Skessuhorn - 11.10.2017, Page 14
MIÐVIKUDAGUR 11. OKTÓBER 201714
„Ég tók við búinu af foreldrum mín-
um um síðustu áramót. Þau búa hér
enn í hinu íbúðarhúsinu og ætla að
vera hér áfram,“ segir Eyjólfur Ingvi
Bjarnason, bóndi, sauðfjárræktar-
ráðunautur og formaður Félags
sauðfjárbænda í Dalasýslu. Hann
býr í Ásgarði í Hvammssveit ásamt
kærustu sinni Guðbjörtu Lóu Þor-
grímsdóttur. Hún er leiðbeinandi í
Auðarskóla í Búðardal og kennara-
nemi við Háskólann á Akureyri. Í
Ásgarði búa þau með um 400 fjár.
Eyjólfur kveðst alltaf hafa stefnt að
því að leggja sauðfjárbúskapinn fyr-
ir sig. „Þetta hefur legið fyrir alveg
síðan ég var sex ára,“ segir hann létt-
ur í bragði. „Það var þó ekki þannig
að ætlast væri til þess að ég tæki við
búinu. Ekki síst lá þetta hjá sjálfum
mér. Ég hef alltaf haft áhuga á sauð-
fjárbúskap, þetta er það sem mig
langar að gera. Ég vona bara að það
ári betur til að vera bóndi síðar meir
en gerir nú,“ segir hann.
Hægt að breyta
mannanna verkum
Þar með leiðir Eyjólfur að næsta
umræðuefni. Auk þess að sinna bú-
skapnum starfar hann sem sauðfjár-
ræktarráðunautur hjá Ráðgjafar-
miðstöð landbúnaðarins og gegnir
formennsku í Félagi sauðfjárbænda
í Dalasýslu. Sauðfjárræktin er þann-
ig yfir og fyrir og allt um kring hjá
Eyjólfi og hann er vel inni í málefn-
um sauðfjárbænda. Hann segir þann
vanda sem steðjar að sauðfjárbænd-
um nú þann mesta sem verið hefur í
mörg ár. „Rót vandans að mínu viti
er bæði ákveðinn forsendubrestur á
útflutningi, til dæmis vegna lokun-
ar Rússlandsmarkaðar og að sterkt
gengi krónunnar gerir það að verk-
um að minna er upp úr útflutningi
að hafa. En ekki síður er það stór
hluti vandans að okkur vantar ein-
hver stjórntæki til að hafa stjórn á
framleiðslunni. Það gilda í þessu
lögmál markaðarins, ef framboðið
er of mikið þá hrynur verðir og á því
tapa allir sem koma að sölu á lamba-
kjöti. Sauðfjárrækt er í grunninn
ekki flóknari bissniss en hver ann-
ar,“ segir hann. „En eins og allt kerf-
ið hefur virkað síðustu tíu til fimm-
tán árin hefur ekki verið nein fram-
leiðslustýring. Þá er hvatinn einfald-
lega að framleiða eins mörg kíló og
hægt er. Afurðastöðvarnar hafa ekki
verið að hvetja menn nógu mikið til
að koma með gripi fyrr til slátrunar
með því að greiða hærra verð. Þá aft-
ur er hvatinn að framleiða eins mörg
kíló og hægt er til að hafa sem mest
upp úr þessu,“ bætir hann við. „En
allt saman eru þetta mannanna verk
og hægt að breyta ef vilji er til.“
Hryggjarstykki hinna
dreifðu byggða
Eyjólfur segir sína upplifun af vanda
sauðfjárbænda undanfarin ár vera
á þá leið að ráðamenn þjóðarinn-
ar hafi alltaf ætlað að bíða og sjá til
hvort staðan lagaðist ekki. Ekkert
hafi hins vegar verið gert og því hafi
auðvitað ekkert lagast. „Sú staða sem
kom upp í haust er ekkert annað en
uppsafnaður vandi síðustu þriggja
ára,“ segir hann. Það telur hann hið
alvarlegasta mál. „Sauðfjárrækt er
lykilatvinnuvegur í dreifðum byggð-
um landsins. Ég myndi telja hana al-
gjört hryggjarstykki í samfélögum
hér vestan Bröttubrekku, svo sem
í Dalabyggð og Reykhólahreppi
og síðan á Ströndum, Norðurlandi
vestra, Norðausturlandi, stórum
hluta Austurlands og víða á Suð-
austurhluta landsins. Sauðfjárrækt
er sterk á öðrum svæðum líka en
þar eru aðrar greinar einnig sterk-
ari,“ segir hann. „Hér í Dölum er til
dæmis ekki margt annað að hafa að
atvinnu í raun og veru. Sauðfjárrækt
er hryggjarsúla byggðarinnar. Búð-
ardalur er þjónustukjarni sem bygg-
ist upp og byggir enn á þjónustu við
landbúnaðinn,“ bætir hann við. „Ef
það færu þrjú sauðfjárbú í þrot hér í
Dölum á næstunni þá væru kannski
tíu börn farin úr grunnskólanum.
