Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Qupperneq 90
90 | Tímarit hjúkrunarfræðinga
Árið 1980 var mikið kvennaár. Vigdís Finnbogadóttir var
valin forseti fyrst kvenna í heiminum, í lýðræðislegum
kosningum. Kvennaframboð í Reykjavík leit dagsins ljós
1982 og í kjölfarið var Kvennalistinn stofnaður árið 1983.
Heildstæð löggjöf um málefni aldraðra var samþykkt
árið 1983. Lög um sjúkraliða ári síðar, en þeir höfðu áður
átt stoð í hjúkrunarlögum. Formannstíðin byrjaði vel en
varð fljótt annasöm því miklar hræringar voru hvað snerti
heilbrigðismál, kjaramál og menntunarmál stéttarinnar.
Ég var gerð að formanni kennaradeildar Hjúkrunarfélags Íslands
(HFÍ) nýkomin heim úr framhaldsnámi frá Noregi vorið 1973.
Yfirlýst stefna deildarinnar var að nám hjúkrunarfræðinga ætti að vera
í Háskóla Íslands og hjúkrunarfræðingum yrði gert kleift að bæta við
sig námi til BS-gráðu samkvæmt raunhæfu mati. Þegar ég gaf kost á
mér til formannskjörs félagsins árið 1982 setti ég þetta fram sem mitt
baráttumál. Taldi mig vita að væri nám hjúkrunarfræðinga samræmt
fylgdi sameining hjúkrunarfélaganna tveggja í kjölfarið. Ágreiningur
um launakjör stéttarinnar hyrfi og hún stefndi ótrauð að því að rækja
hlutverk sitt í heilbrigðisþjónustunni.
Helstu baráttumál hjúkrunarfræðinga í minni formannstíð
Það var mikil gróska í menntunarmálum. Kennaradeild HFÍ barðist
fyrir því að hjúkrunarnám færi ekki í nýstofnaða fjölbrautaskóla.
Fjölbraut í Breiðholti var tilraunaskóli með margar nýjar námsleiðir,
m.a. sjúkraliðabraut. Sjúkraliðaskóli Íslands var líka starfandi við
góðan orðstír. Sjúkraliðar sóttu fast að fá aukin starfsréttindi. Í
sérkjarasamningi var gerð bókun um að komið yrði upp framhaldsdeild
við Sjúkraliðaskólann sem gæfi sjúkraliðum með þriggja ára starfs-
reynslu möguleika á eins árs framhaldsmenntun. Þeir hlytu starfsheitið
„aðstoðarhjúkrunarfræðingur“ og sjálfstæðan rétt til að starfa. Það
kraumaði því fljótt í mörgum hornum hjá mér. Allt leystist þetta
farsællega og stéttirnar starfa nú vel saman.
Hjúkrunarfélagið var á þessum tíma eitt af aðildarfélögum BSRB.
Margir hjúkrunarfræðingar voru virkir innan BSRB og þar fór fram öll
aðalkjarasamningsgerð fyrir aðildarfélögin. Árið eftir að ég tók við sem
formaður fór fram atkvæðagreiðsla um veru í bandalaginu. Niðurstaðan
varð á þann veg að nei við að fara úr BSRB sögðu 54,8 % en já 44,1%. Ég
var ekki hlynnt veru okkar þar en átti farsælt og skemmtilegt samstarf
við starfsmenn BSRB, á skrifstofunni og í aðildarfélögum. Karlaveldi var
ráðandi þarna, fullorðnir karlmenn sem vildu hafa fundi seinnipartinn
þegar þeir komu úr vinnu. Slíkt hentaði ekki ungri móður enda þurfti ég
oft að taka son minn með á fundina kl. 17.00.
Umræðan um veru okkar í BSRB hélt áfram. Fulltrúafundur árið 1990
samþykkti að fram færi atkvæðagreiðsla. Ögmundur Jónasson, formaður
BSRB, og ég fórum um allt land til að kynna málið. Skemmtilegir
fundir og oft talsverð átök. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð sú að
86% félagsmanna vildu úrsögn úr BSRB. Þar með var Hjúkrunarfélag
Íslands utan bandalaga, staða sem ég hef ávallt talið að við ættum að
vera í. Viðskilnaðurinn við BSRB var á allan hátt góður, komist var að
samkomulagi um öll mál, s.s. hlut félagsins í orlofshúsum, félagsmiðstöð,
sjóðum og öðru er tengdist aðildinni.
Sameiningarmál félaganna voru mér frá fyrstu stundu hugleikin og mikil
orka og tími fór í þau alla mína formannstíð. Samstarf við alla formenn
Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga (Fhh) var með miklum
ágætum og fagleg samvinna. Við Aðalbjörg Finnbogadóttir segjum að
trúlofunin hafi átt sér stað þegar ég afhenti henni, eftir ráðstefnu sem
Fhh hélt á fimm ára afmælinu 1983, bókina „Hjúkrunarsögu“ eftir
Maríu Pétursdóttur og blómvönd með brúðarslöri „sem tákn þess að
félögin muni ganga í eina sæng“. Þegar ég hætti var staðan þannig að
bæði félögin höfðu látið fara fram atkvæðagreiðslu um sameininguna
og niðurstaðan var yfirgnæfandi fyrir því. Lögð hafði verið fram
yfirgripsmikil stefnumótun hvað varðaði stofnun nýs hjúkrunarfélags
hjá báðum félögum. Okkar tillögur byggðust á eldri tillögum og stefnu
félagsins í margvíslegum málum. Búið var að kjósa í laganefnd sem hafði
Trúlofun
tveggja félaga
FRÁ FYRRVERANDI FORMANNI
Sigþrúður Ingimundardóttir
formaður Hjúkrunarfélags Íslands
1982-1987 og 1988-1991
2000 2000
Landspítalinn og Sjúkrahús Reykjavíkur sameinast í Landspítala