinni og hafið flugnám. Hann vissi frá byrjun hvert hann stefndi. Tímarnir á innanlandsfluginu voru einstakir. Þar skiptust á tvær vaktir, tvær litlar „fjöl- skyldur“ starfsmanna sem önd- uðu og unnu í takt. Nándin og samheldnin var mikil, öll vorum við ung og áhugasöm um lífið og flugið og litum á okkur sem ómissandi hlekk í tengslum borgarinnar við landsbyggðina. Félagið okkar, Flugleiðir, átti í okkur hvert bein og ekkert verkefni var okkur of- viða. Saman leystum við öll mál, stór og smá. Síðar lágu leiðir okkar Sigur- vins saman í háloftunum, hann í flugstjórnarklefanum og ég í far- þegarýminu, við enduðum bæði þar sem við vildum vera – í há- loftunum. Að þessi öðlingur sé nú fallinn frá er algerlega fjarstæðukennt. Hann af öllum mönnum. Hann, sem átti góðu árin fram undan með fjölskyldunni sem var hon- um allt. Ég fékk fréttirnar af andláti hans samdægurs þegar ég var stödd í bragganum okkar gamla og beið eftir útkalli í flugið mitt til Ísafjarðar. Þarna á gamla vinnu- staðnum okkar, til margra ára. Þar sem við bæði byggðum drauma okkar um farsæld í flug- inu. Megi minningin um þennan dásemdardreng verða fjölskyldu hans styrkur í sorginni. Sigurlaug Halldórsdóttir (Dillý).  Fleiri minningargreinar um Sigurvin Bjarnason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Sólveig GuðrúnEysteinsdóttir fæddist í Esbjerg í Danmörku 28. ágúst 1933. Hún lést á Vífilsstöðum 4. ágúst 2019. Foreldrar henn- ar voru Eysteinn Austmann Jóhann- esson, f. 24. septem- ber 1902, d. 17. júlí 1963, og Ella Krist- ine Jóhannesson, fædd Sörensen, f. 19. mars 1903, d. 7. desember 1990. Sólveig bjó fyrstu æviár sín í Danmörku en flutti ásamt for- eldrum sínum til Íslands 14 ára gömul. Sólveig lærði kjólasaum í Iðn- skólanum í Reykjavík og útskrif- aðist þaðan í apríl 1952. Hún var á samning hjá Jó- hönnu Henný Ottós- son kjólameistara, lauk sveinsprófi 1953 og hlaut síðar meistararéttindi. Alla sína starfs- ævi vann hún við fag sitt auk þess að sinna stjórnun, m.a. á Prjónastofunni Eygló, saumastof- unni Dúk, hönn- unardeild Álafoss, saumastof- unni Fislétt og 66°N. Sólveig flutti í Sólheima 23 þegar húsið var byggt og bjó þar allt til dauðadags, í hartnær 60 ár. Útför Sólveigar verður gerð frá Bústaðakirkju í dag, 15. ágúst 2019, og hefst athöfnin klukkan 13. Gæfan er mér hliðholl, og það var hún svo sannarlega þegar ég einn góðviðrisdag fyrir margt löngu var á göngu niður Njálsgötuna og sá þar nýja litla búð þar sem sauma- skapur var auglýstur. Úr gluggan- um veifuðu mér tvær ungar konur sem ég þekkti, Ólafía Tómasdóttir og Vera Siemsen. Þessar ungu myndarlegu konur voru að bjóða upp á föt fyrir verðandi mæður. Á þessum tíma þótti ekki smart að vera í fötum sem þrengdu að ört stækkandi bumbubúanum og úrval- ið hér heima var ekki mikið. Í spjalli okkar kom fram að ég væri oft að leita að fötum fyrir móður mína sem hafði fengið heilablóðfall og sat í hjólastól. Mamma notaði stærð 38 svo ekki var það vandamálið en hún var með ákveðnar sérþarfir tengd- ar sínum lamaða fæti. Þær stöllur sögðust geta leyst það vandamál, þær væru í samstarfi við konu sem hannaði einnig fyrir 66 °N, og hún gæti leyst allan vanda. Þannig hóf- ust kynni mín og fjölskyldu minnar af öðlingnum Sólveigu Eysteins- dóttur kjólameistara. Við mamma grínuðumst oft með það hversu sér- stök hún væri, „léti bara sauma á sig í búð er seldi föt fyrir verðandi mæður“, en slíkt hæfði auðvitað gömlu ljósmóðurinni. Sólveig varð heimilisvinur og saumaði dressin á mömmu og kjólana á tengda- mömmu í áraraðir, löngu eftir að litla búðin hætti. Faðir Sólveigar var danskur og hún hélt mikið upp á allt er tengdist Danmörku. Dóttir mín og hennar fjölskylda býr í Kaupmannahöfn, oft fór ég til Sól- veigar eftir ferðir þangað út og sagði fréttir úr Danaveldi. Hún fylgdist einnig mjög vel með í gegn- um danska sjónvarpið. Sólveig var góð vinkona, sáði gleði og gæsku hvar sem hún fór á lífsins vegi. Skemmtileg var hún, víðsýn og fróðleiksfús, alltaf varð maður glað- ari í hjartanu eftir að eiga við hana spjall á hennar fallega heimili. Fag- mennska í faginu var Sólveigu í blóð borin og það sem hún gat gert með höndunum sínum. Jafnvel eftir að sjóninni var farið að hraka. Hver morgun nýr, hugvekjur Jónasar heitins Gíslasonar vígslu- biskups í Skálholti er einstök bók. Þar tekur hann