Litli Bergþór - maí 2019, Blaðsíða 6
6 Litli-Bergþór
Allir ferðast milli staða. Á Íslandi ferðast ekki bara Íslendingar á þjóðvegum landsins,
heldur stóraukinn fjöldi ferðamanna. Langflestir með bílum, sem við vitum öll að menga
andrúmsloftið, og þar með umhverfið allt með útblæstri á koltvísýringi. Þá losna mengandi
efni við hemlun og við slit á vegum. Aðeins eitt prósent bifreiða á landinu eru rafbílar.
Almenningssamgöngur eru alltof illa nýttar og gera má sér í hugarlund að sökum þess
hve fáir nýta sér almenningssamgöngur, séu þær í raun að auka við mengun. Á sama tíma
fara fram umræður um orkuskipti. En við verðum að hugsa til framtíðar, og gæta þess að
landsbyggðin verði ekki eftir, því eins og staðan er núna, þá drífa rafbílar heldur skammt.
Sumir spá því að innan fárra ára verði landið rafbílavætt. En ég óttast að rafbílavæðing geti
reynst fjölmörgum íbúum á landsbyggðinni hartnær ómöguleg. Rafbílar hafa sem stendur ekki
nægilega langa drægni á hleðslunni - og eins og fram kom í Kveiki, fréttaskýringaþætti á RÚV,
í nóvember, þá skortir innviði til að orkuskiptin geti átt sér stað. En er þá ekki rétt að hlúa
að almenningssamgöngum? Mikilvægt er að almenningssamgöngur séu hraðar, öruggar og
notendavænar og ekki síst umhverfisvænar.
Í haust kom móðir mín í nokkurra daga heimsókn til okkar í sveitina. Hún á engan bíl og
býr í Reykjavík, svo hún tók strætó hingað austur. Þegar mamma þurfti að snúa aftur heim
í höfuðborgina, varð því ekki við komið að fara með strætó, vegna þess hve fáar ferðir eru í
boði héðan úr uppsveitum og tímasetning hentaði alls ekki. Og raunar er það kapítuli út af fyrir
sig hversu lélegar almenningssamgöngur bjóðast okkur uppsveitafólki, en það er efni í annan
pistil. Þá bauðst systir hennar til að sækja hana til okkar. En þegar frænka mín kom var hún,
vægast sagt, í uppnámi yfir þeirri miklu umferð sem hún varð vitni að. Hún hafði keyrt yfir
Mosfellsheiði, gegnum Þingvelli og Laugarvatn á leið sinni hingað. Henni blöskraði hversu
mikil umferð var um þjóðgarðinn sem, eins og áður hefur komið fram, hefur aukist stig af stigi
á undanförnum árum með vaxandi ferðamannastraumi. Henni fannst að rukka ætti vegtolla
fyrir að fara um Þingvöll. t.d. 5.000 krónur, fyrir að fá að keyra um þjóðgarðinn. En frænka
mín vildi raunar ganga mikið lengra með þetta - hún vildi setja upp tollahlið við hvern inngang
að höfuðborgarsvæðinu og líka innan borgarinnar - til dæmis við Elliðaárnar. Með þessu
fullyrti hún að draga myndi úr bílaumferð, fólk myndi heldur velja almenningssamgöngur, sem
væru þá styrktar verulega með peningunum sem fengjust úr vegtollunum.
Nokkuð háværar umræður sköpuðust um þetta við eldhúsborðið - þar sem heimamanni á
staðnum þótti illt, að fólk í sveitum landsins þyrfti að borga aukaskatta, við þyrftum oft að fara
til Reykjavíkur að sækja þjónustu sem ekki fæst annarsstaðar. Fólk sem býr í Reykjavík þarf
ekki að yfirgefa borgina á sama hátt.
Já, umferðin hefur aukist gríðarlega. Hvernig leysum við þann vanda að um göturnar okkar
ekur nú fjöldi ferðamanna, sem sumir hverjir hafa jafnvel sjaldan eða aldrei stýrt bíl nema
í ökuhermi? Jú, þá laust niður í huga mér framtíðarlausninni sem margir hafa hugsað um
en enginn haft áræðni til að framkvæma. Hvers vegna er hér ekki lestarkerfi, sem nýtir þá
umhverfisvænu raforku sem hér er í boði? Hvers vegna notum við ekki umframraforkuna úr
virkjunum okkar til umhverfisvænni samgangna í stað þess að nota hana í stórmengandi iðnað?
Hugsanlega væri hægt að nota álið sem hér er framleitt til að búa til lestarteina og lestarvagna,
sem ganga myndu fyrir endurnýjanlegri vatnsaflsraforku? Er það ekki stórhuga framtíðarsýn?
Ég vona að hún nái einhvern daginn fram að ganga.
Unnur Malín.
Ritstjórnargrein
um samgöngumál