Þá þyrfti að fækka um eina kenn-
arastöðu og þá þyrfti ein fjölskylda
til viðbótar að hverfa á braut. Þegar
þar er komið sögu er bara spurning
hvenær fimmta fjölskyldan færi og
síðan sú sjötta. Ef við teiknum upp
allra verstu mynd sem af stöðu sauð-
fjárbænda gæti hlotist þá gæti farið
af stað alvarlegur byggðaspírall sem
erfitt gæti reynst að stöðva,“ segir
Eyjólfur. „Síðan ef við horfum vestur
til nágranna okkar í Reykhólahreppi
þá er staðan að sumu leyti kannski
enn brothættari, því þar spila aðrir
þættir inn í eins og að samgöngur
eru ekki í lagi þegar komið er vestur
fyrir Þorskafjörð.“
Þarf að fækka fé
En hvað teljur Eyjólfur vera til ráða
til að taka á vanda sauðfjárbænda?
„Ég leyni ekki þeirri skoðun minni
að við þurfum með einhverju móti
að fækka sauðfé í landinu. Ég er hins
vegar ekki á því að það skuli ger-
ast með því að fjöldinn allur af fólki
bregði búi og hætti. Við þurfum
bara að skapa tímabundinn hvata
til að bændur fækki fé,“ segir hann.
„Sömuleiðis væri hægt að liðka fyrir
því að fólk geti fært sig yfir í aðra at-
vinnustarfsemi ef það vill ekki stunda
sauðfjárrækt. Til dæmis væri hægt
að skilgreina verkefnasvið skógrækt-
arinnar við kolefnisbindingu öðru-
vísi, á þá leið að fólk gæti setið áfram
á jörðum sínum án þess að halda
sauðfé,“ segir hann. „Ég hef ekki
trú á að sauðfjárræktin verði í fram-
tíðinni útflutningsgrein sem flytur
út sauðfjárafurðir í stórum stíl. Það
er allt í lagi að reyna að flytja kjöt á
nýja vel borgandi markaði svo sem
Kína og Japan. Ég er nú ekki búinn
að vera lengi við búskap en bændur
eru búnir að heyra svo árum skiptir
að þarna leynist mikil tækifæri. Ég
trúi því hins vegar ekki fyrr en það
gerist að við verðum stórtæk á þess-
um mörkuðum,“ segir hann.
Undirboð í versluninni
Í síðustu viku ræddi Skessuhorn
við formenn félaga sauðfjárbænda
á Snæfellsnesi og í Borgarfirði;
Þóru Sif Kópsdóttur og Davíð Sig-
urðsson. Þau voru sammála um að
fækka þyrfti afurðastöðvum. Eyj-
ólfur kveðst ekki vera þeirrar skoð-
unar. „Ég er ekki endilega á því að
fækka þurfi afurðastöðvum. Hins
vegar þarf kannski að fækka þeim
kennitölum sem eru að selja kjöt
í landinu. Það eru of margir að
selja kjöt til neytenda og þar eru
menn að undirbjóða hvern annan.
Það skemmir fyrir öllum og keyr-
ir verðið niður,“ segir hann. „Síð-
an ætla ég ekki að leyna þeirri skoð-
un minni að ég tel verslunina bera
ábyrgð á þessu líka. Ég fagna því
að menn geti keypt lambakjöt en
finnst ekki heiðarleg kaupmennska
að bjóða alltaf lambakjöt undir
framleiðslukostnaði og hala síðan
inn með álagningu á öðrum vörum.
Framleiðslukostnaður á hvert kíló
af dilkakjöti er á bilinu 1.000 til
1.200 krónur, miðað við að bóndi
hafi 160 þúsund krónur í mánaðar-
laun. Ef við viljum að bóndinn hafi
300 þúsund í mánaðarlaun er fram-
leiðslukostnaður 1500 kr. á hvert
kíló. Þegar maður sér læri úti í búð
á allt niður í 750 kr. kílóið þá er
um algjör undirboð að ræða,“ seg-
ir Eyjólfur og tekur dæmi. „Það er
hægt að kaupa gott læri sem er þrjú
kíló á þrjú þúsund krónur úti í búð.
