Skessuhorn


Skessuhorn - 05.10.2016, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 05.10.2016, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 5. OKTÓBER 201618 KOSNIN GAR 2016 Eva Pandora Baldursdóttir er oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi. Hún er fædd og uppalin á Sauðárkróki og er með gráðu í viðskiptafræði frá Há- skóla Íslands. Nú stundar hún MPA nám í opinberri stjórnsýslu við sama skóla. Hún kemur nú fersk inn í stjórnmál en hún skráði sig nýlega í flokk Pírata, þótt hún hafi fylgst með hreyfingunni síðan 2013. Eva hafði verið óflokksbundin í nokkur ár eftir að hún gerði sér grein fyrir að málefni Framsóknarflokksins rímuðu ekki við hennar skoðanir. Hún var áður skráð í Framsóknarflokkinn líkt og margir Skagfirðingar. „Þegar ég kynnti mér Pírata fann ég flokk sem var sam- hljóma mínum skoðunum.“ Eva Pandora segist bjartsýn að komast á þing. „Ég er jákvæð, en vil ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut. Það getur allt gerst í pólitík,“ segir hún og hlær. Hún átti sitt fyrsta barn fyrir þremur vikum og er í fæðing- arorlofi. Varaþingmaður myndi því sinna þingstörfum til að byrja með en Eva Pandora segir að hún myndi hik- laust taka þingsætinu verði niðurstaða kosninganna sú. „Þingmenn eru bara venjulegt fólk og eignast börn eins og aðrir.“ Hún er þó ekki alveg viss hve- nær hún myndi koma til starfa eftir fæðingarorlof. „Upprunalegt plan var að vera í fæðingarorlofi til 1. júní, en það gæti vel verið að ég endurskoði það,“ segir hún og bætir við að mað- urinn hennar muni taka þriggja mán- aða fæðingarorlof á móti henni. Spurð út í nafnið Pandora segir Eva Pandora að foreldrum hennar hafi einfaldlega þótt það fallegt og nafn- ið sé úr grískri goðafræði. Mamma hennar er tælensk og vildi því gefa börnunum alþjóðleg nöfn. Þörf á ungu fólki í pólitík Eva Pandora hefur ekki verið áber- andi innan Pírata hingað til. Eins og áður sagði er hún nýlega skráð í flokkin. Hún er þakklát fyrir traust- ið sem fólkið í flokknum hefur sýnt henni með því að kjósa hana í fyrsta sæti listans. „Ég var ekki með stórt tengslanet fyrir kosningarnar og nið- urstöðurnar komu á óvart, en ég hef fulla trú á sjálfri mér,“ segir Eva Pan- dora og bætir við að hún hafi kynnt sig og sín málefni og fólk hafi greini- lega verið henni sammála. Hún segir spennandi að stíga inn í pólitík sem ung kona í dag. „Það er þörf á meiri fjölbreytni á þingi, það þarf ungt fólk, eldri borgara og fólk af öllum stigum samfélagsins.“ Hún segir að ungt fólk virðist í auknum mæli farið að láta sig málin varða sem sé mjög jákvætt. „Mikil umræða hef- ur verið undanfarið um stöðu kvenna á Alþingi og það er mjög gott að sú umræða sé hafin þar sem það er fyrsta skrefið í átt til breytinga.“ Seinni listinn Listinn sem Eva Pandora skipar fyrsta sætið á kemur úr seinna próf- kjöri Pírata. Fyrri listinn var ekki staðfestur á landsvísu vegna ágrein- ings um framkvæmd kosninganna. Hún segir að fólk hafi verið hissa á að sjá rætt um málefni sem þetta opin- berlega. „Svona mál hafa aldrei ver- ið rædd á opinberum vettvangi áður,“ segir hún og bætir við að ferlið sem fór í gang eftir að sá listi kom fram hafi virkað rétt og eftir að hann var felldur á landsvísu kusu allir Píratar á landinu listann fyrir Norðvesturkjör- dæmi. Kjördæmið er minnsta kjör- dæmi Pírata, með rúmlega hundrað skráða meðlimi. Aðspurð hvort hún telji að umræð- urnar um fyrri listann gætu haft áhrif á gengi Pírata í komandi kosningum segir hún að þau geta verið bæði já- kvæð og neikvæð. „Fólk upplifir og skynjar málið á mismunandi hátt.“ Hún segir umræðuna sem spannst út frá listanum dæmi um að Píratar stundi ekki baktjaldamakk, umræð- ur fari fram á opinberum vettvangi. „Það er þó fínt að taka það fram að Pírataspjallið á Facebook er ekki sá vettvangur, það er bara óopinber um- ræðuvettvangur,“ segir hún. Bætt og ókeypis heilbrigðiskerfi Eva Pandora segir að hún vilji berjast fyrir bættu heilbrigðiskerfi á lands- byggðinni. „Það þarf að styrkja heil- brigðismál í þessu kjördæmi, það er stórt og dreifbýlt. Oft er mannauður til staðar á heilbrigðisstofnunum, en það vantar fjármagnið fyrir þjónustu sem áður var jafnvel til staðar.