Litli Bergþór - maí 2019, Blaðsíða 14
14 Litli-Bergþór
Það vaxa upp nýjar kynslóðir og því eru ekki allir
sem þekkja til Minningarsjóðs Biskupstungna. Litli-
Bergþór sér því ástæðu til að minna Tungnamenn á
tilvist sjóðsins með reglulegu millibili og hvetja fólk
til að sækja í hann til góðra verka.
Minningarsjóður Biskupstungna var stofnaður
árið 1960. Tekjur hans skyldu vera minningargjafir
um látna Biskupstungnamenn og aðra, sem gjafir
eru gefnar um, ágóði af sölu minningarspjalda sem
sjóðurinn gefur út, aðrar gjafir og áheit. Stofnfé hans
var minningarsjóður um Þorfinn Þórarinsson bónda
á Spóastöðum, fyrsta formann Umf. Bisk., sem lést
aðeins þrítugur að aldri árið 1914.
Ungmennafélagið stofnaði Þorfinnssjóð árið 1916 til
styrktar fátækum ungmennum í sveitinni sem langaði
til að mennta sig.
Árið 1960 þótti tilgangur sjóðsins orðinn óþarfur, því
að flest ungt fólk hafði þá ráð á að sækja framhaldsskóla
fjárhags vegna. Auk þess hafði lítið safnast í sjóðinn.
Þess vegna var, að frumkvæði ættingja Þorfinns, ráðist
í að stofna nýjan sjóð, sem meira væri í samræmi við
þörf líðandi stundar, eins og segir í grein um stofnun
Minningarsjóðs Biskupstungna. Auk þess runnu í
sjóðinn, að tilmælum Dóms- og Kirkjumálaráðuneytis,
þrír gamlir minningarsjóðir aðrir, sem verið höfðu í
vörslu sóknarpresta Skálholtsprestakalls, en gufað
höfðu að mestu upp í verðbólgu: Minningarsjóður
Halldóru Snorradóttur frá Arnarholti, Þórarins
St. Eiríkssonar á Torfastöðum og sr. Guðmundar
Torfasonar. Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins mátti
verja úr sjóðnum öllum vöxtum hans þegar sjóðurinn
væri kominn upp í 50.000 krónur.
Samkvæmt Skipulagsskrá Minningasjóðs Bisk ups-
tungna, sem rituð var árið 1958 og birt í ritinu Inn til
fjalla, III. bindi bls. 130, skyldi fénu verja:
• Til fegrunar og umhirðu í kirkjugörðum Skál-
holts presta kalls.
• Til að prýða og fegra umhverfi barnaskólans og
félags heimilisins í Reykholti.
• Til hjálpar heimilum eða einstaklingum í
sveitinni, sem verða fyrir sérstöku áfalli,
ef það fæst ekki bætt á annan hátt.
Einnig var útbúin bók til að rita í æviágrip þess
látna, sem fylgja skyldi minningargjöfum, ásamt
mynd, og hlaut nafnið Biskupstungnabók. Heimild
var í reglugerð sjóðsins til að láta prenta bókina.
Stjórn sjóðsins skyldu skipa 5 menn:
Formaður Umf. Bisk., sóknarpresturinn, formaður
skólanefndar, fulltrúi Kvenfélagsins, kosin til 4ra ára í
senn og fulltrúi hreppsnefndar, kosinn af hreppsnefnd
að afstöðnum hverjum hreppsnefndarkosningum.
Samkvæmt 9. grein skipulagsskrárinnar, skyldi
stjórn sjóðsins „endurskoða skipulagsskrá sjóðsins að
25 árum liðnum, í fyrsta sinn 1983 og síðan á 25 ára
fresti, svo að fé sjóðsins sé jafnan varið í samræmi við
breytta tíma og eftir því, sem viðfangsefni gefast til
aukinnar menningar innan sveitarinnar. Til breytinga
á skipulagsskránni samkvæmt þessari grein þarf 4/5
atkvæða til þess að hún öðlist gildi, enda þarf og
samþykki stjórnarráðs til“ - segir þar.
Skipulagsskráin er enn óbreytt eins og hún var
samþykkt árið 1960.
Minningarsjóður Biskupstungna var ekki stofnaður
til að halda uppi nafni neins sérstaks manns, heldur til að
geyma nöfn allra þeirra látinna Biskupstungnamanna,
„sem sýnd er sú ræktarsemi af aðstandendum og vinum,
að þeir sendi sjóðnum minningargreinar um hina látnu
og mynd, ef til er, ásamt nokkurri peningagjöf“, segir
í ofannefndri grein um stofnun sjóðsins frá 1960. Ef
þetta yrði almennt, yrði Biskupstungnabók þegar árin
líða merkilegt heimildarrit og sjóðurinn öflugur.
Frekar hefur verið hljótt um sjóðinn undanfarin
ár. Þykir Litla-Bergþóri því rétt að minna á hann og
hvetja Tungnamenn til að láta minningargjafir renna
til þessa sjóðs, sem veitir styrki í heimabyggð okkar,
sem og láta æviágrip þess sem minnst er fylgja með
gjöfinni.
Í sjóðnum voru árið 2018 tæpar 7 milljónir króna.
Fyrir liggur að veita styrk til að fegra umhverfi nýs
leikskóla í Reykholti þegar hann er risinn. En einnig
hafa önnur góð málefni verið styrkt, þótt þau falli ekki
beint undir skipulagsskrána, eins og t.d. kr. 300 þúsund
til spjaldtölvuvæðingar Grunnskólans á síðasta ári og
100 þúsund til Kvenfélags Biskupstungna, til þátttöku
í gerð kvikmyndar, „Svipmyndir af lífi og starfi kvenna
í Uppsveitum Árnessýslu árið 2015“, í tilefni 100 ára
afmælis kosningaréttar kvenna.
Vörslumaður sjóðsins nú er Svavar Sveinsson á
Gilbrún.
Samantekt Geirþrúður Sighvatsdóttir.
Upplýsingar um Minningarsjóð Biskupstungna
Heimildir:
Inn til fjalla, rit Félags Biskupstungnamanna
í Reykjavík, III. bindi.
Minningarsjóður Biskupstungna - stofnskrá 1960
(í vörslu Svavars Sveinssonar).
Minningarsjóður Biskupstungna L-B 1 1993,
sr. Guðmundur Óli Ólafsson.
Svavar Sveinsson – munnleg heimild.