Skessuhorn


Skessuhorn - 11.10.2017, Blaðsíða 24

Skessuhorn - 11.10.2017, Blaðsíða 24
MIÐVIKUDAGUR 11. OKTÓBER 201724 Margir þekkja sögu fótboltans á Akranesi í seinni tíð, ekki síst eftir að hið fræga gullaldarlið gerði garðinn frægan á sjötta ára- tug liðinnar aldar. En fyrir þann tíma hafði knattspyrnan rutt sér til rúms í þessu litla sjávarþorpi og má rekja þá sögu allt aftur til þriðja áratugarins þegar ungir drengir lögðu hart að sér við að safna fyrir fyrsta boltanum. Leiða má að því líkum að landfræðilegir þættir hafi ekki síst valdið því að fótboltinn varð fljótt mjög vinsæll. Víða voru sendin tún og sjálfur Langisandur var frá náttúrunnar hendi líklega besta æfingasvæði landsins. Þetta skóp grunn knatt- spyrnuiðkunar sem æ síðan hef- ur einkennt fótboltabæinn Akra- nes. Hér verður upphafið rakið; brautryðjendanna minnst, fyrstu fótboltavallanna og knattspyrnu- félaganna sem ruddu brautina. Hallgrímur í Guðrúnarkoti Ólafur Frímann Sigurðsson frá Sý- ruparti, sem lengi var formaður Knattspyrnufélags Akraness (K.A.) og vann mikið brautryðjandastarf í þágu fótboltans á Akranesi, skrifaði m.a. í 25 ára afmælisblað félagsins árið 1949: „Hér á Akranesi var nokkuð snemma byrjað að iðka knattspyrnu (fótboltaleik, sem þá var kallaður) og man ég eftir mörgum ánægju- legum leikjum í þá daga, þegar ég var lítill drengur, og er mér sérstak- lega minnisstæður einn piltur, sem var mun eldri en ég. Var það Hall- grímur Jónsson, Sveinssonar prófasts frá Guðrúnarkoti. Hann hafði í eigu sinni bolta, sem við notuðum, og var venjulega farið í fótboltaleik á Guð- rúnarkots-túninu eða niðri á Breið. Ef við komum 5 til 6 saman, var venjulega skipt þannig að Hallgrím- ur var einn á móti okkur, vegna þess að hann var eldri, og hafði í leikni ákaflega mikla yfirburði fram yfir okkur. Það má segja að Hallgrímur Jónsson hafi verið með þeim fyrstu, er hér iðkuðu knattspyrnu, og vakti áhuga á þessari íþrótt. Hallgrímur var ágætur íþróttamaður: Sundmað- ur góður, glímumaður, taflmaður og knattspyrnumaður. Þannig var knatt- spyrnan fyrst iðkuð, ekki alltaf eftir settum reglum, en áhuginn var mik- ill, hver stund notuð til þess að fara af stað með boltann, og ég held að eng- in íþrótt hafi hrifið mig eins mikið, en á þeim árum kynntist maður ekki fjölbreyttu íþróttalífi“. Hallgrímur var fæddur á Mið- teigi (Guðrúnarkoti) 1. júlí 1899. Foreldrar hans voru Jón A. Sveins- son, prestur í Görðum á Akranesi og k.h. Halldóra Hallgrímsdóttir, Jóns- sonar, hreppstjóra í Guðrúnarkoti. Hallgrímur var í Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1919 og tók próf þaðan. Hann var bóndi á Miðteigi 1919-25. Hallgrímur var vel gefinn og vel íþróttum búinn, var m.a. úr hópi fræknustu glímumanna Íslands á sinni tíð. Bústýra Hallgríms frá 1923-25 var Hólmfríður Helgadótt- ir frá Lykkju. Hallgrímur fór utan til lækninga og lést í þeirri ferð, 9. nóv. 1930, aðeins 31 árs að aldri. Hall- grímur var aðalhvatamaður að stofn- un Íþróttafélagsins Harðar Hólm- verja nokkru