“ Hún tekur dæmi um fæðingadeildina sem var á Sauðárkróki fyrir tuttugu árum. Nú þurfi verðandi mæður að keyra til Akureyrar til að eiga börn sín. „Það eru til dæmi um það að börn fæðist á bílaplani í Varmahlíð á leiðinni á Ak- ureyri.“ Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi er Evu Pandoru líka hugleikið og það er eitt af baráttumálum Pírata ásamt því að ljúka við að innleiða nýja stjórnar- skrá, tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum, efla aðkomu almennings að ákvörðunartöku, endurvekja traust og uppræta spillingu í samfélaginu. „Í tillögum að nýrri stjórnarskrá er til dæmis ákvæði um að auðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, séu sameigin- leg og ævarandi eign þjóðarinnar og við nýtingu þeirra skuli hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Gagnsæi á öllum stigum stjórnsýslu og atvinnulífs er fyrsta skrefið til þess að draga úr spillingu og auka traust almennings til stjórnsýslunnar.“ klj „Spennandi að stíga inn í pólitík í dag“ Rætt við Evu Pandoru oddvita Pírata í Norðvestukjördæmi Eva Pandora Baldursdóttir, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, og tveggja vikna gömul dóttir hennar. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadótt- ir skipar annað sæti á lista Sjálfstæðis- flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar. Hún er lög- fræðingur að mennt og segir að plan- ið hafi verið að starfa við lögfræðina. Það hafi þó farið á annan veg, enn sem komið er. „Ef maður leyfir sér að taka á móti þeim tækifærum sem bjóðast þá gerast skemmtilegir hlutir. Þess vegna er ég hér.“ Þórdís Kolbrún er alin upp á Akra- nesi en ættuð af Vestfjörðum og hef- ur stigið hratt upp metorðastigann í Sjálfstæðisflokknum. „Ég veit ekki al- veg hvaðan pólitíski áhuginn kemur, það var lítið talað um pólitík á heim- ilinu,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún sat í stjórn SUS á árunum 2007-2009 og þar byrjaði boltinn að rúlla. „Þeir sem þekkja mig segja kannski að það hafi verið augljóst að ég myndi enda í stjórnmálum,“ segir hún og brosir. Hún kveðst þakklát fyrir það traust sem flokkurinn hefur sýnt henni í gegnum árin. „Mér fannst oft eins og maður þyrfti að vera kominn með meiri reynslu og orðinn eldri. En mér fannst ekki rétt af mér að ætla að nota það sem afsökun fyrir að fara ekki fram eftir að hafa sagt að það vanti ungt fólk í pólitík,“ segir Þórdís Kol- brún sem verður 29 ára á árinu. Hún hefur nokkrum sinnum verið beðin um að taka sæti á lista Sjálfstæðis- flokksins í Norðvesturkjördæmi og þá skipað sæti neðar á lista. Hún sóttist sjálf eftir því að verða framkvæmdastjóri þingflokks Sjálf- stæðisflokksins og fékk þá stöðu. Síðustu tvö ár hefur hún svo starfað í Innanríkisráðuneytinu sem aðstoð- armaður Ólafar Nordal innanríkis- ráðherra. Planið sem raskaðist Unnusti Þórdísar Kolbrúnar heitir Hjalti Sigvaldason Mogensen. Hún gengur nú með annað barn þeirra og á að eiga um viku fyrir kjör- dag. Fyrir eiga þau soninn Marvin Gylfa, fæddan 2012. „Okkur lang- aði að reyna að koma með haust- barn. Þá gæti ég verið heima fram yfir áramót og farið svo í kosninga- baráttu um vorið. En svo var bara ákveðið að kjósa á sama tíma,“ seg- ir Þórdís Kolbrún og hlær. „Það er eftirspurn eftir ungu fólki í stjórnmálum og það er eft- irspurn eftir konum. Ungar konur eiga börn, þetta er ekkert flóknara en það.“ Hún hafi ekki orðið vör við umræður um það að hún væri ekki hæf til þess að gegna þing- störfum vegna þess að hún gengi með barn. Hún segist ætla að taka þátt í þingstörfum þrátt fyrir að vera með barn á brjósti. „Ég sé fyr- ir mér að mæta á þingsetningu, nái ég kjöri, og velja fastanefnd til að sitja í og taka svo fæðingarorlof.