Skessuhorn - 29.04.2015, Qupperneq 28
28 MIÐVIKUDAGUR 29. APRÍL 2015
Jakob Guðmundur Rúnarsson frá
Þverfelli í Lundarreykjadal varði
í síðustu viku doktorsritgerð sína
í heimspeki við Sagnfræði- og
heimspekideild Hugvísindasviðs
Háskóla Íslands. Árið 2007 lauk
hann tvöfaldri B.A. gráðu í heim-
speki og sagnfræði frá sama skóla
og síðan meistaragráðu ári síð-
ar frá háskólanum í Sussex í Eng-
landi árið 2008. Grunnskólaárun-
um varði Jakob hins vegar í Klepp-
járnsreykjaskóla. Hann lauk stúd-
entsprófi frá Fjölbrautaskóla Vest-
urlands á Akranesi 2004. Jakob er
sonur hjónanna Rúnars Hálfdánar-
sonar og Ingu Helgu Björnsdóttur
sem búa á Þverfelli.
Um fyrsta heim-
spekiprófessorinn
Doktorsritgerð Jakobs nefnist
„Einhyggja, þróun og framfarir.
Heimspeki Ágústs H. Bjarnason-
ar.“ Jakob Guðmundur lýsir við-
fangsefni sínu stuttlega: „Ágúst
var einn af fyrstu prófessorum Há-
skóla Íslands. Hann var skipaður
prófessor í heimspeki við stofnun
skólans 1911 og kenndi heimspeki-
leg forspjallsvísindi. Það var nám-
skeið sem allir háskólanemar urðu
að taka á fyrstu áratugum skólans.
Ágúst kenndi til 1945 og hafði mik-
il áhrif. Á þessum árum voru allir
helstu embættismenn þjóðarinnar
menntaðir við HÍ. Löngum sam-
hliða þessu var Ágúst skólastjóri
Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og
ritstjóri tveggja vinsælla tímarita,
Iðunnar og Vöku. Hann gegndi
einnig í tvígang stöðu rektors HÍ.
Frægasta verk hans er líklega rit-
röðin „Saga mannsandans.“ Í rann-
sókninni skoðaði ég verk hans og
kannaði að hvaða leyti og hvern-
ig sá sögulegi veruleiki sem hann
hrærðist í sem heimspekingur hafði
áhrif á störf hans innan fræðigrein-
arinnar. Verk Ágústs hafa ekki verið
rannsökuð mikið með heildstæðum
hætti fyrr en með þessari ritgerð.“
Áralöng vegferð
Vörnin fór fram 20. apríl í Há-
tíðasal HÍ. Andmælendur voru dr.
Guðmundur Heiðar Frímannsson
og dr. Jörgen Pind. Dr. Gunnar
Harðarson, prófessor í heimspeki
við Sagnfræði- og heimspekideild,
var aðalleiðbeinandi doktorsverk-
efnisins. Í doktorsnefnd sátu auk
hans dr. Guðmundur Hálfdanar-
son og dr. Henry Alexander Hen-
rysson.
„Ég kynntist verkum Ágústs
H. Bjarnasonar þegar ég stund-
aði heimspekinám í HÍ og skrif-
aði síðan B.A. ritgerð mína í heim-
speki um hann,“ útskýrir Jakob.
Til rannsókna sinna sem nú er lok-
ið með doktorsritgerð naut hann
meðal annars styrks frá Rann-
sóknasjóði Háskóla Íslands. „Það
má segja að ég hafi unnið við þetta
síðan um haustið 2009. Það er mjög
góð tilfinning að vera búinn. Ég rak
smiðshöggið á ritgerðina í fyrra-
haust og hóf svo störf á stjórnsýslu-
sviði Ríkisendurskoðunar nú eft-
ir áramót,“ segir Dr. Jakob Guð-
mundur Rúnarsson. mþh
Nýverið var opnuð ný sýning í
Safnahúsinu í Borgarnesi þar sem
fjallað er um fimmtán konur sem
allar voru uppi árið 1915 þegar
konur fengu kosningarétt. Sýning-
in hefur fengið heitið Gleym þeim
ei og hönnuður hennar er Heiður
Hörn Hjartardóttir á Bjargi. Sýn-
ingin er unnin í náinni samvinnu
við fjölskyldur viðkomandi kvenna
sem hafa tekið saman fróðleik og
útvegað myndir og muni. Hluti
textans er á sýningarspjöldum en
einnig má sjá hann í heild sinni í
sérstöku hefti sem gefið hefur verið
út í tilefni sýningarinnar.
