Morgunblaðið - 15.08.2019, Síða 49
MINNINGAR 49
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. ÁGÚST 2019
✝ Erlingur PállBergþórsson
fæddist 15. janúar
1975 í Reykjavík.
Hann lést 29. júlí
2019, aðeins 44 ára
gamall.
Foreldrar hans
eru Karitas
Erlingsdóttir, f.
1949, og Bergþór
Bergþórsson, f.
1950, búsett í Hafn-
arfirði. Systkini Erlings Páls
eru Valgeir Helgi, f. 1982, og
Hildur Jóna, f. 1977, gift Hákoni
Inga Jörundssyni, f. 1975, og
saman eiga þau tvo syni, Jörund
Þór, f. 2009, og Sverri Þór, f.
2010.
Erlingur Páll útskrifaðist
með stúdentspróf
frá Fjölbrauta-
skólanum í Garða-
bæ, var mikill
handverksmaður
og sótti félagsstarf
Karla í skúrum sín
síðustu ár. Erlingur
Páll hafði mikinn
áhuga á fótbolta og
æfði fótbolta hjá
Víkingi og FH.
Hann var einnig
mikill stuðningsmaður Man-
chester United. Alla ævi barðist
Erlingur Páll við flogaveiki á
háu stigi. Hann bjó í foreldra-
húsum alla sína ævi.
Útför Erlings Páls fer fram
frá Víðistaðakirkju í dag, 15.
ágúst 2019, klukkan 13.
Elsku Elli okkar. Nú hefur þú
fengið hvíld eftir að hafa háð
hetjulega baráttu alla þína tíð
við veikindi sem mörkuðu líf þitt
frá barnæsku. Þú ert laus undan
þeirri áþján og ert umvafinn
ljósi, kærleika og birtu. Líf þitt
var ekki dans á rósum og oft
reyndi vel á æðruleysi þitt og
umburðarlyndi þegar sjúkdóm-
urinn setti þér skorður. Við
munum ætíð minnast þeirra
yndislegu stunda sem við áttum
með þér. Þessar stundir eru
okkur svo kærar og sefa þá
hryggð sem í brjósti okkar býr
við brotthvarf þitt. Ferðalag-
anna innanlands sem utan mun-
um við minnast með gleði í
hjarta, fótboltaferða til Eng-
lands, heimsókna til ættingja í
Bandaríkjunum eða þegar þú og
pabbi þinn fóruð síðastliðið
haust með körlunum í Skúrnum
í skoðunar- og skemmtiferð til
Írlands. Þar fékkstu meðal ann-
ars að bragða á myntu og sagðir
mömmu þinni að „þetta væri
eitthvað til þess að rækta í bak-
garðinum okkar“. Þarna örlaði
vel á grænum fingrum þínum
því þú hafðir mjög gaman af því
að rækta hvers kyns krydd og
grænmeti. Karlarnir í Skúrnum
reyndust þér miklir félagar og
þú sóttist mikið eftir að mæta í
Skúrinn og stunda hvers kyns
útskurð og eiga spjall. Þá standa
jólahlaðborðin og þorrablótin
með þeim einnig upp úr og mátti
sjá gleðina skína úr augunum á
þér þegar við ræddum um hvað
þið höfðuð fyrir stafni í Skúrn-
um.
Dýravinur varst þú mikill og
við höfum þá trú að hundarnir
okkar, Kolviður og Perla, hafi
tekið vel á móti þér og sitji nú
þér við hlið. Þeir kætast að sjá
þig að nýju.
Ófáar stundirnar áttir þú með
mömmu þinni við eldamennsku
og bakstur. Svo mikinn áhuga
sýndir þú og varst sífellt að
sækja þér efnivið í matargerð-
inni og voru hverskyns miðlar
vel nýttir til að finna uppskriftir
eða horfa á þætti sem tileinkaðir
voru matargerð. Í þessu leið þér
vel og naust fram í fingurgóma.
