Læknablaðið - Jan 2020, Page 15
LÆKNAblaðið 2020/106 15
R A N N S Ó K N
Næmigreiningar eru mikilvægar til þess að gefa vísbendingar
um það hversu næm greiningin er fyrir þeim forsendum sem
gefnar eru. Forsendur kostnaðarnytjagreiningarinnar voru næmi-
greindar fyrir eftirfarandi þætti: Afvöxtunarstuðli (0%, 3% og
10%), vinnugetu og tímaramma rannsóknarinnar (5 ár, 10 ár og
út lífið). Næmigreining á ofantöldum forsendum sýndi að grein-
ingin var næmust fyrir því að forsendur um aukna vinnugetu eftir
endurhæfingu gengju eftir þar sem aukin vinnugeta var stærsti
kostnaðarþátturinn í greiningunni.
Umræða
Rannsókn á verkjasviði Reykjalundar sýnir að þverfagleg meðferð
þrálátra verkja á endurhæfingarstofnun gefur góða raun. Þá hef-
ur endurhæfingin einnig jákvæð áhrif á ýmsa fylgifiska þrálátra
verkja, svo sem kvíða, depurð og ótta og hliðrunaratferli. Enn
fremur leiddi meðferðin til aukinnar félagslegrar virkni skjól-
stæðinganna, þar með talið vinnufærni. Hér hefur verið getið um
nokkrar af niðurstöðum rannsóknar sem fram fór á verkjasviði
Reykjalundar árin 2004-2011. Sérstaklega hefur verið fjallað um
árangurinn hvað varðar aukna vinnufærni skjólstæðinga eftir
þverfaglega verkjameðferð. Vert er að benda á að verkir minnkuðu
hjá sjúklingunum í heild eftir 6 vikna endurhæfingu þrátt fyrir að
markvisst hafi verið dregið úr daglegri verkjalyfjanotkun á sama
tíma. Áherslan í endurhæfingu sjúklinga með þráláta verki er í
dag fyrst og fremst á færni sjúklinganna (líkamlega, andlega og
félagslega).
Mjög stór hluti endurhæfingarstarfs er í eðli sínu starfsendur-
hæfing og á það ekki síst við þegar um er að ræða einstaklinga
með þrálát stoðkerfiseinkenni eins og hér hafa verið til umfjöllun-
ar. Rannsóknir, klínískar leiðbeiningar og gagnreynd læknisfræði
hafa sýnt að þeim einstaklingum með stoðkerfisverki vegnar best
sem eru virkir og halda áfram störfum þrátt fyrir verki.38-40 Sömu
heimildir hafa jafnframt sýnt að þverfagleg endurhæfing með
hugrænni nálgun er ein besta meðferðin fyrir fólk sem glímir við
þrálát verkjavandamál í stoðkerfinu.
Þar sem ekki er um eiginlegan viðmiðunarhóp að ræða og ann-
ar sjúklingahópur er ekki tiltækur, er tímabilið fyrir innlögn notað
sem viðmið fyrir hefðbundna meðferð. Gengið er út frá því að ef
ekki kæmi til meðferðar myndu lífsgæði hópsins haldast óbreytt
og einnig vinnugeta. Að sama skapi er gert ráð fyrir því að meðal-
tal heilbrigðiskostnaðar fyrir innlögn haldist óbreytt ef ekki kæmi
til meðferðar. Illa hefur gengið að gera spálíkön varðandi fram-
vindu þrálátra verkjavandamála41 og því erfitt að meta árangurinn
ef ekki hefði komið til verkjameðferð á Reykjalundi.
Einstaklingarnir mátu sjálfir hvort þeir væru vinnufærir í
þessari rannsókn og því varð að áætla bæði vinnuframlag og eins
vinnulaun. Stuðst var við erlendar rannsóknir á vinnuframlagi
þeirra sem eru vinnandi34 þar sem íslenskar rannsóknir eru ekki
til á þessu sviði. Þar sem breyting á vinnugetu er stærsti kostn-
aðarþátturinn er greiningin næmust fyrir breytingum á þessum
Tafla II. Lýsandi tölfræði, meðaltöl og staðalfrávik fyrir öll mælitæki frá komu á göngudeild og til komu í þriggja ára eftirfylgdar ásamt niðurstöðum úr dreifigreiningu
fyrir endurteknar mælingar ásamt áhrifastærðum.
Mælingar Göngudeild
(T1)
Innlögn
(T2)
Útskrift
(T3)
1 árs eftirfylgd
(T4)
3 ára eftirfylgd
(T5)
F-próf p-gildi Eta (η2)
M (Sf) M (Sf) M (Sf) M (Sf) M (Sf)
Gæðaár (QALY) 0,54 (0,8) 0,54 (0,06) 0,63 (0,09) 0,61 (0,10) 0,60 (0,08) 35,62 <0,001 0,243
Verkjakvarði (NRS) 6,1 (2,08) 6,1 (1,99) 4,9 (2,21) 5,1 (2,07) 5,3 (2,04) 12,74 <0,001 0,104
Ótti og hliðrun (FABQ) 39,9 (13,72) 38,3 (13,97) 29,7 (16,10) 31,62 (15,36) 33,97 (14,01) 18,60 <0,001 0,145
Kvíði (BAI) 15,1 (10,63) 12,3 (9,62) 7,9 (7,62) 11,0 (8,56) 10,7 (7,51) 19,44 <0,001 0,150
Þunglyndi (BDI-II) 19,5 (10,35) 18,5 (10,01) 9,9 (8,62) 13,3 (9,36) 13,2 (7,82) 37,86 <0,001 0,256
Félagsleg virkni (SF-36–SF) 49,5 (22,00) 49,1 (19,34) 64,9 (22,5) 65,8 (20,95) 60,0 (21,75) 21,9 <0,001 0,166
Tafla III. Útreikningar á mismun kostnaðar (í íslenskum krónum) með og án endurhæfingar og munur á gæðaárum.
Kostnaður án endurhæfingar (k1) Kostnaður við endurhæfingu (k2) Mismunur (k1-k2) Gæðaár munur
3 ár 1.329.529,- 981.613,- 347.916,- 0,15
5 ár 2.113.713,- 235.607,- 1.878.106,- 0,24
10 ár 3.769.861,- -1.244.233,- 5.014.094,- 0,42
Út lífið 8.623.221,- -3.532.980,- 12.156.201,- 0,97
Mynd 2. Fjöldi sjúklinga (%) sem snúa aftur til starfa miðað við klínískt viðmið (<29) á
FABQ-W frá komu á göngudeild (T1) til komu í þriggja ára eftirfylgd (T5).