Morgunblaðið - 04.11.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 04.11.2019, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. NÓVEMBER 2019 Jólaundirbúningur Hinn árlegi jólabasar Hringskvenna var vel sóttur í gær, en þar var boðin til sölu handavinna Hringskvenna, mest jólavara, og bakkelsi. Allt fé sem safnast rennur sem fyrr óskipt til Barnaspítala Hringsins og er starfið unnið í sjálfboðavinnu. Kristinn Magnússon Síðastliðið vor undirrituðu fé- lags- og barnamálaráðherra og umboðsmaður barna sam- komulag um aukið samstarf í málefnum barna. Með sam- komulaginu tók umboðsmaður barna að sér að móta tillögur um breytt verklag með aukinni áherslu á börn, sem settar verða fram í aðgerðaáætlun stjórn- valda um þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku. Stefnt er að því að þær tillögur liggi fyrir í lok árs, sem er vel við hæfi, en þann 20. nóvember næstkomandi eru þrjátíu ár liðin frá því að Barnasáttmálinn var sam- þykktur af Sameinuðu þjóðunum. Markmið aðgerðaáætlunarinnar er að efla samráð við börn, samanber samþykkt ríkis- stjórnarinnar frá 1. mars síðastliðnum, þar sem segir „að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og tillögu sem felur í sér að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna“. Með samþykktinni var stigið mikið framfara- skref og liggur nú fyrir skýr vilji ríkisstjórn- arinnar, um að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp, sem varða börn með einum eða öðrum hætti, skuli rýnd og mat lagt á áhrif þeirra á stöðu og réttindi barna í ís- lensku samfélagi. Í vinnu umboðsmanns barna hefur verið lit- ið til fyrirmyndarverklags og bestu aðferða í ýmsum löndum og rannsókna fræðikonunnar Lauru Lundy um þátttöku barna. Lundy hefur greint kjarnann í 12. gr. Barnasáttmálans í fjóra meginþætti, sem þurfa að vera til staðar í virku og raunverulegu samráði við börn. Þessi atriði eru: Vettvangur, þ.e. að skapaður sé vettvangur þar sem börn eru örugg og fá að taka þátt. Rödd, að börn fái nauðsynlegar upplýs- ingar og stuðning til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Áheyrn, að raunverulega sé hlustað á börn. Áhrif, sjónarmið barnanna eru tekin alvarlega og hafa áhrif á stefnumótun og ákvörð- unartöku í öllum málum sem varða þau. Í þessari viku verður haldin vinnustofa í Reykjavík þar sem Laura Lundy mun halda fyrirlestur um Lundy-módelið. Einnig heldur Carmel Corrigan, sérfræðingur hjá umboðs- manni barna á Írlandi, erindi, en árið 2015 innleiddi Írland framsækna aðgerðaáætlun um samráð við börn. Einnig flytur félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daða- son, ávarp og umboðsmaður barna mun gera grein fyrir stöðu vinnunnar við aðgerðaáætl- unina. Þá halda tveir fulltrúar úr ráðgjafar- hópi umboðsmanns barna fyrirlestur, þeir Eiður Axelsson Welding og Ísak Hugi Ein- arsson. Vinnustofan er ætluð þeim sem vinna að hagsmunum og málefnum barna og gefst þátt- takendum kostur á að deila reynslu sinni af farsælu samráði við börn ásamt því að koma á framfæri hugmyndum um hvernig slíku sam- ráði sé best háttað hjá stjórnvöldum, stofn- unum og sveitarstjórnum. Þessar hugmyndir verða síðan nýttar í áframhaldandi vinnu við aðgerðaáætlun um þátttöku barna í stefnu- mótun og ákvarðanatöku. Barnaþing Á síðasta ári samþykkti Alþingi breytingar á lögum um umboðsmann barna þar sem kveðið var skýrar á um hlutverk embættisins með áherslu á réttindi barna og Barnasátt- málann. Með samþykkt laganna var lögfest virkt samráð við börn og hlutverk ráðgjafar- hóps umboðsmanns barna. Loks var kveðið á um að umboðsmaður barna boði annað hvert ár til barnaþings þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins en gert er ráð fyrir því að niður- stöður þingsins verði kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum. Fyrsta barnaþingið verður haldið dagana 21. og 22. nóvember næstkomandi og verður þingið stærsti við- burður afmælisárs Barnasáttmálans. Á barnaþingi munu 170 börn taka þátt í þjóðfundi barna, en börnin voru valin með slembivali úr þjóðskrá, og koma alls staðar að af landinu. Markmiðið er að stuðla að aukinni þátttöku barna í samfélagslegri umræðu og lýðræðisstarfi. Áhersla er lögð á að skapa vettvang, á forsendum barna, þar sem þau fá tækifæri til að ræða við önnur börn, fá að láta í ljós skoðanir sínar og upplifa að á þau sé hlustað og mark á þeim tekið, eins og gert er ráð fyrir í greiningu Lundy á þátttöku barna. Á þjóðfundinum gefst börnum jafnframt tækifæri til að ræða hugmyndir sínar og skoð- anir við fullorðna aðila sem geta haft áhrif á stöðu barna, eins og t.d. alþingismenn, ráð- herra, fulltrúa félagasamtaka og aðila vinnu- markaðarins. Umboðsmaður mun síðan vinna að því að niðurstöður þingsins hafi raunveru- leg áhrif á stefnumótun og þróun í málefnum barna. Á næsta barnaþingi verður gerð grein fyrir hvernig sjónarmið barnanna höfðu áhrif á stefnumótun þannig að börn upplifi að þátt- taka þeirra á barnaþingi hafi haft raunveruleg og sýnileg áhrif. Áhersla Barnasáttmálans á þátttöku barna er eitt mikilvægasta framlag hans til valdefl- ingar barna. Segja má að ákvörðun ríkis- stjórnarinnar um mótun sérstakrar aðgerða- áætlunar um þátttöku barna og ákvörðun Alþingis um að halda skuli barnaþing annað hvert ár með þátttöku barnanna sjálfra, sé ein mikilvægasta gjöf þeirra til íslenskra barna á afmælisárinu, og á vonandi eftir að valda straumhvörfum í samráði við börn á næstu ár- um. Eftir Salvöru Nordal » Áhersla Barnasáttmálans á þátttöku barna er eitt mikilvægasta framlag hans til valdeflingar barna. Salvör Nordal Höfundur er umboðsmaður barna. Samráð við börn við stefnumótun og ákvarðanatöku Nú í nóvemberbyrjun er þess víða minnst að fyrir þremur áratug- um urðu stóratburðir sem skóku heimsbyggðina og hafa haft afger- andi áhrif á stjórnmálaþróun, efna- hagsleg samskipti, milliríkjatengsl og líf almennings í fjölmörgum löndum. Mestu breytingarnar hafa átt sér stað í löndum Mið- og Aust- ur-Evrópu en áhrifanna gætir auð- vitað miklu víðar. Hrun alræðisstjórna kommúnista í austurhluta álfunnar, endalok kalda stríðsins og aðlögun þessara ríkja að lýðræði og markaðs- skipulagi að vestrænni fyrirmynd hefur gerbreytt heimsmynd okkar, skapað ótal ný tækifæri en um leið fært okkur ný viðfangsefni, sem stundum hafa reynst flókin úrlausn- ar. Þótt þróunin hafi gengið misvel hjá einstökum ríkjum frá einum tíma til annars og margvísleg vandamál komið upp efast fáir um að þróunin hafi í öllum megin- atriðum verið til góðs og að þær þjóðir sem áður bjuggu í „sæluríkjum sósíalismans“ austan járn- tjalds búi nú við miklu betri lífskjör, lýðræðisleg réttindi og frjálsræði heldur en nokkurn tímann hefði verið hugsanlegt að óbreyttu. Haustið 1989 Atburðir haustsins 1989 áttu sér auðvitað tals- verða forsögu, sem ekki verður rakin hér. Ýmis merki voru um að ríkisstjórnir kommúnista í Mið- og Austur-Evrópu væru að missa tökin og jafn- framt um að stjórnvöld í Sovétríkjunum myndu ekki aðstoða þau við að berja niður andstöðu með hervaldi eins og ýmis dæmi voru um á áratug- unum á undan. Mótmælahreyfingum var farinn að vaxa fiskur um hrygg og tilraunum fólks til að komast vestur fyrir járntjald fjölgaði. Sumarið 1989 má segja að járntjaldið hafi farið að rofna á landamærum Ungverjalands og Austurríkis. Þegar komið var fram á haustið voru Austur-Þjóðverjar, sem