eftir 1910, ásamt Eyjólfi Jónssyni í Bræðraborg og Sigurdór Sigurðssyni, en það félag iðkaði eink- um íslenska glímu og sund. Félagið starfaði nokkuð fram yfir 1920 og hélt nokkur íþróttamót, m.a. vestur á Grenjum á Akranesi 27. júní 1920. Fyrstu fótboltavellirnir Einn fyrsti túnbletturinn á Skag- anum þar sem strákarnir æfðu fót- boltaleik var neðst í þorpinu, fyr- ir ofan bæinn Breið, en Breið var sennilega fyrsta jörðin, sem var skipt úr jörðinni Skaga. Þetta tún var því skammt fyrir ofan neðsta býli byggðarinnar. Upp af Skarfavörinni sem var þar skammt undan var stór tjörn, sem hét Breiðartjörn. Þar mun einnig hafa verið glatt á hjalla á vetrum á skautum og leggjum, en eins og margir aðrir gamlir leikstað- ir unga fólksins á neðri Skaganum er hún nú horfin með öllu. Neðst í túninu á Lambhúsum (nú Vestur- götu 20), var lengi fram yfir alda- mótin 1900 nokkuð stór tjörn sem kölluð var Hestbúðartjörn. Þeg- ar hún var ísi lögð var hún mikið notuð fyrir skautasvell. Var þá oft hægt að fara á skautum samhang- andi yfir allar mýrar ofan á Breið- artjörn, sem þá náði alveg heim að Breiðarhúsi. Annar leikvöllur með bolta var Guðrúnarkotstúnið þar sem áðurnefndur Hallgrímur Jóns- son átti heima, en þetta tún er fyrir neðan þar sem húsin nr. 14 og 16 við Háteig standa nú. Tún og sandar Hentugustu staðir til boltaleikja og íþróttaiðkana voru túnin og sand- arnir á Akranesi. Túnin voru oftast afgirt svæði og hörð undir fót, ólíkt mýrum og melum sem voru votlend og hentuðu því ekki fyrir hlaup eða boltaleiki. Einnig voru sandasvæðin oftast hentug til leikja, auk þess sem fjörusandur eins og t.d. Langisand- ur var oftast snjóléttur vegna sjáv- arfalla (flóð og fjara). Unglingarn- ir byrjuðu því leiki sína á Sandinum um leið og útfallið byrjaði. Langis- andur var um langt árabil æfinga- völlur knattspyrnumanna Akraness, m.a. gullaldarliðsins á seinni hluta síðustu aldar, en Sandurinn var í þá daga rennisléttur og víðáttumikill. Akranes var á árum áður frægt fyrir góðar kartöflur, en það stafaði af því að garðarnir voru oft sand- garðar þar sem ekki mikil mold var í bland. Var þetta sérstaklega á neðri Skaganum. Mörg nöfn og örnefni benda til þess að sandur hafi verið víða. Tveir bæir voru í byggð niðri á Breið uppúr 1700 og hétu Syðra og Vestra Sandgerði. Síðar var hús við Akursbraut 24, sem nefnt var Sand- gerði; einnig annað við Suðurgötu 60 sem nú er búið að rífa. Sandabær var byggður árið 1841, en hann lagðist í eyði árið 1908. Hann stóð ofarlega í Bjargstúni, rétt sunnan við Brunnastaði (Laugar- braut 19), sem síðar voru byggðir. Akrafell var sennilega nálægt því sem Sandabærinn stóð, eða þar sem nú er Víðigerði 2. Þá má nefna Sand- abæina við Krókalón, Mið-Sanda (Krókatún 2, svokallað Ljósuhús), Vestri-Sanda (Krókatún 4), en það hús er nú uppi í Görðum og Eystri- Sanda (Vesturgötu 55), hús sem flutt var á Presthúsabraut 36. Þá var bær- inn Hjallasandur byggður árið 1840, en hann mun hafa staðið u.