Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Side 9
katrín axelsdóttir
„Hefir hver til síns ágætis nokkuð“
Breytingar á hlutverkadreifingu nokkurra óákveðinna fornafna
1. Inngangur
Óákveðin fornöfn, í íslensku jafnt sem öðrum málum, eru nokkuð sundur -
leitur flokkur orða sem ekki er auðvelt að skilgreina, sbr. t.d. Mörð Árna -
son (1991:58–60), Margréti Jónsdóttur (1991:153) og Höskuld Þráinsson
(2005:95–96).1 Svolítið misjafnt er eftir ritum hvaða orð eru talin til óákveð -
inna fornafna. Mörg þeirra vísa til magns eða fjölda, s.s. allur, báðir, enginn,
einhver, hvorugur, neinn og nokkur, og eru ásamt töluorðum stundum köll -
uð magnorð (e. quantifiers). Ljóst er að vísun þessara orða er mis nákvæm.
Allur, báðir, enginn, hvorugur og neinn vísa til ákveðins magns en vísun
ein hver og nokkur er óákveðnari ef svo má segja.
Hér er ekki ætlunin að ræða fyrri skilgreiningar óákveðinna fornafna
(né að bæta þar úr) heldur athuga hvaða merkingu eða hlutverk sum þeirra
hafa haft í íslensku fyrr og síðar. Samanburður við önnur mál kemur einnig
við sögu enda geta hlutverk sumra óákveðinna fornafna verið nokkuð mis -
munandi frá einu máli til annars; íslenska orðið nokkur er t.d. ekki eins
fjölhæft og danska frændorðið nogen.
Hlutverk nokkurra óákveðinna fornafna, einkum einhver, nokkur, neinn
og enginn, verða hér á eftir athuguð út frá sjónarhóli sem Martin Haspel -
math mótar og lýsir í bókinni Indefinite Pronouns frá 1997. Rannsóknin sem
fjallað er um í bókinni er málgerðarfræðileg (týpólógísk); Haspel math
kannar m.a. merkingu eða hlutverk tiltekins mengis óákveðinna fornafna í
fjölda tungumála af ýmsum ættum, finnur hvað er líkt og hvað ólíkt og setur
fram lögmál eða alhæfingar um hlutverkadreifingu fornafnanna. Helstu
niðurstöður bókarinnar eru hversu fjölbreytileg hlutverkadreifingin er og
hversu óstöðug hún virðist almennt vera. Íslenska er eitt þeirra tungumála
Íslenskt mál 40 (2018), 9–40. © 2019 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
1 Ég þakka starfsmönnum fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (ONP), eink-
um Ellerti Þór Jóhannssyni, fyrir samvinnu og stuðning á meðan þessi grein var í smíðum
sumarið og haustið 2017. Aðalsteini Hákonarsyni, ritstjórum og ritrýnum Íslensks máls
þakka ég yfirlestur og gagnlegar ábendingar. Þá eiga þakkir skildar þeir fjölmörgu sem
lögðu mat á setningar sem eru ræddar í kafla 2.3.