máttu ferðast til Ung- verjalands, farnir að streyma þessa leið í stórum stíl. Þegar ungversk stjórnvöld ætluðu að stöðva för Austur-Þjóðverjanna til landamæranna söfn- uðust þeir þúsundum saman í Búdapest og reyndu að leita hælis í sendiráðum þar. Svipaðir hlutir gerðust á sama tíma í Tékkóslóvakíu. Mót- mæli færðust mjög í aukana í Austur-Þýskalandi í september og október og stjórnvöld þar höfðu augljóslega enga stjórn á atburðarásinni. Þann 4. nóvember safnaðist hálf milljón manna saman á mótmælum á Alexanderplatz í Berlín og aðgerðir breiddust enn frekar út næstu daga, jafnt í Berlín sem öðrum stórborgum Austur-Þýskalands. At- burðirnir náðu svo hámarki að kvöldi 9. nóvember þegar landamærastöðvar í Berlín opnuðust, sennilega að einhverju leyti fyrir fum og fát æðstu valdamanna alþýðulýðveldisins og misskilning meðal stjórnenda landamæra- lögreglunnar. Flóðbylgja fólks sem vildi komast vestur varð ekki stöðv- uð og almennir borgarar hófust handa við að brjóta niður múrinn sem hafði skilið að vestur- og aust- urhluta borgarinnar í áratugi. Táknmynd kúgunar Berlínarmúrinn var sýnilegasta tákn skiptingar Evrópu á tímum kalda stríðsins. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var Þýska- landi skipt milli austurs og vesturs; Vesturhlutinn varð Sambandslýð- veldið Þýskaland sem tilheyrði vest- urblokkinni og austurhlutinn varð Alþýðulýðveldið Þýskaland sem varð leppríki Sovétríkjanna. Berlín var einnig skipt og varð Vestur-Berlín nokkurs konar eyja í miðju Austur-Þýskalandi. Austur- Þjóðverjar bjuggu ekki við ferða- frelsi og voru miklar takmarkanir á möguleikum fólks til að fara á milli borgarhlutanna í Berlín. Margir íbú- ar austurhlutans lögðu þó mikið á sig til að komast vestur yfir og til að hindra það reistu austurþýsk stjórnvöld múr og margvíslegar aðrar landamærahindranir á mörkum borgarhlutanna árið 1961 til að stöðva fólksflóttann. Yfirvarp þeirra var að nauðsynlegt væri að reisa varn- armúr til að verjast ásælni og yfirgangi fasista í vestri. Múrinn var áhrifamikil leið til að hindra flótta fólks frá austri til vesturs. Margir reyndu engu að síður að komast yfir, og talið er að hátt í 200 manns hafi beðið bana í flóttatilraunum á þeim 28 árum sem múrinn stóð. Ekki aftur snúið Þegar fréttir bárust af atburðunum í Berlín þessa daga í nóvember 1989 varð öllum ljóst að ekki yrði aftur snúið. Bylgjur frelsis risu hærra í öllum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og ríkis- stjórnir kommúnista, sem setið höfðu í skjóli Sov- étríkjanna, féllu hver á fætur annarri. Þýskaland var sameinað að nýju ári síðar og jafnvel Sovét- ríkin sjálf leystust upp 1991. Það sem við tók var ekki fullkominn heimur eða þróun án vandamála, en engum á að dyljast að við tók miklu betra ástand en nokkur hafði látið sig dreyma um á dög- um kalda stríðsins. Þegar við minnumst þess að 30 ár eru liðin frá þessum viðburðum er okkur hollt að minnast þess að það frelsi og þau borgaralegu réttindi sem við búum við eru því miður hvorki sjálfsögð né sjálf- gefin. Aðeins 30 ár eru frá því að hálf Evrópa bjó við stjórnarfar kúgunar, þar sem tjáningarfrelsi, fundafrelsi, ferðafrelsi, atvinnufrelsi og svo mörg önnur frelsisréttindi voru fótum troðin. Það er viðvarandi viðfangsefni – og um leið skylda okkar – að varðveita þessi réttindi og um leið að standa vörð um það þjóðskipulag sem tryggir þau best. 30 ár frá falli Múrsins Eftir Birgi Ármannsson » Frelsið og þau borgara- legu réttindi sem við búum við eru því miður hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Birgir Ármannsson Höfundur er alþingismaður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.