Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Page 27
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 91. árg. 2015 25
Námskrá í hjúkrunarfræði HÍ frá haustönn 2015.
Inntökuskilyrði – aðgangspróf
Í meira en tvo áratugi hefur takmarkaður
fjöldi nemanda við hjúkrunarfræðideild
HÍ getað haldið áfram námi við deildina
eftir að hafa þreytt samkeppnispróf eftir
fyrsta misserið (numerus clausus eða
klásus eins og samkeppnisprófin eru
kölluð í daglegu tali). Þessi aðferð við
val á nemendum til náms hefur verið
gagnrýnd með þeim rökum að tími ungs
fólks nýtist illa, auk streitu og álags sem
samkeppnisprófum fylgir. Heill vetur getur
farið forgörðum, haustmisseri notað í nám
sem reynist blindgata og erfitt getur verið
að hefja nýtt nám á vormisseri. Því var
ákveðið að endurskoða inntöku nemenda
við hjúkrunarfræðideildina samfara
breytingum á námskrá. Skoðaðar voru
nokkrar leiðir til þess en niðurstaðan var
að nýta aðgangspróf (Apróf) við inntöku
nemenda frá haustmisseri 2015 og feta
þannig í fótspor nokkurra annarra deilda
innan HÍ. Aprófin eru samin með hliðsjón af
færniþáttum námskrár framhaldsskólanna
og eru byggð á erlendum fyrirmyndum
og er þannig ætlað að spá fyrir um
getu nemenda til háskólanáms. Prófað
er í fimm þáttum: upplýsinganotkun,
málfærni, lesskilningi, ensku, stærðum og
reiknanleika og hægt er að sjá sýnidæmi
úr öllum prófþáttunum á vefsíðu HÍ
(Háskóli Íslands, 2015a). Frammistaða
nemenda á Aprófinu mun gilda 70% og
meðaleinkunn á stúdentsprófi í íslensku,
ensku og stærðfræði 30% (Háskóli
Íslands, 2015b). Hjúkrunarfræðideildin
verður tilbúin að taka á móti þeim 100
nemendum haustið 2015 sem standa
best að vígi af umsækjendum. Með
þessu fyrirkomulagi vita nemendur
strax í sumar hvort þeir hafa fengið
inngöngu í Hjúkrunarfræðideild og mun
því létta á óvissunni og streitunni sem
samkeppnisprófunum hefur fylgt auk þess
sem kennsluhættir í nýrri námskrá miða
að persónulegri kennslu í minni hópum.
Heimilt er samkvæmt reglum HÍ að
halda Apróf tvisvar á ári og þetta árið
verður það haldið 21. mars og 12. júní.
Búið er að opna skráningu fyrir báða
prófdagana, en henni lauk 13. mars fyrir
fyrra prófið og lýkur 5. júní fyrir seinna
prófið. Hins vegar skal það tekið fram að
nauðsynlegt er að vera með stúdentspróf
þegar sótt er um sjálft hjúkrunarnámið og
lýkur þar skráningu 5. júní. Prófin gilda í
11 mánuði eftir að þau eru tekin og hægt
verður að nýta þau við skráningu í aðrar
deildir skólans sem nota Aprófið við
inntöku nemenda. Próftíminn er samtals
3,5 klukkustundir og er kostnaður við að
þreyta prófið enginn þetta árið þó það
geti breyst þegar fram líða stundir. Nánari
upplýsingar um námið og inntökuskilyrði
í Hjúkrunarfræðideild HÍ má sjá á www.
hjukrun.hi.is og upplýsingar um Aprófin
á http://www.hi.is/a_prof.
Heimildir
Benner, P., Sutphen, M., Leonard, V., og Day, L.
(2010). Educating nurses: A call for radical
transformation. San Fransisco: JosseyBass
on behalf of The Carnegie Foundation for the
Advancement of Teaching.
Háskóli Íslands (2015a). A-próf. Sótt á http://
www.hi.is/a_prof.
Háskóli Íslands (2015b). Inntökuskilyrði
Hjúkrunarfræðideildar HÍ. Sótt á http://www.
hi.is/hjukrunarfraedideild/inntokuskilyrdi.
Námsnefnd Hjúkrunarfræðideildar HÍ, 2012
13 (2013). Greinargerð námsnefndar um
tillögur að breytingu námskrár í grunnnámi í
hjúkrunarfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla
Íslands. Reykjavík: Hjúkrunarfræðideild HÍ.
Velferðarráðuneytið (2012). Velferðarstefna.
Heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Reykjavík:
Velferðarráðuneytið.