þ.b. þar sem húsið Deildartún 9 er nú. „Uppi á Söndum“ Svæðið bæði sunnan og norðan nú- verandi Skagabrautar var einu nafni kallað Sandar, og ber Sandabrautin nafn af því. Einn fyrsti fótboltavöll- urinn sem K.A. og Kári fengu til af- nota var „uppi á Söndum,“ skammt fyrir sunnan Hól, u.þ.b. þar sem verkamannabústaðirnir við Há- holt eru nú, nr. 17 til 31. Völlurinn uppi á Söndum var umkringdur kál- görðum á alla vegu og var í alla staði ófullnægjandi og oft blautur, og var því leitað til hreppsnefndarinnar um nýtt vallarsvæði. Brást hún vel við og lét félögunum í té vallarsvæði á Jaðarsbökkum. Vorið 1934 byrjuðu sjálfboðaliðar úr K.A. og Kára að vinna við nýja völlinn. Túnin Auk túnanna sem fyrr voru nefnd, við Breið og Guðrúnarkot, voru margir túnblettir notaðir til bolta- leikja. Á svæðinu milli Lambhúsa- sunds og Krókalóns var á fyrri hluta seinustu aldar stórt svæði samliggj- andi túna, en þau voru Bakkatún, Deildartún, Böðvarstún og Grund- artún. Þar léku sér með bolta marg- ir af frægustu knattspyrnumönn- um landsins á sínum tíma; nægir að nefna bræðurna á Reynistað með Rikka í broddi fylkingar, Halldór Sigurbjörnsson, Donna, sem átti heima á Deildartúni 7, Dagbjarts Hannessonar, Péturs Georgssonar og Sveins Teitssonar sem allir ólust upp í nágrenninu og spiluðu bæði fyrir Akranes og landsliðið. Merk- urtúnið var einnig mikið notað til æfinga og þar áttu margir kappar sín fyrstu spörk. Fleiri tún og blett- ir voru einnig notaðir eftir því sem byggðin færðist ofar. Félög stofnuð Guðmundur Sveinbjörnsson, einn af stofnendum og fyrstu formönn- um Kára skrifar árið 1947 í 25 ára afmælisblað félagsins grein sem nefnist „Á tímamótum“: „Það má segja, að sérhvað hafi sína forsögu og að atburðaröðin sé til orðin vegna einhvers, sem á undan er gengið. Árið 1922 komu tíu ungir piltar saman til þess að stofna knattspyrnufélagið Kára. Er hægt að segja, að forsaga þessarar félagsstofnunar sé til orðin vegna hversdagslegs atviks. Séra Friðrik Friðriksson, einn besti félagi unga fólksins hélt barnasamkomu í kirkj- unni hér á Akranesi og talaði um knattspyrnufélagið Val, starf þess og tilgang. Ég sem stofnandi Kára held því hiklaust fram að þessi sam- koma séra Friðriks og sá eldmóð- ur og skilningur á barnssálinni sem fram kom hjá honum eins og alltaf hefur verið hans einkenni, sé for- sagan að stofnun Kára.“ Upphaf fótboltans á Akranesi í samantekt Ásmundar Ólafssonar Sjómannadagurinn 1961. Fótboltakeppni í sjóstökkum á Merkurtúni. Ljósm. Ólafur Árnason. Glímukappar: Til hægri er Hallgrímur í Guðrúnarkoti, einn frumherja fótboltans á Akranesi. Til vinstri er Eyjólfur Jónsson (1891-1967) í Bræðraborg, landsfrægur glímukappi. Ljósm. Árni Böðvarsson. Breiðarbærinn um 1918. Bæjarhúsin voru byggð 1874 og Akranesvitinn 1918. Túnbali ofan við bæinn, en hlaðnir grjótgarðar austan og vestan við hann til varnar sjógangi. Hér var einn fyrsti túnbletturinn á Skaganum þar sem strákar æfðu fótbolta. Ljósm. Haraldur Böðvarsson. Ásmundur Ólafsson.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.