Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Síða 96
96 | Tímarit hjúkrunarfræðinga
Eitt rótgrónasta kvennastarf á
Íslandi er ljósmæðrastarfið. Enginn
karlmaður hefur brotið sér leið inn
í þetta starf frá því Ljósmæðrafélag
Íslands var stofnað 2. maí 1919.
Árið 1924 varð breyting á starfstitli yfirsetu-
kvenna þegar í gildi gengu breytingar á lögum
um Yfirsetukvennaskólann. Nafn skólans varð
Ljósmæðraskóli Íslands og yfirsetukonur fengu
starfstitilinn ljósmæður. Samkvæmt því áttu
konur að sinna störfum ljósmæðra en svo hafði
ekki verið um ómunatíð. Í sögu ljósmæðra hafa
karlar sem sinntu ljósmæðrastörfum þó fengið
lítið rými. Í bókinni Ljósmæður á Íslandi er
getið 1.626 einstaklinga, þar af níu karlmanna,
sem sinntu yfirsetukvennastörfum hér á landi
rétt eftir miðja 18. öld og fram á þá tuttugustu.
Þrátt fyrir kvenlega ímynd ljósmæðra tóku
karlmenn hér á landi þátt í ljósmæðrastörfum
fram til ársins 1912. Það er ekki öllum gefið
að hafa líknandi hendur og vera nærfærinn og
síst eru karlmönnum eignaðir þeir eiginleikar.
Samt eru dæmi um karlmenn á Íslandi sem
með fórnfýsi, kærleiksþeli og umhyggju sátu
yfir og aðstoðuðu fæðandi konur fyrr á öldum.
Um nokkra þeirra verður fjallað í þessari
grein. Þeir fóru inn á braut sem taldist „utan
normsins“, sinntu starfi sem taldist ekki hæfa
þeirra kyni, þ.e. karlkyninu. Enginn ákveðinn
starfstitill var fyrir þá og voru þeir ýmist
titlaðir ljósmæður, ljósfeður eða yfirsetumenn.
Einn þeirra var Jón Jónsson (1792-1861),
bóndi í Eyjafjarðarsýslu, sem veitti fæðandi
konum „alla þá hjálp og aðhjúkrun sem
honum var unnt“. Í Þjóðskjalasafni Íslands er
til vitnisburður hjóna frá 1858 um að Jón hafi
tekið á móti 11 börnum þeirra og farist það
vel úr hendi, „bæði með aðhjúkrun og öllum
notalegheitum sem nokkur yfirsetukona getur
veitt bæði börnunum og barnsmæðrunum.“
Umræða um karlmenn sem ljósmæður
á Alþingi árið 1911
Ísland er ekki sér á báti þegar kemur að kynja-
hugmyndum um ljósmæðrastarfið. Körlum
var ekki útskúfað úr ljósmæðrastétt en sterk
staðalímynd ljósmæðra sem kvenna gerir
það að verkum að þeir fara ekki inn í þessa
starfstétt. Þó er ekki hægt að segja að saga
karla sem sinntu ljósmóðurstörfum á Íslandi
fyrr á öldum sé óskrifað blað. Í doktorsritgerð
minni, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880
sem ég varði við sagnfræði- og heimspekideild
árið 2016, birtast niðurstöður athugana á
yfirsetukvennastörfum 56 karlmanna á Íslandi.
Um aldamótin 1900 var íslensk læknastétt
eingöngu skipuð karlmönnum og svo hafði
verið frá stofnun landlæknisembættisins 1760.
Á sama tíma aðstoðuðu karlmenn, ómenntaðir
í yfirsetukvennastörfum, konur við að koma
börnum í heiminn. Þegar líða tekur á 20.
öldina hverfa þeir af sjónarsviðinu.
Í umræðum um réttindi kvenna til embætta á
Alþingi árið 1911 varpaði Eggert Pálsson því
fram að fela ætti körlum yfirsetukvennastörf
alveg eins og konum. Hann talaði einnig um
hvað stæði í vegi fyrir því að konur gerðust
læknar. Hann taldi ekkert því til fyrirstöðu
og benti á að yfirsetukonur þyrftu að
ferðast langar leiðir, oft yfir erfiða fjallvegi í
kafaldssnjó og frosti alveg eins og karlarnir,
þ.e. læknar í vitjunum. „Ef konur geta ekki,
ferðalaganna vegna, verið læknar, geta þær
ekki heldur verið yfirsetukonur, það liggur
í augum uppi,“ sagði Eggert. Er þá ekki rétt,
bætti hann við í gamansömum tón, „að fela
körlum yfirsetukvennastörfin?“ Málflutningur
hans fékk engan hljómgrunn hjá öðrum
þingmönnum.
Þó höfðu verið glufur í fyrstu
yfirsetukvennalögum sem sett höfðu verið á
Íslandi rúmum 36 árum áður, þ.e. árið 1875.
Það hafði verið möguleiki að setja karlmenn
sem yfirsetukonur með ráði sýslunefndar
og læknis ef engin lærð yfirsetukona
fékkst í starfið. Í krafti þessara laga var
Egill Gottskálksson (1819-1887), bóndi í
Skagafjarðarsýslu, sem hafði í mörg ár „þjónað
ljósmóðurstörfum“, settur yfirsetukona. Í
Skagfirzkum æviskrám var Agli lýst sem
heppnum yfirsetumanni sem tók á móti um
600 börnum.
Þorsteinn Þorleifsson (1824-1882), bóndi
og járnsmiður í Strandasýslu, sinnti fæðandi
konum rétt eftir miðja 19. öld þó ekki væri
hann settur í embættið. Hann átti fæðingartöng
sem hann smíðaði sjálfur og notaði þegar
konur gátu ekki fætt af sjálfdáðum.
Aðhjúkrun og
fæðingaraðstoð
karla á Íslandi
Dr. Erla Dóris Halldórsdóttir
sagnfræðingur og hjúkrunarfræðingur
2009
Fíh segir sér úr BHM