Aðstoð ættingja
ómetanleg
Heiður Hörn er menntaður graf-
ískur hönnuður og útskrifaðist frá
Myndlista- og handíðaskóla Ís-
lands árið 1994. Hún flutti til baka
í Borgarnes eftir útskrift og starfaði
við ferðaþjónustuna á Bjargi sem þá
var í eigu móðurfjölskyldu hennar.
Heiður Hörn tók alfarið við rekstr-
inum um aldamótin og þegar minna
er að gera í ferðaþjónustunni hef-
ur hún tekið að sér ýmis hönnun-
arverkefni fyrir fyrirtæki og ein-
staklinga en sýningin nú er henn-
ar stærsta hingað til. „Mitt hlut-
verk var að hanna umgjörð sýning-
arinnar og framsetningu gagna sem
starfsmenn Safnahúss unnu í sam-
vinnu við fjölskyldur kvennanna
fimmtán sem er fjallað um á sýning-
unni,“ útskýrir Heiður Hörn. „All-
ar þessar konur voru á lífi 1915, sú
yngsta fædd 1906 og sú elsta 1855.
Það var mikið verk að fækka úr 300
frambærilegum konum í fimmtán
en allar konurnar tengjast starfs-
svæði Safnahússins frá Haffjarðará
og að Hvalfirði og saga þeirra lýsir
kjörum kvenna á þessum tíma. Það
var mjög misjafnt hvernig daglegt
líf kvennanna var, eftir stöðu þeirra
og stétt. Einnig skipti máli að til
væru myndir og að ættingjar gætu
liðsinnt við öflun upplýsinga um
þær.“ Heiður Hörn segir að mikil
vinna liggi að baki heimildaöflun-
ar og að aðstoð ættingja kvennanna
hafi verið ómetanleg.
Hús hluti sýningarinnar
Sögur kvennanna eru mjög ólíkar,
sumar voru vinnukonur og unnu
hjá öðrum allt sitt líf en aðrar hærra
settar og áttu fleiri tækifæri. Tvær
þeirra komust t.d. erlendis til náms.
„Dugnaður þeirra og kjarkur við að
takast á við erfiðleikana og lífið er í
raun ótrúlegur, þær eru allar hetjur
hver á sinn hátt,“ segir Heiður
Hörn aðspurð um hvað henni hefði
komið mest á óvart í undirbúningi
sýningarinnar. „Svo var líka fróð-
legt að fræðast um hve konurnar
voru oft valdalausar í eigin lífi. Það
var til að mynda ekki sjálfgefið að
þær fengju að halda börnum sín-
um ef þær urðu ekkjur eða voru
vinnukonur. Þau voru því send í
vist á aðra bæi, stundum í gott at-
læti en alls ekki alltaf. Einnig var
barnadauði algengur.“ Þegar kom-
ið er inn í Hallsteinssal Safnahúss-
ins blasir við eftirlíking af Skarði,
litlu timburhúsi sem ein kvennanna
bjó í ásamt fjórum börnum sín-
um. „Skarð stóð þar sem Bjöss-
aróló í Borgarnesi er staðsettur og
er eitt minnsta hús sem hefur ver-
ið byggt í Borgarnesi og var aðeins
tíu fermetrar að stærð. Til viðmiðs
má segja að stærðin svipi til með-
al barnaherbergis í dag. Húsið var
byggt 1908 og rifið á áttunda áratug
síðustu aldar,“ segir Heiður Hörn
og bætir við að það hljóti að hafa
verið þröngt um mannskapinn á því
heimilinu. Sýningin verður opin til
1. nóvember á opnunartíma Safna-
húss og sérstök barnaleiðsögn er
um sýninguna sem hjálpar yngstu
sýningargestum að glöggva sig á
tíðaranda þessara merku kvenna.
eha
Snæfellingum var boðið á frum-
sýningu á myndinni Ást í mein-
um, á sumardaginn fyrsta í félags-
heimilinu Klifi í Ólafsvík. Um er
að ræða ástarsögu Björns Breið-
víkingakappa og Þuríðar á Fróðá.