fyrir alla helgidaga ársins með skírskotun kristinnar trúar til nútímans. Ein fjallar um hvort nafn þitt sé skráð í Lífsins bók. Mikið held ég vér yrðum undrandi, ef vér flettum Lífsins bók, er geymir nöfn þeirra sem lofsyngja lambinu í hvítklæddum skaranum á himnum. Þar ber lítið á mörgum þeim valdsmönnum veraldar er skreyta spjöld sögunnar. Meir á nöfnum þeirra, er fáir tóku eftir hversdagslega þeir þjónuðu Guði í kyrrþey og vöktu sjaldan athygli fjöldans. Sólveig varpaði ljósi á veg vina sinna og hefur fengið nafn sitt skráð í Lífsins bók. Hún er farin til Guðs og hefur sagt við Lykla-Pét- ur: Ljúktu upp fyrir mér. Mér er boðið í himin Guðs. Og Pétur hefur lokið upp, því himnaríki er fyrir boðsgesti Jesú Krists og Sólveig var einn af þeim. Þakka vináttu og tryggð liðinna áratuga. Guð blessi minningu einstakrar konu. Sigþrúður Ingimundardóttir. Árið 1996 fluttum við hjónin í okkar fyrstu íbúð í Sólheimum 23. Það var mikil lukka að Sólveig bjó við hliðina á okkur og höfum við verið í sambandi ætíð síðan eða í 23 ár þó svo það séu 20 ár síðan við fluttum þaðan. Sólveig var skvísa, hún var hávaxin, alltaf með rosa- lega flottar lakkaðar neglur, stóra og flotta hringa og flott til fara. Hún átti fallegt heimili og var snillingur með alla handavinnu hvort sem það var að sauma, prjóna eða sauma út og höfum við fjölskyldan fengið að njóta þess. Ég heimsótti Sólveigu á Landspít- alann þegar hún veiktist og ætlaði aðeins að kíkja á hana en allt í einu voru liðnir tveir klukkutímar því það var auðvelt að gleyma sér í spjalli við hana. Það verður tóm- legt í árlega aðventukaffinu okkar þar sem hennar verður sárlega saknað. Takk fyrir allt, elsku Sólveig okkar, það eru forréttindi að eiga svona góða og trausta nágranna og vini. Aðstandendum hennar og vinum sendum við samúðarkveðj- ur. Hanna og Kári. Sólveig er látin og þá hrannast upp minningar. Kvöldganga á Laugarvatni síð- sumars í kyrrð og angan. Gengið inn að tjaldstæði með karamellur í farteskinu. Sending af dönskum blöðum komin í hús, nokkurra vikna birgð- ir í einu lagi. Þá var lagst í lestur. Eitt sinn var Sólveig með lampa í fanginu sem var bilaður. Málið var skoðað. Klóin skrúfuð í sundur og í ljós komu lausir vírar. Þeir voru snyrtir og klóin sett saman og lampinn kominn í lag. Hún var ráðagóð, hikaði ekki við að kanna leiðir til að lagfæra. Þegar komið var í heimsókn var búið að dekka borð. Á borðinu var bróderaður dúkur skjannahvítur og stífstraujaður, danskt postulín, silfurborðbúnaður og heimagert bakkelsi og jafnvel nýlagað marm- elaði. Það var boðið upp á te eða kaffi þegar sest var að borðum og þá tók við spjall um heima og geima. Góður gestgjafi. Sólveig var áhugasöm um menn og málefni og vissi margt og mikið. Hún var einstaklega handlagin. Hún var snillingur á saumavélina, prjónaði og saumaði út. Vandvirk og handbragðið einstakt. Þegar leið á ævina fór sjónin að bila. Hljóðbækur voru nýttar og hlustað var á danska sjónvarpið. Og árin færðust yfir. Nú er komið að leiðarlokum. Takk fyrir samfylgdina. Valgerður. Sólveig G. Eysteinsdóttir Ástkær faðir okkar, tengdafaðir og afi, SÆVAR SIGBJARNARSON, fyrrverandi bóndi og oddviti frá Rauðholti lést laugardaginn 10. ágúst. Útför hans fer fram frá Egilsstaðakirkju laugardaginn 24. ágúst klukkan 11. Fjölskyldan þakkar alla umönnun og umhyggju frá samferðafólki og starfsfólki Dyngju, Uppsala, Hlymsdala, heimaþjónustu og HSA. Þeim sem vilja minnast hans er bent á þessar stofnanir og/eða hollvinasamtök þeirra. Líneik Anna Sævarsdóttir Magnús Björn Ásgrímsson Hafliði Sævarsson Guðný Gréta Eyþórsdóttir Helga Sævarsdóttir Ásgeir Sveinsson Sigbjörn Óli Sævarsson Þórunn Ósk Benediktsdóttir Sindri Baldur Sævarsson Diana Carolina Ruiz barnabörn og barnabarnabörn Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, VALGARÐ BRIEM hæstaréttarlögmaður, sem lést 31. júlí, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni miðvikudaginn 21. ágúst klukkan 13. Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir, þeim sem vilja minnast hans er bent á Líknarsjóð Þórsteins st. nr. 5 Oddfellow á Íslandi, reiknnr. 516-4-761347, kt. 660893-2969. Benta Briem Ólafur Jón Briem Sóley Jóhannsdóttir Garðar Briem Elín Magnúsdóttir Gunnlaugur Briem Hanna Björg Marteinsdóttir barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.