Mexíkóskur matur var í miklu
uppáhaldi og ekki má gleyma ár-
legu skötuveislunni þar sem
vestfirsk skata var sælgæti í
þínum augum.
Elsku Elli okkar; við kveðjum
þig með orðum mömmu þinnar
og vitum vel í huga okkar að nú
tekur við annað líf sem þú munt
njóta í gleði og kærleika með
ástvinum og hundunum, laus við
veikindin sem hrjáðu þig. Við
elskum þig og biðjum Drottin að
varðveita þig.
Ég bið þig nú Drottinn minn
að líkna í þetta sinn
svo að elsti sonur minn
sættist við sjúkdóm sinn.
Mamma og pabbi.
Aðfaranótt 29. júlí kvaddi Er-
lingur Páll, bróðir minn, þetta
líf. Líf sem var ekki auðvelt, en
hann barðist vel og mikið. Hann
barðist fyrir tilverurétti sínum í
samfélagi sem vildi ekki hann.
Hvers vegna vildi þetta sam-
félag hann ekki, af hverju var
hann útskúfaður? Jú, því hann
var ekki eins og flestir. Frá
barnæsku barðist hann við
flogaveiki á hæsta stigi. Sjúk-
dóm sem þú sérð ekki utan á
manni. Sjúkdóm sem hræðir alla
sem verða vitni að honum í
reynd.
Bróðir minn var með hjarta
úr gulli. Hann vildi öllum vel og
var fyrsti maðurinn til að hlaupa
til ef þess þurfti og ef hann
treysti sér. Hann var því miður
tekinn oft fyrir frekjuhund og
með athyglissýki þegar hann var
í raun bara að berjast fyrir því
að fá að vera metinn sem einn af
okkar samfélagi.
Hann var þó ekki sjúkdómur-
inn. Sjúkdómur sem olli því að
hann var ekki liðinn af því sam-
félagi sem við búum í. Hann var
lagður í einelti í grunnskóla, því
hann var skrýtni strákurinn sem
emjaði þegar köst komu yfir.
Honum var sagt upp vinnu
vegna þess að yfirmaðurinn
hafði enga trú á því að honum
væri treystandi fyrir sinni
vinnu, eða að hann gæti unnið al-
mennilega, því hann var veikur.
Hann heltist úr námi því enginn
vildi gefa færum húsgagnasmið-
snema séns til að sýna hvað
hann hafði til brunns að bera,
svo hann gat ekki lokið náms-
samningi, samt tókst honum að
ljúka stúdentsprófi. Það þrátt
fyrir heilaskurðaðgerðir og
ógrynni lyfja sem börðu hann
enn meira niður. Samt stóð hann
alltaf upp.
Hann var falleg manneskja
með sína galla eins og allir. En
hann hafði kosti umfram marga
sem ég hef séð í þessu lífi, hann
hafði baráttuvilja til að láta vita
af sér, maður sem hafði verið
barinn niður af samfélagi sem
vill ekki þá sem eru öðruvísi.
Maður sem stóð samt alltaf upp,
þó minna með tímanum.
Það er honum að þakka að ég
er þar sem ég er í dag. Það er
honum að þakka hver ég er í
dag. Sú arfleifð sem hann skilur
eftir sig í mínum huga er bar-
áttumaður, maður sem gafst
ekki upp og gaf mikið af sér.
Maður sem reyndi að gera sitt
besta, spila úr þeim spilum sem
honum voru gefin. Hann var
maður sem ég elskaði og elska
enn. Hann var ekki sjúkdómur-
inn sem olli því að fólk sagði að
hann væri dauður fyrir sínum
augum, þó að hann væri enn á
lífi. Hans góða sál og umhyggja
var og verður ekki metin til fjár.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Þangað til ég hitti þig handan
móðunnar veit ég að þú ert í
góðum höndum. Þú ert á stað
þar sem þú ert loksins metinn
rétt. Þú ert mín fyrirmynd um
hvernig á að berjast fyrir því
sem er rétt, og segja heiminum
að hann hafi rangt fyrir sér. Þú
gafst meira til þessa samfélags
en þeirra sem sögubækurnar
skrifa um. Þú varst og ert mín
hetja. Megir þú núna hvíla í friði
og ró, ásamt því að njóta þess
sem þú gast ekki fengið í þessu
lífi.
