Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 27
geti haft merkinguna ‘einstæður’.21 En bent hefur verið á að dæmi kunni
að vera um svipaða merkingu (‘stakur’) í fornu máli (Katrín Axelsdóttir
2014:248). Að minnsta kosti er ekki ástæða til að gera mikið úr dæminu í
(20a). Í (20b) virðist einhver kallast á við neitunina eigi. En Hirðskrá er
norskt rit og þetta getur ekki talist traust dæmi um stöðuna í fornís -
lensku. Í dæmum (20c–e) felst neitunin í fornafninu engi (nú enginn). En
það er ólíklegt að fornafnið einhver í kjölfar þess teljist vera neikvæðisorð.
Í nútímamáli kemur einn stundum í kjölfar enginn í samhengi sem minnir
sterklega á samhengið í (20c–e): það var enginn einn [‘einstakur’] sem skar -
aði fram úr. Ekki er hægt að greina einn hér sem neikvæðisorð enda er
merkingin önnur.22 Og þar með er líka hæpið að greina einhver í (20c–e)
sem neikvæðisorð. Dæmin í (20f–g) eru áþekk dæmunum í (20c–e).
Munurinn er sá að hér er ekki fornafnið engi heldur neitunin eigi. Þessi
orð eru lík og auðvelt að ruglast á þeim við afritun.23 Ekki er ósennilegt
að þessi dæmi hafi upphaflega verið sambærileg við dæmin í (20c–e) og
því vafasamt að byggja mikið á þeim. Í (20h) er að líkindum eitthvað
afbakað, í stað einnhverra ætti að vera nf.kk.et. einnhver (eða einhver). En
einhver þarf þar ekki endilega að kallast á við neitunarorðið eigi. Í þessu
dæmi er ekki aðeins neitun heldur líka samanburður og í samanburði
(hlut verki 8) getur fornafnaval verið annað en í neitunarhlutverkum. Það
er því nauðsynlegt að spyrja hvort framkallar valið á einhver þarna, neit-
unin eða samanburðurinn. Það hlýtur að vera samanburðurinn. Einhver
vísar þarna til heildarfjölda (allra annarra),24 rétt eins og nokkur gerir yfir-
leitt í samanburðarsetningum í nútímamáli (Hann getur hlaupið hraðar en
nokkur annar í bekknum = ‘hraðar en allir aðrir í bekknum’).25
„Hefir hver til síns ágætis nokkuð“ 27
21 Í orðabók Cleasby (1874:122) er dæmið í (20a) haft meðal dæma um fornafnið ein-
hver í merkingunni ‘sérhver, hver og einn’. Sú greining er ólíkleg, sbr. Katrínu Axelsdóttur
(2014:247–248).
22 Einn (eða föst sambönd með því orði) má vissulega sjá í nútímamáli í neikvæðissam-
hengi: Ég á ekki eitt einasta/aukatekið orð. Einn virðist í fornu máli hafa getað verið
neikvæðisorð:
(i) Þetta er gamans frásögn og eigi söguligt eins kostar nema fyr þá sök að hér er
lýst grein speki og óvisku. (Morkinskinna, ONP Mork 2154, hdr. um 1275)
En einn og samsvarandi orð í öðrum málum eru ekki til umfjöllunar hjá Haspelmath og
verða ekki rædd frekar hér. Notkun einn er reyndar mjög áhugaverð enda margslungin.
23 Þau eru auk þess oft bundin í handritum, og stundum með þeim hætti að þau eru
nauðalík; engi er t.d. stundum ritað „eigi“, með nefhljóðsbandi fyrir ofan fyrra i-ið.
24 Fylgismönnum Sverris finnst þarna ófært að þjóna manni nema sá sé hærra settur
en þeir sjálfir, þ.e. þeim öllum æðri.
25 Þótt nokkur í samanburðarsetningum vísi yfirleitt til heildarfjölda er það ekki algilt