Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Síða 23
a.m.k. í máli sumra. Í fornu máli verður ekki vart við slíka verkaskiptingu,
þar kemur nokkur fyrir í hvers konar skilyrðissetningum, bæði þeim sem
tjá litlar væntingar og hlutlausum setningum eins og (16):
(16) Vil eg að þú leitir aldrei annarra en mín ef þú þarft nokkurs við.
(Njáls saga, 47. kafli; hlutverk 5: skilyrði)
Önnur hlutverk sem nokkur-röðin gegnir í nútímamáli (óbein neitun,
bein neitun og samanburður) eru sambærileg í fornu máli:
(17) a. og bað hana að varast að mæla nokkuð við hann … (Njáls saga, 87.
kafli; hlutverk 6: óbein neitun)
b. Þorgeir svarar: „Eigi hafði hann nokkurar sakar til móts við mig
en hitt var satt að eg mátti eigi við bindast er hann stóð svo vel til
höggsins.“ (Fóstbræðra saga, 8. kafli; hlutverk 7: bein neitun)
c. og var [Gissur] miklu betur metinn í Róma en nokkur íslenskur
maður fyrr honum … (Sturlunga saga, ONP StuIK 24720, hdr. um
1350–1370; hlutverk 8: samanburður)
Ljóst er að fornafnið nokkur hefur verið geysilega fjölhæft í fornu máli.
Hér hafa verið sýnd dæmi um það í hlutverkum 1–8, en þetta er sama fjöl-
hæfni og någon hefur í nútímasænsku (sjá mynd 3).
3.2.2 Hlutverk sem einhver gegndi
Fornafnið einhver gat í fornu máli gegnt hlutverkum 1–3 og 5, rétt eins og
það gerir í nútímamáli. Það er því ekki svo að á þessum hluta tengsla-
kortsins hafi nokkur-röðin verið einráð að fornu og síðan hopað fyrir ein-
röðinni; báðar raðirnar koma fyrir í þessum hlutverkum í fornum ritum.
Í (18) eru dæmi um einhver í þessum hlutverkum:
(18) a. „Áttu gersemi mikla í bjarndýri?“ Hann [Auðun] svarar og kveðst
eiga dýrið eitthvert. Konungur mælti: Viltu selja oss dýrið …“
(Auðunar þáttur vestfirska, ONP AuðMork 18120, hdr. um 1275;
hlutverk 1: tiltekið og þekkt)
b. Þórólfur sagði að hann vill enn fara einhverja ferð, „og á eg
nauðsynleg erindi til fararinnar …“ (Egils saga, ONP EgM(2001)
5431, hdr. um 1330–1370; hlutverk 1: tiltekið og þekkt)
c. Grettir gefur honum [Gísla] tóm til að kasta því sem honum líkar
og í hvert sinn er Gísli sér ráðrúm til kastaði hann einhverju
klæði. (Grettis saga, 59. kafli; hlutverk 2: tiltekið og óþekkt)
„Hefir hver til síns ágætis nokkuð“ 23