Þinn bróðir og vinur,
Valgeir Helgi Bergþórsson.
Elli Palli var algjör hetja,
hann var mjög veikur af floga-
veiki. Hann barðist fyrir rétt-
indum sínum og oft var sú bar-
átta erfið en hann gafst aldrei
upp. Nú líður honum vonandi
vel, laus við öll flog og fylgikvilla
þeirra.
Elli Palli var stóri bróðir
minn. Í Ásgarðinum lékum við
okkur mikið við Bústaðakirkju.
Mér fannst mikið sport að fá að
hanga með honum. Við bjuggum
í sama húsi og amma og þar voru
haldin ófá „vídeóspólustríðin“
og keppst við að spila myndbönd
með uppáhaldshljómsveitum
okkar, Duran Duran og Wham.
Einn morgunn þegar mamma
vaknaði þá kom hún inn í stofu
og greip okkur systkinin glóð-
volg við bakstur á stofugólfinu.
Við vorum að baka köku á tepp-
inu í stofunni og spöruðum við
ekki kakó og egg, mömmu til
mikillar ánægju.
Þegar Elli Palli var 9 ára
fluttum við í Stelkshóla þar sem
hann eignaðist marga vini. Hann
var alltaf með hugann við fót-
bolta og spurði mig ítrekað
hvort ég vissi hver skoraði mark
á 9. mínútu í einhverjum leik ár-
ið 1987. Hann átti stundum erf-
itt með að skilja áhugaleysi mitt
á fótbolta. Ef það var ekki leikur
í sjónvarpinu þá horfði hann á
gamlar upptökur. Við fluttum í
Hafnarfjörð árið 1987 en hann
vildi alls ekki flytja úr Breiðholt-
inu enda leið honum mjög vel
þar. Ég man að hann pældi mik-
ið í því hvernig hann gæti
ferðast milli hverfa óséður, hann
íhugaði að hafa bréfpoka á höfð-
inu þegar hann tæki Landleiðir
á milli bæja. Honum fannst við
vera að flytja úr miðju alheims-
ins lengst út í sveit. Stundum
var ég pínu abbó út í hann en ég
skammaðist ítrekað í mömmu
hvað Elli hefði falleg augnhár,
mér fannst það mjög ósann-
gjarnt að hann hefði svona falleg
kolsvört, löng og krulluð augn-
hár.
Í sumar kom hann heim til
okkar og smurði sér brauð með
hnetusmjöri og hangikjöti. Svo
ljómaði hann í framan og sagði
að þetta væri æðislega gott. Nú
borðar eldri sonur minn brauð
eins og Elli frændi kenndi hon-
um. Hann var ótrúlega handlag-
inn og gat gert listaverk úr
gömlum glanstímaritum og trjá-
drumbum. Síðustu jól fékk ég
fallega útskorna skeið frá hon-
um í jólagjöf. Elli Palli var góður
frændi og elskaði litlu frændur
sína mikið. Um síðustu jól fór
hann með þeim í „Just dance“ í
tölvunni þeirra, hlátrasköllin
sem ómuðu um húsið eru ynd-
isleg minning.
Elli Palli bróðir minn var svo
heppinn að kynnast starfi
„Karla í skúrum“ í Hafnarfirði.
Þar leið honum vel.
Ég hitt Ella í síðasta sinn á
afmælisdaginn minn. Eftir
kaffið löbbuðum við út og bróðir
minn gaf mér knús og óskaði
okkur góðrar ferðar í ferðalag-
inu sem var framundan hjá okk-
ur. Ef ég hefði vitað að þetta
væri í síðasta sinn sem ég myndi
hitta hann og fá knús frá honum
þá hefði ég sagt honum að ég
elska hann.
