Læknablaðið - jan. 2020, Blaðsíða 51
R I T D Ó M U R
Vilhelmína
Haraldsdóttir
blóðmeinalæknir á
Landspítala og formaður
Félags áhugamanna um
sögu læknisfræðinnar
vilhehar@landspitali.is
Nýlega kom út bókin Lífsgrös og leyndir
dómar eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur
þjóðfræðing. Bókin hefur verið tilnefnd til
Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019 í
flokki fræðibóka.
Ólína flutti afar áhugavert og skemmti-
legt erindi á nýlegu málþingi Félags
áhugamanna um sögu læknisfræðinnar
þar sem fjallað var um galdra og lækn-
ingar. Ég taldi mig því hafa mjög góða
hugmynd um efni bókarinnar áður en ég
hóf lesturinn. Bókin var þó enn læsilegri
og fróðlegri en ég átti von á.
Bókin byrjar á stuttum kafla um upp-
haf lækninga á heimsvísu. Þar er stiklað á
stóru en kaflinn setur engu að síður þróun
lækninga á Íslandi og á Norðurlöndunum
í alþjóðlegt samhengi þess tíma. Það er
líka alltaf áhugavert að lesa um Íslendinga
sem stunduðu lækningar og ferðuðust
um Evrópu og fylgdust með því hvað var
að gerast þar í fræðunum. Þannig er talið
líklegt að Hrafn Sveinbjarnarson hafi far-
ið til Salerno á Suður-Ítalíu og leitað sér
þekkingar þar og að Ísleifur Gissurarson
biskup, sem sinnti lækningum, hafi numið
lækningar í klausturskóla í Þýskalandi.
Það er því alls ekki nýtilkomið að fara utan
til að leita sér þekkingar í læknisfræði.
Fjallað er um lækningar að fornu hér á
landi og nokkuð ítarlega um Hrafn Svein-
bjarnarson sem almennt er talinn vera
fyrsti íslenski læknirinn. Ólína rökstyður
þá skoðun sína að lækningabókin AM 194
8vo sem skrifuð var á Geirröðareyri nú
Narfeyri á Snæfellsnesi árið 1387 byggist
á lækningabók Hrafns en þar bjó Guðrún
systir Hrafns og Einar sonur hans dvaldi
þar eftir víg föður síns. Bókina nefnir hún
því Hrafnsbók.
Næst fjallar Ólína um særingar, töfra-
þulur og galdrafárið. Ólína ritaði doktors-
ritgerð um galdramálin á Íslandi og þar
kemur fram að ekki var óalgengt að fólk
væri dæmt á bálið vegna tilrauna til lækn-
inga. Á þessum tíma voru mörkin milli
lækninga og galdra oft mjög óljós.
Sérstakur kafli er um konur og lækn-
ingar. Konur voru áberandi sem læknar í
orustum í Íslendingasögunum, svo sem or-
ustunni á Stiklastöðum í Noregi árið 1030,
en síðar breyttist verksvið kvenna og þær
sinntu síður lækningum en voru fyrst og
fremst yfirsetukonur. Þó nokkrar frásagnir
eru af barnsfæðingum og fæðingarhjálp
og það fer ískaldur hrollur um mann við
að lesa um hve mikið hættuspil fæðingin
var fyrir móður og barn. Þá var gott fyrir
fæðandi konu að halda um lausnarstein
sér til halds og trausts. Lausnarsteininn
átti að geyma í hveiti milli nota og vefja
hann svo í hreint léreft eða líknarbelg. Það
er áhugavert að lesa um orðið læknir en
í fornbókmenntunum voru allir nefndir
læknar, jafnt konur sem karlar, ef þeir
höfðu þannig kunnáttu til að bera.
Síðar fór að bera á sérhæfingu í lækn-
ingum, í grasalækningar sem þróuðust
í lyflækningar, og í handlækningar sem
bartskerar sinntu um tíma. Nokkuð er
fjallað um grasalækningar sem byggð-
ust aðallega á jurtum, bæði til inntöku
og í bökstrum. Hér á landi hafa fundist
merki um að jurtir hafa verið ræktaðar til
lækninga. Þá er fjallað um handlækningar
þar sem búið var um sár, hleypt úr sulli,
brennt fyrir blæðingar og svo allar blóð-
tökurnar en um þær giltu flóknar reglur
sem er erfitt að skilja nú á tímum.
Í viðauka bókarinnar er mjög ítarlegt
yfirlit um íslenskar lækningajurtir, erlend-
ar lækningajurtir og lækningasteina sem
voru taldir mjög nytsamlegir, sérstaklega
þegar kona var í barnsnauð.
Bók Ólínu er bæði fróðleg og skemmti-
leg. Ólína hefur sagt að bókin hafi verið
lengi í bígerð, í allt að 20 ár. Tímasetning
útgáfunnar er ábyggilega góð. Hjá Félagi
áhugamanna um sögu læknisfræðinnar
finnum við að það er mikill áhugi á sögu
lækninga hér á landi og góð aðsókn er
að fræðslufundum félagsins. Þá er mik-
ill áhugi hér á landi á náttúrulyfjum og
margir munu vilja lesa um lækningajurt-
irnar sér til gagns og gamans.
Lífsgrös og leyndir dómar
eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur
LÆKNAblaðið 2020/106 51