Fyrirtækið Sögubókin framleiddi
myndina en markmið þess er að
gera kvikmyndir og námskeið sem
sækja efni úr Íslendingasögunum.
Í fyrra var frumsýnd í Borgarnesi
kvikmynd um Landnám Skalla-
Gríms, uppvaxtarár Egils og skáld-
skap. Lögð er áhersla á góða sam-
vinnu við heimamenn. Báðar þess-
ar myndir innihalda teikningar og
kort til að staðsetja viðburði á sögu-
slóðum Eyrbyggju og Eglu.
Góð mæting var á sýninguna eins
og aðra viðburði dagsins á Snæ-
fellsnesi. Gestir höfðu orð á því að
eðli mannsins hefði ekki breyst svo
mikið á rúmlega þúsund árum, að
minnsta kosti talar þessi ástarsaga
beint til nútímafólks. Það er magn-
að að geta gengið um söguslóðir
en Kambsskarð, sem er einn meg-
in vettvangur þessarar sögu, er vin-
sæl gönguleið.
Söfn og sýningar opnuðu dyr
sínar upp á gátt fyrir Snæfelling-
um og gestum þeirra á sumardag-
inn fyrsta. Það var svæðisgarðurinn
Snæfellsnes í samstarfi við mark-
aðs- og kynningarfulltrúa sem stóð
fyrir Safnadeginum sem verður ár-
viss héðan í frá.
þa
Netabáturinn Bárður SH hefur í
þrígang landað á Arnarstapa eftir
að hrygningarstoppinu lauk. Hef-
ur aflinn verið mjög góður, eða 69
tonn. Á sunnudag tvílandaði Bárð-
ur fyrst ellefu tonnum sem fengust
í þrjár trossur, en fór svo aftur út
til að draga þrjár síðustu trossurn-
ar og landaði rúmlega níu tonnum
í seinni ferðinni. Þrír línubátar hafa
róið frá Arnarstapa í þessum mán-
uði og hafa þeir landað 16 tonn-
um. Sjö handfærabátar hafa landað
6,6 tonnum og mest hefur Bjarni Jó
náð 1,1 tonni í róðri. Guðmund-
ur Ívarsson hafnarvörður segir að
mikið hafi verið um sunnanátt-
ir í vetur og í mars var engum afla
landað og ekki landað aftur fyrr en
8. apríl þegar netabáturinn Bárður
landaði tvisvar.
Guðmundur segir aðspurður um
handfæraveiðar að það hafi verið
mjög léleg veiði og hafi ótíð spil-
að þar mikið inn í þar sem bátarnir
hafi ekki getað athafnað sig. Kveðst
Guðmundur vona að veðráttan fari
að skána. Strandveiðar mega hefjast
mánudaginn 4. maí. Vanalega þeg-
ar strandveiðar standa yfir er fjöldi
handfærabáta gerður út frá Arnar-
stapa þaðan sem stutt er í fengsæl
mið. af
Dr. Ágúst H. Bjarnason fyrsti heim-
spekiprófessorinn við Háskóla Íslands.
Borgfirðingur ver doktors-
ritgerð í heimspeki
Jakob Guðmundur Rúnarsson við
doktorsvörnina í Hátíðarsal HÍ
mánudaginn 20. apríl.
Helgi Ágústsson, Ásvaldur Kristinsson, Ragnhildur Sigurðardóttir, Ágúst
Þórðarson og Gunnar Páll Þórisson eftir sýningu myndarinnar.
Sýndu kvikmyndina Ást í meinum
Heiður Hörn Hjartardóttir stendur hér við eftirlíkingu af Skarði, einu minnsta húsi
sem byggt hefur verið í Borgarnesi.
Hannar hátíðarsýningu í hjáverkum
Bárður SH landar hér úr fyrri lönduninni á sunnudaginn.
Veiðin að taka við sér eftir
hrygningarstopp