Ég er þakklát fyrir þær góðu
minningar sem ég á með Ella
Palla og síðustu ár höfum við
náð að eiga saman margar gleði-
stundir. Minning hans lifir í
hjörtum okkar allra. Ég elska
þig, elsku stóri bróðir minn. Hvíl
í friði, í ljósinu.
Þín systir
Hildur Jóna Bergþórsdóttir.
Allt eins og blómstrið eina
upp vex á sléttri grund
fagurt með frjóvgun hreina
fyrst um dags morgunstund,
á snöggu augabragði
af skorið verður fljótt,
lit og blöð niður lagði,
líf mannlegt endar skjótt.
(Hallgrímur Pétursson)
Okkur barst sú sorgarfregn
að Erlingur væri látinn langt
fyrir aldur fram.
Við viljum minnast hans með
þessum fátæklegu orðum. Við
áttum góðar samræðustundir. Í
eðli sínu var hann sögumaður.
Hann átti gott með að blanda
geði við aðra og oft stutt í kímni-
gáfuna. Þá var hann vel að sér
um tónlist og kvikmyndir og haf-
sjór af fróðleik í þeim efnum.
Hann var verklaginn og átti auð-
velt með að búa til hluti í hönd-
unum. Við sem kynntumst hon-
um vitum að hann var hjartahlýr
og skemmtilegur. Hann skilur
eftir sig góðar minningar í huga
okkar allra. Hann fékk mikinn
mótbyr í lífinu en gegn þeirri
ógn barðist hann eins og hetja til
síðustu stundar. Megi Guð vera
með honum hvert sem leið hans
liggur.
Við vottum foreldrum hans,
Karitas og Bergþóri, og börnum
þeirra okkar dýpstu samúð.
Kveðja,
Kristbjörg, Berglind,
Gísli og Hjördís.
Með trega í hjarta rita ég ör-
litla kveðju til þín elsku Elli Palli
minn. Þótt lífshlaupið þitt hafi
ekki verið langt þá markaðir þú
dýpri spor í hjarta okkar en orð
fá lýst. Minningar sem aldrei
gleymast.
Líf þitt var sannarlega ekki
dans á rósum og þegar hugsað
er til baka til þeirrar stundar er
við áttuðum okkur á hvaða sjúk-
dóm þú þurftir að berjast við, þá
fyllist maður aðdáun á hvernig
þú reyndir að takast á við lífið.
Já, flogaveikin getur verið
grimmur andstæðingur. Þú
nýttir þau tækifæri til að njóta á
fábreyttan hátt og gerðir ekki
miklar kröfur, heldur tókst á við
þá hluti sem þér voru kærir og
sinntir þeim af alúð. Maður get-
ur svo sannarlega dregið lær-
dóm af því og lært að meta betur
það líf sem manni er gefið.
Strax í barnæsku sýndir þú
mikinn áhuga á íþróttum og
hæfileikar þínir komu vel í ljós á
knattspyrnuvellinum en sjúk-
dómur aftraði frama á þeim
velli. Vinstri fóturinn var ein-
staklega sterkur hjá þér og
minnist ég þess að árið 1987
varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi
að fá að þjálfa þig í 5. flokki Vík-
ings. Þú lagðir mikið á þig og
sýndir ætíð mikinn metnað að
koma úr Breiðholtinu á æfingar.