“ Þá taki varaþingmaður við hennar störfum tímabundið. Þórdís Kol- brún myndi svo koma á þing aftur rétt fyrir jólin og klára þingið og svo koma saman með þingflokkn- um í janúar. „Maðurinn minn ætlar að taka feðraorlof og við púslum þessu saman. Þannig að ég mun gefa brjóst á öllum mögulegum stöðum í þinghúsinu, þingmenn verða bara að þola það. Það hlakkar bara smá í mér að gefa brjóst á víðavangi,“ segir Þórdís Kolbrún og hlær. Hún segir mikilvægt að fólk líti á for- eldrahlutverkið á jafningjagrund- velli. „Jafnréttið byrjar heima.“ Jafnrétti í Sjálfstæðisflokknum Nýlega gagnrýndu nokkrar stjórn- málakonur karlaumhverfið sem rík- ir í pólitík. Konur ættu erfitt upp- dráttar innan flokksins og væri jafn- vel bolað burt. Konur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins áttu ekki auð- velt uppdráttar í nokkrum kjördæm- um í ár og reyndar konur lentu neð- arlega á framboðslistum. „Auðvitað voru prófkjörin í hinum kjördæm- unum ákveðin vonbrigði af því ég tel mikilvægt að forystusæti séu almennt skipuð báðum kynjum. Nú átti for- maður flokksins frumkvæði að því að gera breytingar á listanum sem hann leiðir. Ég er stolt af Bjarna og finnst hann sýna þarna hugrekki.“ Hún bendir á að aðeins séu rúm 100 ár síð- an konur fengu kosningarétt. „Það er augljóst að leifar af stöðu kvenna er ennþá að finna í samfélaginu. Konur fá líka enn lægri laun en karlar fyrir sömu vinnu – hvernig ætla menn að skýra það?“ Þórdís Kolbrún segir að staða kvenna hafi þó batnað stórlega á síð- ustu árum en enn sé verk að vinna til að ná fullu jafnvægi. „Það snýst að langmestu leyti um viðhorf og gjörð- ir, hugleiðingar okkar og hugmynd- ir um kynin. En þá verða menn líka að huga að viðhorfi og breyta gjörð- um.” Ef Þórdís Kolbrún kemst á þing í haust verður hún fyrsta konan sem Sjálfstæðisflokkurinn kýs beint á þing í Norðuvesturkjördæmi. „Sjálfstæð- isflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hefur aldrei kosið konu beint á þing. Ekki eins og kjördæmin eru núna og ekki eins og þau voru fyrir samein- ingu.“ Þórdís Kolbrún segist þakklát fyrir það traust sem henni hafi verið sýnt í prófkjörinu og í öðrum störf- um innan flokksins. Hún segist ekki hafa orðið vör við sömu hindranir og þingkonurnar töluðu um en gerir ekki lítið úr þeirra upplifun. Auðmýkt ekki veikleiki Þórdís Kolbrún segist hlakka til að starfa að fjölbreyttum málum fyrir kjósendur kjördæmisins. Á fundum í kjördæminu hafi mikið verið rætt um bætta innviði. Fólk þurfi betri net- tengingu og betri vegi. „Það er mis- mikill þungi eftir svæðum. Það var líka rætt um menntakerfið og inn- spýtingu í heilbrigðiskerfið.“ Hún segir að hún hafi unnið að fjarskipta- og samgöngumálum innan ráðu- neytisins og haft gaman að og það sé eitthvað sem hún vilji halda áfram að starfa að inni á þingi. Henni finnst framtíðin ekki rædd nægilega mikið á Alþingi. „Í dag eru til dæmis um það bil fimm á vinnu- markaði fyrir hvern ellilífeyrisþega. Eftir 30-35 ár verða þeir um það bil tveir og hálfur, gangi spár um mann- fjöldaþróun eftir. Á sama tíma gerum við auknar kröfur til velferðarsam- félagsins,“ segir Þórdís Kolbrún og bætir við að óábyrgt sé að ræða þessa heildarmynd ekki af alvöru. Þá finnst henni mikilvægt að bæta samskipti á Alþingi. „Mér finnst ekkert óeðlilegt eða frekt af stjórnarandstöðunni á Alþingi að vilja koma að stórum mál- um sem stjórnarmeirihlutinn vinn- ur að. Sumum finnst auðmýkt vera veikleikamerki, mér finnst það styrk- leiki og það sama á við um að hlusta á hugmyndir frá pólitískum andstæð- ingum. Ég held að fólk sé komið með nóg af stífleika og leiðindum í stjórn- málum. Það er lykilatriði að hafa svo- lítið gaman að þessu.“ klj „Mikilvægt að líta til framtíðar“ Rætt við nýjan frambjóðanda á lista Sjálfstæðisflokksins Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir skipar annað sæti á lista Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.