Það dugar í matinn fyrir tíu manns
en vissulega þarf að elda það og út-
búa meðlæti. Það er ódýrari mál-
tíð en að fara á Domino‘s og kaupa
tvær pitsur og gos. Lambakjöt er
ekki dýr vara í verslunum landsins,“
segir hann.
Eyjólfur segir að vissulega megi
gagnrýna afurðastöðvar fyrir fram-
setningu vörunnar og skammta-
stærðir. „Lambakjöt þarf að vera
fáanlegt í minni einingum, þannig
að þar sem eru tveir til þrír í heim-
ili þurfi ekki að kaupa risabita og
sitja síðan uppi með afganga. Þá má
framsetningin einnig vera betri,“
segir hann tekur fram að hann telji
hana vera að færast til betri vegar.
„Þar er það Costco sem stjórnar
stefnunni, ég held að aðrar versl-
anir séu farnar að horfa til þeirra
hvað varðar framsetningu á íslensku
lambakjöti og það er jákvætt.“
Stjórnvöld myndi
framtíðarsýn
Í gegnum starf sitt sem sauðfjár-
ræktarráðunautur hittir Eyjólf-
ur fyrir fjölda bænda um allt land.
Hann kveðst ekki hafa heyrt á nein-
um sem ætli að bregða búi núna í
haust. „Staðan er sú að menn eru
búnir að leggja út fyrir kostnaði
næsta árs. Einhverjir koma til með
að fækka fé og í vetur þarf að liggja
fyrir um það bil hvert afurðaverðið
verður næsta haust. Menn verða að
vita það í desember eða janúar, alls
ekki seinna. Þá geta menn gert upp
við sig hvort þeir ætla að halda áfram
eða hætta. Ég hef nefnilega grun um
að býsna margir séu að velta því fyr-
ir sér að bregða búi næsta haust,“
segir Eyjólfur; „og það er einfald-
lega þannig að ef ekki verður hækk-
un afurðaverðs á næsta ári þá er bara
sjálfhætt, þá er enginn grundvöll-
ur fyrir þessu lengur. Það þarf að
vera hægt að hafa einhverjar tekjur
af þessu,“ segir hann og kallar eft-
ir aðgerðum stjórnvalda. „Það er
ákall sauðfjárbænda til þeirra 63
sem veljast inn á Alþingi í kom-
andi kosningum að vinna vinnuna
sína og gera eitthvað. Það er ekki
hægt að halda að hlutirnir ger-
ist af sjálfu sér. Þessi vandi leys-
ist ekki að sjálfu sér,“ segir Eyjólf-
ur en tekur fram að hann sé ekki
að kalla eftir auknum framlögum í
formi styrkja. „Ég er ekki að kalla
eftir meiri peningum. Ég vil að
liðkað verði fyrir í kerfinu og hlut-
irnir útfærðir þannig að hægt verði
að stunda sauðfjárrækt og hafa af
því einhverjar tekjur. Ég kalla eft-
ir því að stjórnvöld myndi sér ein-
hverja framtíðarsýn sem liggur þá
fyrir, það verði forgangsverkefni
svo menn viti að hverju þeir ganga
á næsta ári,“ segir Eyjólfur Ingvi
Bjarnason að endingu.
kgk/ Ljósm. úr safni.
„Ef ekki verður hækkun afurðaverðs
á næsta ári þá er bara sjálfhætt“
- segir Eyjólfur Ingi Bjarnason, bóndi og formaður FSD
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, bóndi, sauðfjárræktarráðunautur og formaður Félags sauðfjárbænda í Dalasýslu.
Eyjólfur hefur haft í nógu að snúast við að dæma lömb þessa dagana og fleira
sem fylgir haustinu. Stundum er hann kallaður til þegar haldnar eru sýningar. Hér
dæmir hann væna hrúta á Snæfellsnesi.
Rekið inn í Ljárskógarrétt í Dölum nú í haust. Dalabyggð er mikið landbúnaðar-
hérað og á mikið undir sauðfjárrækt komið, sem og fleiri dreifðar byggðir lands-
ins. „Ég myndi telja sauðfjárrækt algjört hryggjarstykki í samfélögum hér vestan
Bröttubrekku, s.s. Dalabyggð og Reykhólahreppi,“ segir Eyjólfur.