Hæfileikar þínir nutu sín vel á
knattspyrnuvellinum en um það
leyti fór meira að bera á floga-
veikinni. Námsmaður varstu
góður og þú tókst ákvörðun um
að fara í Fjölbrautaskólann í
Garðabæ. Þú lést aldrei deigan
síga þrátt fyrir að flogaveikin
tæki sinn toll og seinkaði út-
skrift. Þú lést samt ekkert slá
þig út af laginu og náðir af ein-
stakri einurð og metnaði að
ljúka námi með fyrsta flokks
einkunnum. Það sagði meira um
þinn persónuleika en margt ann-
að. Þér var líka margt annað til
lista lagt og fljótt kom í ljós þitt
listræna eðli; mikill hagleiks-
smiður með einstakt lag í hvers
konar útskurði og ekki má
gleyma fallegu og listrænu
klippimyndunum sem þú dund-
aðir þér við af alúð. Í hverri ein-
stakri klippimynd var djúpstæð
saga um þá persónu og lífshlaup
hennar sem myndin átti við. Það
má segja að þegar kom að
íþróttum og áhorfi hafir þú verið
hafsjór af fróðleik um alls kyns
staðreyndir sem þeim viðkom,
sérstaklega knattspyrnu. Marg-
ar stundir fóru í knattspyrnu-
spjall okkar og Begga föður þíns
sem í nýju ljósi gefa mér nú
meira en orð fá lýst. Þú varst
harður Man. Utd.-aðdáandi og
fylgdir föður þínum í þeim efn-
um. Þú fékkst að njóta vel-
gengni þeirra og upplifa góðar
stundir liðsins á knattspyrnu-
vellinum. Við sáum ekki alltaf
hlutina sömu augum þegar kom
að enska boltanum en í rökræð-
um okkar varð þér aldrei hnik-
að. Ef þú hafðir sterka skoðun á
einhverju hefði verið auðveldara
að flytja fjall en færa þig úr stað
með þínar skoðanir eða sann-
færingu. Það var þinn stóri kost-
ur.
Megi góður Guð styrkja for-
eldra þína og systkin í sorg
sinni. Nú tekur afi þinn og nafni
á móti þér og umvefur þig með
öllum sínum kærleika og ég trúi
því að þið munið njóta þess sam-
an að sinna ykkar listrænu hlut-
um sem í ykkur bjuggu og ef-
laust njóta stunda á
íþróttavellinum með Guði og
góðum sálum. Minningin um þig
svo sannarlega lifir.
Páll (Palli) frændi.
Erlingur Páll
Bergþórsson
✝ Pálhanna Þur-íður Magn-
úsdóttir fæddist 16.
febrúar 1928 á Orr-
ustustöðum á
Brunasandi í Vest-
ur-Skaftafellssýslu.
Hún lést 6. ágúst
2019 á Hrafnistu í
Hafnarfirði.
Foreldrar henn-
ar voru Katrín Sig-
urlaug Pálsdóttir,
f. 1890, og Magnús Jón Sigurðs-
son, f. 1866. Systkini hennar,
sem öll eru látin: Páll Jóhann,
Sólveig, Sigurður, Sólgerður,
Þórey, Ingigerður, Guðjón, Sig-
mundur Bergur, Einar Þorfinn-
ur, Sigurrós og Ásdís.
Pálhanna giftist hinn 29. júlí
1950 Sveini Sveinssyni, f. 16.4.
1917 á Ásum í Skaftártungu, d.
19.12. 1990. Hann var sonur
hjónanna Sveins Sveinssonar og
Jóhönnu Margrétar Sigurð-
ardóttur.
Börn Pálhönnu og Sveins eru:
1) Jóhanna Margrét, f. 1951,
maki Böðvar Her-
mannsson, f. 1946,
d. 1999. Börn
þeirra eru Magnús
Jón, maki Brynja,
Herdís Hanna,
maki Orri, og
Ragnar, maki Jóna
Sigríður. Barna-
börn þeirra eru 12
og langömmubörn-
in tvö. 2) Sveinn, f.
1953, maki Súsanna
Ollý, f. 1954, d. 2017. Börn
þeirra eru Sveinn Skafti, f. 1974,
d. 2002, Guðmundur, maki Hild-
ur, og Íris Björk. Barnabörn
þeirra eru tvö. 3) Katrín Sig-
urlaug, f. 1957, maki Rafael, f.
1957, d. 2017. Þau voru barn-
laus.
Pálhanna vann lengi vel við
böðun á Hrafnistu í Reykjavík
og lauk hún sínum starfsferli
sem gangavörður í Fellaskóla í
Breiðholti.
Útför hennar fer fram frá
Fossvogskirkju í dag, 15. ágúst
2019, klukkan 11.
Það urðu kynslóðaskipti þegar
Pálhanna frænka mín lést 6.
ágúst sl. Hún var 10. í röðinni af
12 systkinum, sem fæddust á
Orrustustöðum á Brunasandi
fyrripart síðustu aldar og öll eru
nú látin.
Þetta var samheldinn hópur
sem ólust upp við kröpp kjör, 10
komust til fullorðinsára, en tvö
dóu í æsku.
Pálhanna (alltaf kölluð Palla
frænka) var móðursystir mín og
fyrstu minningar mínar um hana
eru frá Hunkubökkum þegar
hún kom til að hjálpa móður
minni sem var að fæða systur
mína. Það var verið að rýja féð
og marka lömbin í réttinni fyrir
neðan bæinn, ég hafði neitað að
fara heim, það var komið fram á
nótt, og fjögurra ára krakkinn
átti að vera löngu sofnaður.
Hún kom og bar mig öskrandi
og sparkandi heim. En kærleik-
ar tókust fljótt á ný. En svo kom
kærasti í spilið, og þá varð ég að
keppa við Svein um hylli frænku,
ég passaði vel upp á að þau væru
ekkert að knúsast með því að
troðast á milli þeirra. Sveinn
hafði gaman af þessu enda barn-
góður og ljúfur maður, og okkur
varð fljótt til vina.
Þeirra fyrsta heimili var í
Barmahlíð 35, þar fæddust börn-
in þeirra þrjú. Frænka mín
hugsaði um heimilið og börnin
meðan þau voru lítil, einnig
ömmu sem bjó hjá þeim í mörg
ár.
Það var gestkvæmt á heim-
ilinu, allir velkomnir, og heims-
ins bestu veitingar á borðum.
Ég sótti í að dvelja hjá þeim,
og oftast var það auðsótt mál,
þau hýstu mig á skólaárunum í
Kvennó, og alltaf beið eitthvað
gott á borðum þegar ég kom úr
skólanum. Þegar ég átti mitt
fyrsta barn, á Sjúkrahúsinu á
Selfossi, kom hún daginn eftir
með rútu frá Reykjavík til að
heimsækja okkur, og í gegnum
lífið hefur hún verið með í öllum
athöfnum, jafnt gleði og sorg,
alltaf tilbúin að gleðja, gefa og
styrkja.
Þegar börnin stækkuðu fór
hún með vinkonu sinni í síld-
arsöltun á Seyðisfirði, hún salt-
aði hjá Haföldunni í nokkur
sumur meðan síldin var fyrir
austan og þar kom dugnaður og
kapp best í ljós, var með afkasta-
mestu konum á planinu og eft-
irsóttur vinnukraftur.
Einnig ferðaðist hún með Úti-
vist í mörg ár, ásamt vinkonum
sínum, fór í vinnuferðir í Þórs-
mörkina vor og haust og göngu-
ferðir um allt land.
En þegar færnin að halda
heimili minnkaði flutti hún á
hjúkrunardeild Hrafnistu þar
sem hún dvaldi undanfarin ár.
Þar naut hún góðrar umönnunar
starfsfólks, og ekki síst barna
sinna sem heimsóttu hana dag-
lega og sáu um að hún hefði það
alltaf sem best.
Það var sorglegt að sjá hvern-
ig þessi vægðarlausi sjúkdómur
rændi þessa kraftmiklu konu
allri tjáningu og hugsun, en
gleðilegt að loks svífi hún úr
tóminu á fund ástvina sem bíða í
blómabrekkunni.
Elsku Jóhanna, Sveinn, Katr-
ín og fjölskyldur, innilegar sam-
úðarkveðjur.
Yndislega frænka mín, þakka
þér samfylgdina gegnum lífið.
Nú kveðja þig vinir með klökkva og
þrá
því komin er skilnaðarstundin.
Hve indælt það verður þig aftur að sjá
í alsælu og fögnuði himnum á,
er sofnum vér síðasta blundinn.
(Hugrún)
Esther Jakobsdóttir.
Pálhanna Þuríður
Magnúsdóttir